Spanakopita grísk spínat og fetaostabaka í fílódeigi með jógúrtsósu og mozzarella salati

höf: maria

Spanakopíta er grísk baka með spínati og fetaosti sem ég bara get ekki lýst hversu góð hún er. Ég kynntist henni fyrst þegar Costco kom til landsins en þar var hægt að fá hana frosna.

Ég viðurkenni að fyrst til að byrja með var ég ekkert svakalega hrifin, en þá vissi ég ekki alveg hvernig ætti að borða hana. Svo ákvað ég að prófa að bera hana fram með hunangi, jógúrtsósu og mozzarella salati.

Og vitir menn þá bara gerðust töfrar og það var ekki aftur snúið. Ég fór í fílu út í Costco þegar verðið hjá þeim hækkaði og ákvað að fá mér ekki aftur aðildarkort hjá þeim.

En mikið langaði mig alltaf í þessa böku. Ég dó því ekki ráðalaus og ákvað að gera hana bara sjálf, og það tókst líka svona glimrandi vel. Ég held að mín sé betri en þessi í Costco.

Miðjarðahafs matarræði á ansi vel við mig enda ættuð sjálf frá Spáni. Auk þess er matarræðið þar afar holt og þeir sem tileinka sér það eiga það til að lifa lengur.

Ég mæli með að þið prófið, þrátt fyrir að uppskriftin geti kannski virtst flókin við fyrstu sýn. Ég lofa þetta er ekkert mikið mál og þegar þið hafið prófað einu sinni munuð þið pottþétt prófa aftur.

Það er samt algjör skylda að hafa þetta allt saman sem máltíð, sósuna, bökuna og salatið og svo setja hunang út á. Eitt og sér er þetta ekki nærrum eins gott.

Þar sem það er smá erfitt að útskýra hvernig á að búa til spíralinn eða lagið á bökunni þá er hér myndband sem sýnir hvernig á að rúlla þessu upp. Byrjið að horfa á mínutu 2:50.

Spanakopíta er grísk baka með spínati og fetaosti sem ég bara get ekki lýst hversu góð hún er. Ég kynntist henni fyrst… Hollusta Spanakopita grísk spínat og fetaostabaka í fílódeigi með jógúrtsósu og mozzarella salati European Prenta
Serves: 4-6 Prep Time: Cooking Time:
Nutrition facts: 200 calories 20 grams fat

Hráefni

Spanakopita bakan

 • 600 gr ferskt spínat (veit þetta virkar svakalega mikið en við eldun verður þetta að engu)
 • 120 gr púrrulaukur 
 • 200 gr fetaostakubbur 
 • 2 geiralausir hvítlaukar eða 8 hvítlauksrif
 • 2 stór egg 
 • 3 msk ólífuolía 
 • 1 tsk timian 
 • safi úr 1/2 sítrónu 
 • salt og pipar 
 • 1 pakki af filodeigi 
 • Hunang

Gúrku jógúrtssósa

 • 350 gr grísk jógúrt 
 • 1 msk agave síróp 
 • 1/2 gúrka 
 • 1-2 tsk gróft salt 
 • pipar 

Mozzarella salat

 • 1 box piccolo tómatar 
 • 1 avókadó 
 • 10 mozzarella kúlur litlar 
 • Hnefi af ferskri basiliku 
 • 3 msk ólífuolía 
 • 1/2 tsk borðsalt eða 1 tsk gróft salt (smakkið bara til, ég vil alltaf mikið saltað)
 • pipar 

