Litla þorpið mitt Lugros

höf: maria

Ég man alltaf eftir því þegar ég var yngri hvað það fór fyrir brjóstið á mér þegar fólk talaði um að maturinn á Spáni væri svo vondur og að Spánn væri skítugt og sjúskað land. Ég gat aldrei skilið hvað fólk var að meina fyrr en árið 2010. Þá fyrst áttaði ég mig á því að Spánn er ekki sama og Spánn. Ég hafði aldrei verið ferðamaður á Spáni heldur fór ég reglulega, frá því ég flutti heim til Íslands, í sumarheimsóknir til pabba og ættingja minna á Spáni. Þar fékk ég alltaf svo góðan mat og lífið þar var yndislegt.

Árið 2010 ákvað ég svo að prufa að vera ekta túristi á Spáni. Ég keypti mér ferð til Torremolinos og var þar á hóteli. Ég ákvað að prufa alla skemmtigarða sem voru í boði og flatmaga á sundlaugarbakkanum frá morgni til kvölds. Veitingastaðirnir voru allir í einni runu við strandlengjuna og buðu þeir flestir upp á upphitaðar frosnar pizzur eða mat hitaðan í örbylgjuofni. Þar kom það, nú skildi ég hvað fólk var að tala um !!

En sannleikurinn er sá að ekkert á Torremolinos var ekta Spánn. Ekki maturinn né menningin. Ferðamannastaðir á Spáni eru margir hverjir bara leiksvið uppfullir af minjagripum fyrir ferðamenn og veitingastöðum sem eiga ekkert skylt við spænska matarmenningu. Mér fannst ég aldrei vera á Spáni þegar ég var stödd þarna þó ég hefði samt haft gaman af ferðinni sem slíkri. 

Svipmyndir frá Lugros sem ég hef tekið, hvíta húsið með gulum boga yfir dyrunum er kirkjan sem er staðsett á torginu. Á hverjum degi fara konurnar í Lugros þangað í síðdegismessu og má heyra ómin af Maríubænum út á torg 

Þó sum húsin í Lugros hafi ekki glæsilegt yfirbragð er stundum ótrúlegt að koma inn í þau, en oft eru þau mjög glæsileg að innan

Í þessari sömu ferð fór ég svo upp í litla fjallaþorpið mitt Lugros og þá loks var ég komin til Spánar !!

Lugros, litla þorpið mitt, er yndislegt 400 manna þorp, með hvítkölkuðum húsum, lengst uppi í Sierra Nevada þjóðgarði. Þjóðgarðurinn er staðsettur í Granada héraði á suður Spáni. Nafnið Lugros þýðir úlfur, en áður fyrr var mikið um úlfa í fjalllendinu, sem í dag eru þó útdauðir. Í fjöllunum er einnig að finna spænsku fjallageitina sem er í útrýmingarhættu og er sekt eða fangelsisvist viðurlög við því að drepa eða skaða hana.

Lugros er svo hátt uppi að maður fær hellur í eyrun fyrstu dagana eftir að þangað er komið, en það er 1200 m yfir sjávarmáli. Til að komast þangað upp þarf maður að keyra fram hjá fjölda lítilla fjallaþorpa, þar sem búa sígaunar í hellishúsum eða í svokölluðum Cuevas. Cuevas er gluggalaust hús sem hoggið er inn í fjallshlíð, eða eins konar hellir í formi húss. Þar er hlýtt á veturnar og svalt á sumrin.

Cuevas sem eru hellishús Sígauna

Eftir frekar óhugnalega ferð í gegnum gamla vegi, efst uppi í háum fjallshlíðum, þar bíður Lugros. Þar má finna eina litla matvöruverslun í heimahúsi og einn bar á torginu eða upp á plaza. Svo er þar sundlaug með Chiringuito sem þýðir í raun hressingabar við laugina, þar sem er hægt að kaupa tapas rétti, gos og ís.

 Að vera í Lugros er ævintýri líkast. Þar eru íbúarnir afar lágvaxnir og þyki ég meðalstóra konan afar hávaxin í augum þeirra. Ég fæ að heyra reglulega ,,que alta” sem þýðir ,,en hávaxin”, sem mér þykir alltaf afar fyndið þar sem ég er 164 cm á hæð 

Að koma til Lugros er eins og að fara 50-100 ár aftur í tímann. Íbúarnir eru flestir heitttrúaðir kaþólikkar. Þá einna helst konurnar sem mæta í síðdegismessu að biðja Maríubænir, sumar hverjar daglega. Á sunnudögum klæða þær sig svo í sitt fínasta og fara í sunnudagsmessu. Svo er farið beint á barinn á eftir að ,,tomar algo” sem þýðir að fá sér hressingu.

Í Lugros ríkja gamaldags viðhorf og þar á konan að sjá um manninn sinn og stjana í kringum hann. Árið 2012 kom Raggi með mér þangað í fyrsta skiptið og þar var stjanað við hann eins og kóng og mikið var hann ánægður.

Stjanað við Ragga eins og kóng

Þorpið er samansett af nokkrum ættum og er ættin mín ein af þeim. Ég hef ekki tölu á því hversu margir þar eru skyldir mér. Ég man þegar ég fór þangað 13 ára, rétt eftir fermingu, þá fékk ég algjört menningarsjokk, og þurfti nánast áfallahjálp. Þar þurfti ég að kyssa alla á báðar kinnar og önnur hver manneskja var frændi eða frænka mín. Þá hafði ég ekki komið í þorpið síðan ég var smábarn og mundi því lítið eftir því,en ég var uppalin í Gerona í Katalóníu til 5 ára aldurs.

