Hinn eini sanni Flamenco

höf: maria

Nú þegar vorið og sumarið er að bresta á, brýst Spánverjinn fram í mér. Ég byrja að elda spænskan mat og hlusta meira á spænska tónlist, þegar byrjar að vora.

Það er svo sérstakt að ég sakna alltaf Spánar mest á sumrin, þegar sólin skín og allt er í blóma hér á Íslandi. Þá langar mig alltaf að fara til fjölskyldunnar minnar á Spáni að borða spænska matinn, hlusta á smá flamenco tónlist og fara á nokkrar fiesta (spænskar hátíðir á götum úti).

Flamenco er eitthvað sem ég hef alltaf elskað, alveg frá blautu barnsbeini. Hvað er svo sem ekki hægt að elska við Flamenco ??? Kjólarnir, blómin í hárið, skórnir, tónlistin og gítarinn…..ég bara elska allt við það !!!

Það sem hins vegar fáir hér á landi vita, er að þegar þið farið til spánar og sjáið senjórítur dansa í fallegum doppóttum senjórítukjólum með blævængi og kastanettur, þá ertu líklegast ekki að horfa á Flamenco. Mjög líklega ertu að horfa á Sevillanas, eða Sevillanas Flamencas, sem er blanda af þessu tvennu.

Í Andalúsíu á Suður-Spáni, þaðan sem ég er ættuð, er þjóðardansinn Sevillanas ekki ósvipaður Flamenco dansinum.  Ef þú veist ekki betur muntu ekki  greina muninn. En sannleikurinn er sá að það er stórmunur þarna á. Þó dansarnir séu náskyldir eru þeir og tónlistin sem þeim fylgir afar ólíkir.

Munurinnn á Flamenco og Sevillanas.

Flamenco

Það hefur mikið verið deilt um uppruna Flamencos á Spáni og þróun þess. Saga Flamencos hefur einungis verið skráð sl. 200 ár og ekkert fyrir þann tíma. Rætur Flamenco eru því ekki nákvæmlega þekktar. Það er almennt talið að Flamenco sé sprottið upp úr menningaráhrifum Andalúsíu, Mára, Gyðinga og Sígauna sem bjuggu í Andalúsíu síðla á 15. öld og byrjun 16. aldar.

Blanda þessara menningarheima er það sem síðar varð að listforminu Flamenco. Þegar maður hlustar vel á hvernig röddinni er beitt í Flamencotónlist er það t.d. ekkert svo ósvipað Arabískri tónlist.

Flamenco skiptist í þrjá þætti: dans, söng og gítarspil, en orðið Flamenco var ekki tekið upp fyrr en á 18. öld. Fyrst til að byrja með var Flamenco listtjáningarform sem erfðist mann frá manni. Hann var ekki kenndur í dansskólum fyrr en upp úr 1765.

Til að byrja með var Flamenco einungis dans með stappi og söngur með klappi. Flamenco var aðallega dansaður af spænskum  sígaunum sem þeir notuðu sem tjáningarform fyrir þjáningar og ofsóknir sem þeir sættu.

Gítarinn varð ekki partur af Flamenco fyrr en upp úr 1869, en þá hófst gullöld Flamencós á Spáni. Gítarspil Flamencotónlistar er spilað á sérstakan spænskan kassagítar.  Á Spáni er sagt að lögunin á gítarnum eigi að líkja eftir ávölum mjöðmum kvenna.

Á gullöldinni byrjuðu dansarar að sýna listir sínar á kaffihúsum og á götum úti. Fóru þá Flamenco söngvarar að taka með sér gítarspilara til að spila undir. Gítarspilararnir unnu sér inn gott orðspor í Flamencoheiminum og urðu svo fastur partur af Flamenco.

Talið er að Spænkir sígaunar eigi  hvað mest í uppruna Flamencos, sem ávalt er kennt við sígauna. Hreinn Flamenco hefur verið að spretta upp á Spáni á síðustu áratugum, með frábærum sígaunaættuðum dönsurum á borð við Joaquin Córtes, Farruquito og Patriciu Guerrero. Þessa dansara er hægt að sjá á youtube.

Joaquin Cortes 

Flamenco er frekar þungur og tilfinningamikill dans og söngur, fylltur dulúð og oft sorg og reiði. Rytminn felst í gítarpspili, klappi, stappi, slátt á kassahljóðfæri og hrópum þáttakenda.

