Arroz con Leche er spænskur grjónagrautur í ætt við möndlugraut eða rísmjólk, nema svo mikið betri.
Á Spáni er Arroz con leche ekkert sérstaklega tengt jólunum. Það er meira notað sem eftirréttur og er grauturinn borðaður kaldur.
Þar sem grauturinn er mjög sætur er hann eingöngu kryddaður með kanil en ekki kanilsykri. Hann er þykkur og stífur og þannig á hann akkurat að vera.
Grautinn er afar einfalt að gera en þið þurfið að kaupa í hann niðursoðna mjólk eða Condensed Milk sem fæst yfirleitt í kínadeild verslana.
Ég kaupi mína yfirleitt í Hagkaup eða Fjarðarkaup og nota hana í ansi margt enda gerir hún allt svo gott.
Ég mæli með að þið prófið að gera þennan graut á aðventunni en ég lofa að krakkarnir munu líka elska hann.
Ég á alltaf nokkrar skálar af þessum dýrðargraut inn í ísskáp en ég lofa að ef þið prófið munuð þið gera hann aftur og aftur.
Hráefni
- 150 gr grjón (best að nota stór og feit grjón eins og notað er í risotto, ég notaði Riso Arborio frá PastaZara og fást í Bónus)
- 300-400 gr vatn
- ½ tsk salt
- 1 dós niðursoðin mjólk (Condensed milk, fæst í kínadeild verslana)
- 7 dl nýmjólk
- ½ tsk vanilludropar
- 2 ræmur af appelsínubörk (ekki raspa heldur skræla 2x 10 cm ræmur og sem minnst af hvíta partinum undir)
- 1 ræma sítrónubörkur (ekki raspa heldur skræla)
- 1 stk kanilstöng
- Hreinn kanill (ekki kanilsykur)
Aðferð
- Byrjið á að sjóða grjónin með vatni og salti c.a 15-20 mínútur eða þar til allt vatn er gufað upp
- Bætið þá mjólkinni allri og vanilludropum út í og hrærið saman
- Skrælið svo börkinn af appelsínu og sítrónu eins og c.a 10 cm ræmur og setjið út í (börkurinn er hafður heill en ekki raspaður því hann er svo veiddur upp úr og hent)
- Setjið á sama tíma kanilstöngina með og látið byrja að sjóða við lágan til meðalhita
- Hrærið í mjög reglulega meðan suðan er að koma upp svo brenni ekki við botninn á pottinum og lækkið svo hitan þegar suðan er komin upp
- Sjóðið í 40-50 mínútur eða þar til grjónin eru vel mjúk og passið að hræra reglulega í á meðan
- Að suðutíma liðnum er börkur og kanilstöng veitt up úr með gaffli og hent
- Skammtið graut í fallegar desertskálar og látið kólna upp á borði
- Setjið þá tóman kanil í þunni lagi og alls ekki of mikið yfir grautinn og kælið í ísskáp
- Grautinn má líka borða eftir að hafa kólnað við stofuhita en þannig eða úr kæli er hann langbestur
Verði ykkur að góðu
María