Mikið er ég fegin að hafa fengið að fara þangað því upp frá því hef ég eingöngu lagt leið mína í þorpið þegar ég fer til Spánar. Þá dvel ég hjá föðursystur minni titu Paz, (frænku Paz), í góðu yfirlæti þar sem við höfum eytt ófáum stundum í eldhúsinu saman að elda bragðgóðan spænskan mat. Ég mun svo gefa ykkur uppskriftir af þessum bragðgóða mat í komandi framtíð.

Fjölskylda mín á mikið land í Lugros. Þar er að finna fíkju, möndlu- og ólivutré og síðast en ekki síst vínekrur og margt margt fleira.

Gaman að tína gráfíkjur í Lugros 

Þar sem þorpið er statt í miðjum fjallgarði getur snjóað þar á veturnar og hitinn á sumrin verður nánast óbærilegur á köflum. Þá sérstaklega á milli 13 og 17 þegar Spánverjar taka svokallað Siesta. Á Siesta tímanum loka búðir á Spáni og fólk fer heim að borða og leggur sig. Þetta er gamall siður fyrir tíð loftkælinga, þegar óbærilegt var að stunda vinnu á heitasta tíma dagsins. Spánverjar halda mjög fast í gamlar hefðir og ríkir þessi siður því enn á minni stöðum á Spáni.

Við tita Paz að taka siesta, þá drögum við fyrir sólina og horfum á eina góða suður -Ameríska sápuóperu þar sem er mikil dramatík í gangi 🙂

Myndir úr ferðinni okkar sumarið 2016

Í Lugros er yndislegt að vera en þaðan er stutt í alla þjónustu. Næsta þjónustustöð er bærinn Guadix sem er á stærð við Hafnarfjörð. Þar má finna ýmsar verslanir og þjónusu. Svo er ekki nema klukkutíma verið að keyra til Granada borgar þar sem allt er til alls. Granada var síðasta vígi araba og þar er að finna hinna frægu Alhambra höll sem enginn ætti að missa af að sjá.

Gabríela (fremst til hægri) árið 2010, í leik með spænskum frændsystkinum upp á torgi/plaza. Gamlar spænskar ömmur í baksýn. Litlu krílin mín sumarið 2016 í Lugros 

Á sumrin koma krakkar alls staðar að til að hitta afa og ömmur í Lugros og þá lifnar þorpið við. Á veturna getur verið lítið um að vera og eru íbúar þar oftast gamalt fólk. Það er þó farið að bera aðeins á því að unga fólkið sem á rætur sínar að rekja til Lugros er byrjað að flytja þangað í auknum mæli. Það er gott því þannig yngist þorpið upp og viðheldur sér. Það er gaman að labba upp á torg og sjá krakkana leika sér þar með látum. Þar líkt og á Íslandi geta börnin verið ein úti að leika og lítil hætta er á að þeim verði rænt, þar sem allir þekkja alla og auk þess er Lugros endastöð.

Hér eru fleiri myndir sem ég hef tekið sjálf í Lugros 

Í Lugros er einn kirkjugarður og sést hann hér á einni myndinni. Á Spáni er fólk ekki grafið í jörðina heldur sett í eins konar skúffur inn í veggi, þetta er gert til að spara pláss. Á einhverja ára fresti eru svo ættmenni sameinuð í kistur til að spara enn frekara pláss. 

Það er ekkert að því að fara á ferðamannastaðina á Spáni og getur það verið ágætis afslöppun og tilbreyting frá íslenskum hversdagsleika, en ef ykkur þyrstir í að kynnast hinum raunverulega Spáni þá mæli ég með að þið bókið ykkur eina og eina nótt inn í landi, þar sem ekki er mikið um ferðaþjónustu, og fáið þannig að kynnast hinum raunverulega Spáni.

Til gamans má einnig geta þess að í Granada og Almeríu koma tapas réttirnir fríir með drykkjum. Ef maður kaupir sér að drekka þá fær maður stundum nánast máltíð með hverjum drykk. Þetta höfum við fjölskyldan stundum nýtt okkur sem hádegismat og buddan sloppið vel. Þar sem túrisminn er ekki í hámarki er líka verðlagið á allt öðru leveli, en það getur stundum alveg munað um 1-2 evrum á ís og drykkjum milli þessara staða. Á okkar tímum er lítið mál að bóka hótelherbergi á bókunarvefum og mæli ég hiklaust með því að ef þið farið í sumarfrí til suður Spánar að drífa sig að sjá local menninguna í litlu þorpunum í kring og njóta í botn.

Takk fyrir mig

María 

 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

4 Athugasemdir

Sveinrún Bjarnadóttir May 14, 2017 - 12:41 pm

Takk fyrir skemmtilega sögu og upplýsingarnar;-)

Svara
maria May 17, 2017 - 8:55 pm

Það var nú lítið 🙂

Svara
Heiðrún November 21, 2018 - 1:34 pm

Takk fyrir þessa sögu um fallega litla þorpið þitt 🙂 Gaman að lesa þar sem ég bý á spáni en á costa blanca svæðinu 🙂 En við fjölskyldan eigum örugglega eftir að fara þarna 🙂

Svara
maria November 23, 2018 - 8:48 am

Það var nú lítið og mæli sko alveg 100 % með því að þið kíkjið á Granada og litlu þorpin þar í kring og fáið ykkur gott tapas með 🙂

Svara

Skrifaðu athugasemd