Eldhúsið tekið í gegn með litlum tilkostnaði

höf: maria

Eins og ég kom inn á í upphafsfærslunni um nýja húsið mitt, þá höfðum við eingöngu 3 milljónir til að taka húsið okkar í gegn. Ég geri mér fulla grein fyrir að 3 milljónir er ekki lítill peningur yfir höfuð, og er mjög þakklát fyrir að hafa haft það til að eyða. Hins vegar þegar kemur að því að fara á í framkvæmdir, þá er það ekki stór upphæð. Eitt gott eldhús getur léttilega étið upp alla þá fjárhæð á einu bretti. Þess vegna urðum við að velja svoldið og hafna hvað við vildum leggja mesta áherslu á þegar við tókum húsið í gegn.

Við ákváðum að taka frekar alveg stóra baðið í gegn, (getið lesið færslu um það hér), og gera bara fínt bráðabirgðaeldhús, til 2-3 ára.  Markmiðið er að safna á tveimur til þremur árum fyrir nýju eldhúsi, og taka það þá almennilega í gegn. Í þetta sinn hins vegar ákváðum við að notast við gamla efniviðinn og tækin úr eldhúsinu og púkka bara upp á það með málningu og tilfærslum. Ég held að eldhúsið hafi kostað okkur með öllu um 150.000 kr, (franska hurðin ekki inni í því), sem er mun minni fjárhæð en ef við hefðum hent öllu út og gert alveg nýtt eldhús.

Eins og eldhúsið var upprunalega var hægt að ganga úr því inn í þvottahús. Við ákvaðum að loka fyrir þá hurð og gera ísskápsskáp þar.

Á veggnum við hliðina á innganginum í eldhúsið var stór búrskápur, bakaraofn og ísskápsskápur. Við tókum þetta allt niður þar sem okkur fannst þetta vera allt of kaótískt og þrengja gangveginn í eldhúsinu. Markmiðið var að stækka upp og birta til í rýminu. Á neðri myndinni sést tvöföld hurð inn í eldhúsið og virkar hún mjög stór. Sannleikurinn er hins vegar sá að hún var ekki nema 112 cm á breidd og mjög þröng fyrir tvöfalda hurð. Við ákváðum því að stækka hurðargatið og létum sérsmíða franska hurð inn í eldhús, sem er 170 cm breið. Það gerði rosa mikið fyrir bæði stofuna og eldhúsið.

Hér sést hvernig eyjan var lítil og stutt og hægt var að ganga í kringum hana. Mér fannst gangvegurinn við gluggavegginn alveg óþarfur og þar sem við höfðum tekið svoldið af skápum niður lengdum við eyjuna og bættum við skápaplássi báðum meginn við gluggaendann. Hér sést einnig hvernig borðplöturnar voru en þetta voru einhverskonar keramíkflísar sem voru steyptar á viðarplötu og gat ég ekki hugsað mér að hafa þetta svona. Ég get rétt ímyndað mér bakteríuflóruna í fúgunni. Við vorum lengi vel að spá í að fá okkur hvítar múrsteinaflísar á milli skápanna en ákváðum að sleppa því, þar sem það yrði hvort eð er rifið niður þegar eldhúsið yrði tekið almennilega í gegn. Því máluðum við bara flísarnar sem voru til staðar svartar. Einnig skiptum við um vask og blöndunartæki.

 Í borðkróknum voru tveir veggfastir glerskápar sem við tókum burt og seldum.

Ég ákvað að gera borðplötur sjálf til að spara sem mestan pening og lét ég því strákana í Bauhaus sníða fyrir mig MDF plötur sem ég síðan málaði eins og marmara. Síðan setti ég tveggja þátta níðsterkt epoxy lakk yfir frá Epoxy Gólfum í Keflavík. Hér má lesa færslu um hvernig borðplöturnar  voru gerðar, en það er vel hægt að sleppa við undir 20.000 kr fyrir svona borðplötur.

Verið að mála borðplöturnar vantar epoxylakkið yfir sem gjörbreytir útlitinu og gerir borðplöturnar ótrúlega líkar marmara. 