Aðferð

Spanakopita

 1. Byrjið á að skola spínatið vel og saltið það svo létt yfir, ég set það á eldhúspappír ofan á ofnskúffur
 2. Skerið næst púrrulaukinn og merjið hvítlaukinn 
 3. Setjið næst spínatið inn í klút eða hreint stykki og vindið allt vatn úr því, það má alveg kremjast, en vindið eins mikið úr því og þið getið
 4. Hitið næst olíu á stórri pönnu 
 5. Steikjið laukana við vægan hita og passið að þeir brenni ekki, eiga bara að mýkjast 
 6. Setjið svo spínatið á pönnuna og saltið smá og kryddið með dillinu og piprið örlítið
 7. Látið sjóða eins og í 15 mín eða þar til spínatið er orðið meira en helmingi minna um sig
 8. Nú gæti verið komið svolítill aukavökvi á pönnuna frá spínatinu, þá er gott að setja lokið af pönnuni yfir með smá opi við endann og hella safanum í vaskinn, eins miklu og þið náið
 9. Þegar það er búið kreystið þá safa úr 1/2 sítrónu yfir og setjið eggin út á og hrærið
 10. Hér þarf ekki að sjóða fyllinguna neitt lengur, heldur takið af hellunni og myljið fetaostakubbinn yfir allt og hrærið saman, alls ekki setja í matvinnsluvél, þetta á að vera gróft
 11. Takið svo kringlótt eldfast mót og smyrjið það með olíu 
 12. Nú er svo að taka fílódeigið sem getur verið smá hausverkur en óttist ekki ég lofa þetta mun takast
 13. skoðið myndbandið sem ég set inn í link hér fyrir ofan en á mínutu 2:50 byrjar hann að setja fyllinguna í deigið og mæli ég með að þið gerið það alveg eins. Ég reyndar er með spreybrúsa með vatni og spreyja yfir hverja örk áður en ég set fyllinguna, ekki nota olíu
 14. Rúllið svo upp og raðið á eldfasta mótið eins og sýnt er í videoinu
 15. Ef það koma sprungur í deigið eða það rifnar þá er það allt í lagi, raðið því bara upp og pælið ekkert í því þó það springi smá eða rifni og ykkur finnst eins og allt sé ónýtt
 16. Penslið svo með ólífuolíu þegar bakan er alveg heil 
 17. Bakið við 200 C°blástur í 25 mínútur eða þar til bakan er orðin fallega gyllt og stökk

Jógúrtsósan 

 1. Meðan bakan er í ofninum gerið þá salatið og sósuna 
 2. Hrærið jógúrtina upp og setjið salt, pipar og agave síróp útí 
 3. Raspið svo hýðið af hálfri gúrku út í og bara rétt innan við hýðið svo að sósan verði ekki blaut. Hún á að vera þykk
 4. Hrærið svo vel saman 

Mozzarella salat

 1. Skerið tómatana smátt og avókadóið líka 
 2. Saxið basillaufin og  skerið mozzarella kúlurnar í skífur 
 3. blandið öllu saman í skál og setjið olíu, salt og pipar út á og hrærið vel saman 

Framsetning

 1. Berið fram með sósuni og salatinu 
 2. Setjið svo hunang út á bökuna þegar þið fáið ykkur á diskinn, en þannig er hún langbest
 3. Mæli með að þið hafið þetta allt saman því sem máltíð er þetta alveg geggjað 

Punktar

Ekki láta lengdina á aðferðarlistanum hræða ykkur, þetta er í raun mjög einfalt að gera. Fyrst munuð þið líklega halda að það sé allt of mikið spínat í uppskriftinni en það mun minnka mjög mikið við eldun. Hvað filodeigið varðar þá er það fljótt að þorna og því best að hafa það allan tímann undir stykki meðan unnið er með það. Þess vegna líka sprauta ég á það vatni áður en ég set fyllinguna inní. Það mun rifna og koma sprungur í það en ekki láta það hræða ykkur, notið það bara þannig og rúllið því upp þó að komi göt og sprungur það mun ekki koma að sök.

Verði ykkur að góðu og svo þætti mér ótúrlega vænt um að fá follow frá ykkur hér á Instagram

María

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

Skrifaðu athugasemd

The maximum upload file size: 4 MB. You can upload: image, spreadsheet, interactive, text, archive, code, other. Links to YouTube, Facebook, Twitter and other services inserted in the comment text will be automatically embedded. Drop file here