Arroz con pollo frænka Paellunar

höf: maria

Mig langar að gefa ykkur uppskrift af spænskum rótgrónum rétti sem kallast Arroz con Pollo eða Hrísgrjón með kjúkling.

Þessi réttur er svona stóra frænka Paellunar en hann er mjög svipaður henni nema meira svona hversdags og eldaður mun oftar en Paella á spænskum heimilum.

Mér finnst hann rosalega góður og er hann alltaf í sunnudagsmat hjá titu Paz. Hér er einnig mjög gott að nota krækling í skel, hörpuskel og risarækjur en það gerir réttinn meira grand og svona spari.

Þennan rétt er mjög auðvelt að gera og smakkast hann alveg svakalega vel. Hann var einn af mínum uppáhaldréttum þegar ég var krakki og finnst krökkunum mínum hann líka mjög góður.

Arroz con pollo frænka Paellunar

Mig langar að gefa ykkur uppskrift af spænskum rótgrónum rétti sem kallast Arroz con Pollo eða Hrísgrjón með kjúkling. Þessi réttur er svona… Aðalréttir Arroz con pollo frænka Paellunar European Prenta
Serves: 4-6
Nutrition facts: 200 calories 20 grams fat

Hráefni

 • 1 bakka af úrbeinuðum kjúklingalærum eða c.a 700-800 gr 
 • 1 græna papríku
 • 1-2 rauðar papríkur
 • 1 lauk
 • 1 hvítlauk
 • 1 bolla af grænum baunum (ég nota frosnar)
 • 1 -2 kjúklingasoðstening
 • 1 fiskisoðstening
 • 1-2 stóra tómata eða 5-7 litla plómutómata (má sleppa og nota 1/2 dós chopped tomatoes eða 1 msk tómatpúrru)
 • 1 og halft glas af grautarhrísgrjónum þ.e Arborio grjónum (mjög mikilvægt að þessi grjón séu notuð, keypti mín í Hagkaup en hef líka séð í Bónus)
 • 5 vatnsglös (nota bara venjulega stærð af glasi en passa að nota sama glas fyrir grjóninn og vatnið til að hlutfallið sé rétt)
 • Gulan lit sem kallast colorante (fæst ekki hér á Íslandi en hægt er að nota saffran frá Costco eða Turmerik. Sniðugt er að  kippa colorante með sér heim úr sumarfríinu á Spáni en það fæst í öllum súpermörkuðum á Spáni) má sleppa alveg þetta er bara notað til að fá gula litinn á réttinn. 
 • Salt og pipar
 • ½ dl Ólifuolíu
 • Fyrir þá sem vilja þá er svakalega gott að setja hörpuskel, krækling og risarækjur eða humar með í þennan rétt en einnig kaupi ég oft einn pakka af sjávarréttarblöndu til að setja með og það er mjög gott. 

Aðferð

 1. Skerið laukinn í smátt og merjið hvítlaukinn. Skerið papríkurnar í langa þykka strimla og tómatana í litla bita.
 2. Sneiðið lærin í tvennt
 3. Hitið ólífuolíu á stórri pönnu og setjið lauk, tómata og hvítlauk út á og saltið létt yfir og piprið.
 4. Þegar laukurinn er orðin mjúkur setjið þá papríkurnar út á og saltið aftur létt yfir og leyfið þeim að mýkjast líka við vægan hita.
 5. Passið að brenna ekki laukinn.
 6. Næst er svo kjúklingurinn settur yfir allt á pönnuna og hrært í öllu og saltað og piprað aftur. Á þessu stigi eru sjávarréttirnir líka settir á pönnuna ef þið notið þá sem ég mæli með. 
 7. Þegar kjúklingurinn er aðeins byrjaður að hvítna setjið þá grjónin yfir allt og hrærið vel í svo þau fari inn á milli alls staðar.
 8. Næst er svo vatnið soðið í katli og teningarnir leystir upp í því.
 9. Því er svo hellt út á allt saman og hrært í síðasta skiptið saman.
 10. Athugið helst ekki hræra í réttinum neitt meir á meðan hann er að sjóða.
 11. Hellið nú grænum baunum yfir allt saman og colorante litnum og látið sjóða í 25 mínútur við vægan hita.
 12. Þegar rétturinn er til eiga grjónin að vera orðin mjúk og smá aukasoð á að vera á honum.
 13. Ekki hafa áhyggjur af að vatnið sé ekki allt gufað upp því svona á hann vera.

Punktar

Mæli með að bera réttinn fram með nýbökuðu snittubrauði til að dýfa út í réttinn, en ég kaupi oftast frosið frá la baguette sem ég hita í ofni meðan ég geri réttinn. Það er líka gott að bera hvítlauksbrauð fram með þessum rétti.

Berið svo fram með góðu snittubrauði sem er gott að dýfa í soðið J

Knús

María 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

Skrifaðu athugasemd