Kjúklingaleggir í Salsa Sencilla

höf: maria

Hér er á ferðinni enn ein dásamlega uppskriftin frá ömmu minni á Spáni. Pollo en salsa sencilla (lesist Pojo en salsa senþíja).

Þennan rétt hafði ég ekki smakkað heilllengi en í sumar þegar við fórum út til titu Paz bauð hún upp á þennan dásemdarrétt sem ég gat ekki annað en deilt með ykkur.

Rétturinn er alls ekki flókinn og hann er afar barnvænn, en krakkarnir mínir algjörlega elska hann. Sósan er mild en í senn bragðmikil.

Það er bilað gott að hafa með nýbakað baguette brauð til að dýfa ofan í sósuna en á Spáni segjum við Mojar el pan (lesist mohar el pan)

Hann samanstendur af lauk, hvítlauk, gulrótum, möndlum og fleira gúmmelaði sem maður maukar svo í sósu og úr verður þessi dýrðarréttur.

Gott er að bera hann fram með fersku salati og steiktum kartöflum eða kartöflumús. Ef þið kjósið að hafa beinlaust kjöt mæli ég með að nota úrbeinuð læri í réttinn.

Kjúklingaleggir í Salsa Sencilla

Hér er á ferðinni enn ein dásamlega uppskriftin frá ömmu minni á Spáni. Pollo en salsa sencilla (lesist Pojo en salsa senþíja).… Aðalréttir Kjúklingaleggir í Salsa Sencilla European Prenta
Serves: 4
Nutrition facts: 200 calories 20 grams fat

Hráefni

 • 1/2-1 dl olífuolía (skipt upp í tvennt, útskýrist á eftir)
 • 6-8 kjúklingaleggir eða 500r -800 gr úrbeinuð læri c.a 1 bakki 
 • 1/2 dl fínt brauðrasp (ekki þetta appelsínugula grófa) ég notaði Euroshopper 
 • 1 laukur 
 • 4 hvítlauksrif eða einn til einn og hálfur geiralaus hvítlaukur 
 • 2-3 gulrætur 
 • Lúka af möndlum með hýðinu á
 • 2 kjúklingateningar 
 • 400-600 ml soðið vatn 
 • 2 tsk paprikuduft 
 • salt og pipar 

Aðferð

 1. Best er að gera réttinn á djúpri pönnu
 2. Byrjið á að salta vel og pipra kjúklinginn 
 3. Takið næst raspinn og veltið kjúkling upp úr, bara velta létt upp úr þarf ekki að vera alveg þakinn
 4. Hitið næst eins og helminginn af olíunni á pönnu og steikið kjúklinginn vel á alla kanta upp úr olíunni þar til hann verður fallega gylltur, hann þarf ekki að steikjast í gegn bara að raspið verði gyllt
 5. Takið næst kjúklinginn af pönnunni og leggið til hliðar 
 6. Saxið lauk og merjið  hvítlauk og skerið niður gulrót í þunnar skífur
 7. Bætið nú hinum helmingnum af olíunni á pönnuna og mýkjið laukinn ögn í olíunni
 8. Setjið svo gulrætur, hvítlauk og möndlur út á og saltið pínu og piprið og setjið paprikuduft út á
 9. Steikjið í stutta stund og bætið þá við 400 ml (4 dl) af soðnu vatni út á og 2 kjúklingateninga. (Byrjið á 400 ml en ef sósan er of þykk bætið þá við allt upp að 600 ml. Sósan á að vera svona eins og á Indverskum réttum)
 10. Látið sjóða í 10 mínútur undir loki
 11. Takið af pönnuni og kælið í eins og 5 mín eða þar til er aðeins búið að rjúka úr
 12.  Setjið þá í blandara og maukið saman. Það er í lagi að það sé smá kekkjótt ekki mauka eins og barnamat.
 13. Setjið næst kjúklinginn á pönnuna og hellið sósunni úr blandaranum yfir 
 14. Passið að kjúklingurinn fari alveg á kaf í sósuna því hann þarf að soðna þar ofan í
 15. Látið sjóða í eins 25-30 mínútur og hrærið reglulega í svo brenni ekki við botninn
 16. Smakkið til og saltið meira ef þarf

Punktar

Það er mjög gott að hafa með nýbakað baguette brauð til að dýfa ofan í sósuna. Ég kaupi oftast frosin snittubrauð frá merkinu la Baguette. Gott er að bera hann fram með fersku salati og steiktum kartöflum eða kartöflumús. Ef þið kjósið að hafa beinlaust kjöt mæli ég með að nota úrbeinuð læri í réttinn eða jafnvel bringur. Ef þið viljið stærri uppskrift þarf að tvöfalda hana.

This image has an empty alt attribute; its file name is IMG_2874-683x1024.jpg

Verði ykkur að góðu

María

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

Skrifaðu athugasemd