Brownies með öðruvísi retro myntukremi sem kemur á óvart

höf: maria

Þessar Brownie kökur eru smá öðruvísi en fólk á að venjast en myntukremið á milli er eldgömul uppskrift frá 1983 af myntukremi sem mamma gerði alltaf í afmælum mínum þegar ég var krakki.

This image has an empty alt attribute; its file name is IMG_2711-683x1024.jpg

Svo bara einhvernveginn gleymdist hún þar til um daginn að hún rifjaðist allt í einu upp fyrir mér. Mamma þurfti að grafa eftir uppskriftinni en loks fannst hún hjá móðursystur minni.

Kremið er  allt öðruvísi en maður á að venjast, ekki þetta hefðbundna frosties krem, heldur er það svona meira í ætt við sykurpúða eða eins og gumsið  inn í súkkulaðifroskum.

Það passar mjög vel með þessum Brownies kökum sem eru þéttar í sér og afar bragðgóðar. Það er alveg merkilegt að kökurnar eru enn betri því eldri sem þær eru.

Ég er ekki að tala um eitthvað hundgamlar heldur bara alveg upp í nokkra daga, en best er að geyma þær í ísskáp. Ég frysti líka nokkra bita og lét þiðna í kæli.

This image has an empty alt attribute; its file name is IMG_2730-662x1024.jpg

Ef þú ert fyrir súkkulaði og myntu þá ættu þessar að gleðja þig því þær eru bara alveg sakalega góðar. Kakan er þétt í sér svo ég myndi skera hana í frekar smáa bita.

Brownies með öðruvísi retro myntukremi sem kemur á óvart

Þessar Brownie kökur eru smá öðruvísi en fólk á að venjast en myntukremið á milli er eldgömul uppskrift frá 1983 af myntukremi… Bakstur Brúnkur sem klikka ekki European Prenta
Nutrition facts: 200 calories 20 grams fat

Hráefni

Kakan sjálf

 • 230 gr ósaltað smjör
 • 230 gr suðusúkkulaði
 • 300 gr sykur
 • 100 gr ljós púðursykur
 • 4 stór egg við stofuhita
 • 2 tsk vanilludropar
 • ½ tsk salt
 • 85 gr hveiti
 • 20 gr bökunarkakó

Retro myntukrem á milli

 • 1 bolli sykur
 • ½ bolli vatn
 • 5 matarlímsblöð
 • 1 tsk piparmyntudropar
 • Grænn matarlitur en má sleppa

Súkkulaðibráð ofan á

 • 115 gr ósaltað smjör
 • 200 gr eða tvær plötur af myntu suðusúkkulaði

Aðferð

Kakan sjálf

 1. Bræðið súkkulaði og smjör saman í potti við miðlungsháan hita og hrærið stöðugt í á meðan svo brenni ekki
 2. Setjið svo í hrærivélarskál og kælið í 10 mín
 3. Þegar hefur kólnað í þessar 10 mín hrærið þá sykrinum öllum út í súkkulaðið með písk
 4. Bætið nú 1 eggi út í í einu og hrærið með písk áfram bara létt saman
 5. Sigtið næst hveiti og kakó út í blönduna og setið salt og vanilludropa saman við
 6. Hrærið eins lítið saman og hægt er í hrærivélinni svo kakan verði ekki seig en bara rétt þannig að hráefnin blandist saman
 7. Setjið álpappír eða bökunarpappír í mót sem er um 28 x 18 cm eða 23 x33 cm að stærð
 8. Spreyið bökunarspreyi í pappan og  setjið deigið í og bakið við 180 C°blástur í 40-50 mín eða þar til hnífur eða prjónn kemur hreinn upp úr miðju þegar stungið er í kökuna.

Myntukremið

 1. Setjið sykur og vatn í pott og látið sjóða í 10 mín (ekki hræra í á meðan), leyfið því að bubbla í friði
 2. Bleytið matarlímsblöðin í köldu vatni á meðan
 3. Takið sykurvatn til hliðar og leyfið að kólna örlítíð þarf ekki að vera alveg kælt bara mesta hitann úr
 4. Setjið svo sykurblönduna í hrærivél og hrærið á fullum hraða þar til verður svona eins og hvítt á lit
 5. Setjið þá matarlímið (vatn kreist burt), piparmyntudropa og matarlit út í og hærið þar til verður loftkennt
 6. Leyfið því aðeins að stífna og setjið þá á kælda kökuna og stingið kökunni í kæli

Krem ofan á

 1. Smjör og piparmyntusuðusúkkulaði er brætt saman í potti og svo sett yfir piparmyntukremið þegar kakan hefur aðeins kólnað með piparmyntukreminu á í kæli
 2. Leyfið svo kökunni að vera í ísskáp í allavega eins og eina klst áður en hún er borin fram eða meðan súkkulaðibráðin er að stífna

Punktar

Oft myndast svona þurrt upphleypt efsta lag á Brownies sem brotnar auðveldlega af. Best er að taka allt þannig af efsta lagi kökunnar áður en kremið er sett á. Geymið kökuna í kæli og ef það er afgangur sem þið viljið geyma er gott að setja hana í frystir en uppkriftin er frekar stór. Þegar þið gerið myntukremið er best að leyfa því að standa í pínu stund svo það sé búið að þykkna aðeins og leki ekki um allt. Ef kremið er frekar þykkt og stíft setjið það þá strax og það er til á kökuna því það stífnar svo meira. Þetta getur verið misjafnt eftir því hvernig soðna sykurvatnið kemur út.

Mér þætti ótrúlega gaman ef þú fylgdir mér á Instagam

María

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

Skrifaðu athugasemd