Dansinn er svo það sem tjáir textann og fyrir utan það að einkennast af miklu klappi og stappi, einkennist Flamenco einnig af hrópi og köllum eins og Ole !!! , anda !!! , anda ja !!! , aííí aíííí  aíííí !!!, ofl.  Allt þetta hefur svo áhrif á það hvernig Flamenco dansarinn færist og tjáir sig í daninsum.

Í Flamenco er  aðaláhérslan lögð á sönginn, en talið er að lagið sé í raun hjarta Flamencos. Lögin endurspegla  yfirleitt anda örvæntingar, baráttu, vonar og stolt fólks á tímum ofsóknar. Söngurinn líkist oft gráti og er fullur angistar.

Dansstíllinn getur verið mismunandi eftir því hvaðan í Andalúsíu hann er ættaður. Í Sevilla er áherslan t.d meiri á hvernig dansari hreyfir sig og á handahreyfingar en í  Granada er miklu meira um taconeando  eða fast fótastapp.

Eitt það dularfyllsta við Flamenco er það sem það kallast Duende. Duende er sagt vera andlegt ástand sem mjög erfitt er að útskýra. Duende er sagt að komi inn í huga og sál söngvarans sem fer í ákveðið ástand og verður algjörlega á bandi myrkra tóna lagsins sem hann syngur.

Sevillanas

Sevillanas er talið hafa  þróast frá Seguidillas sem er þjóðardans Kastilíu frá 15. Öld. Hann er svo talinn hafa  blandast síðar með öðrum spænskum dansformum eins og Flamenco sem síðar þróaðist í það sem í dag kallast Sevillanas.

Sevillanas er eins og ég kom áður inn á þjóðardans Andalúsíu á Spáni, en á Spáni er ekki bara einn þjóðardans heldur margir.  Á Spáni eru mismunandi form menningaráhrifa en hér getið þið uppgötvað hin raunverulega Spán.

Munurinn á Sevillanas og Flamenco er mjög mikill. Sevillanas er oftast dansaður í pörum eða hópum, meðan Flamenco er oftast spuni og dansaður af einstaklingi. Meðan fatnaður í Flamenco er oftast í dökkum litum og þröngur með víðu pilsi er fatnaður í Sevillanas mun litríkari, skrautlegri og mjög oft doppóttur. Það er það sem þið þekkið eflaust best sem senjórítukjóla.

Sevillanas eru dansar með stöðluðum sporum, þar sem allir gera eins, meðan Flamenco er oft spuni og tjáningarform líðandi stundar. Hver Sevillanas samanstendur af 4 dansþáttum eða eins kona köflum. Hver og einn kafli er með smá hlé á milli þar sem heyra má gítarspil þar til næsti kafli byrjar. Þessum köflum eða versum þarf svo að fylgja í sérstakri röð.

Dansinn og söngurinn í Sevillanas er mun léttari og glaðlyndari en í Flamenco og þar má oftar sjá fólk brosa meðan það dansar. Textar í Sevillanas lögum lýsa oft þáttum daglegs lífs í Andalúsíu og fjalla líka oft um ástina.

Ég sjálf elska bæði Flamenco og Sevillanas. Sevillanas er eitthvað sem nánast allir í Andalúsíu kunna að dansa. Þegar La feria eða farandhátíð með tívolí mætir á staðinn, er það siður að stelpur og konur noti senjórítukjólana sína, og flestir dansa svo Sevillanas.

Já ég held að það sé óhætt að segja að Spánverjar kunni þetta, væri ekki gaman ef við á Íslandi ættum sterkari söng og danshefð ?? Jú það held ég.

Konur að dansa Sevillanas en la feria 

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra núna. Fyrir þá sem hafa áhuga á að sjá muninn með eigin augum, þá set ég linka með frá you tube sem sýnir bæði Sevillanas og Flamenco.

Sevillanas 

Flamenco karlmaður 

Flamenco kona 

Góða skemmtun

 María 

 

 

 

 

 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

Skrifaðu athugasemd

The maximum upload file size: 4 MB. You can upload: image, spreadsheet, interactive, text, archive, code, other. Links to YouTube, Facebook, Twitter and other services inserted in the comment text will be automatically embedded. Drop file here