Hér er búið að taka niður alla fronta og voru þeir lakkaðir með hvítu vatnslakki. 

Svo lökkuðum við alla fronta og skápa með rúllu og inni í alla gluggakarma líka. Hér getið þið lesið færslu um hvernig á að lakka eldhúsinnréttingu. Síðan smíðuðum við skáp úr gömlum plötum sem voru til staðar í eldhúsinu utan um ísskápinn. Þetta var alveg rosalega mikil vinna og svona bjuggum við í smátíma meðan við vorum að taka eldhúsið í gegn,  þar sem það náðist ekki fyrir flutninginn. Þetta var svoldið skrautlegt og tók heldur betur á taugarnar að vera án eldhús í nokkrar vikur.

Ég var svo heppin að geta skipt út litlu skáphurðunum og sett glerhurðir í staðinn, en Ikea var akkurat með þessa stærð af frontum til. Það er mikil breyting og gerði líka alveg gæfumuninn.

Jæja en nú held ég að sé komin tími til að sjá afraksturinn með fyrir og eftir myndum

Fyrir 

Eftir 

Fyrir 

Eftir 

Fyrir 

Eftir 

 Fyrir 

Hér sést hvernig við lokuðum hurðinni og byggðum ísskápinn inn í gatið og smíðuðum skáp utan um. 

Hér er búið að taka stóru eininguna niður og Söstrene hillur komnar í staðinn. Gangvegurinn stækkaði við þetta til muna og allt varð bjartara og opnara um leið. 

 

Við notuðumst við bakaraofninn, eldavélina og háfinn sem var til staðar, enda leit það vel út og var í góðu ástandi. Við færðum ofninn af stóra veggnum og undir eldavélina. Einnig er búið að lengja hér eyjuna út að glugga og setja þar skúffur og skáp hinum megin við.

Hér sést hvernig borðplatan kemur út. Mér fannst fallegt að lakka svarta rönd framan á hana til að fá heildarlúkk á eldhúsið. 

 

 

 

 

Alls kyns smotterí til að fegra eldhúsið 

Hér sést hvernig Epoxy efnið gefur borðplötunum háglans og verndar þær um leið, en það þolir mikinn hita og er einnig mjög höggþolið. Ein umferð af Epoxy jafngildir 60 umferðum af lakki !

Lakkið á frontunum kom mjög vel út þrátt fyrir að hafa verið lakkað með rúllu. Áferðin er eins og ef hún hefði verið sprautuð, en ég notaði sérstaka lakkrúllu úr Bauhaus til að fá þessa góðu áferð. Fyrst er samt alltaf að grunna vel undir. Einnig skiptum við út höldunum á skápunum en þessar eru keyptar í Ikea og kostuðu mjög lítið, 2 saman í pakka.

Hér sest ofan á borðplötuna, svörtu flísarnar sem við máluðum og í nýja vaskinn. 

Fyrir mína parta er ég mjög sátt við eldhúsið svona eins og það er til að byrja með. Með því að gera þetta svona gátum við gert svo miklu meira fyrir húsið og klárað það nánast alveg að innan. Mér finnst líka bara gott að leyfa tímanum að líða aðeins og sjá hvað verður inn í eldhústískunni eftir 2-3 ár og gera þá alveg nýtt eldhús. Eins og er hefur eldhúsið virkað mjög vel og mátulegt er af skápaplássi. Einnig er ég mjög ánægð með hvað við náðum að stækka rýmið og birta það upp um leið.

Gaman væri að fá feed back frá ykkur kæru lesendur og ykkur er velkomið að spyrja mig um ráð ef þið viljið varðandi framkvæmdir. Næsta húsafærsla er um barnaherbergið hans Mikaels litla en hana getið þið lesið hér 🙂

Takk fyrir mig í bili.

María 

24 Athugasemdir
2

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

24 Athugasemdir

Dagný September 11, 2018 - 11:27 am

Vá ég get skoðað bloggið þitt endalaust!! Er á leið í smá framkvæmdir heima fyrir í nýja húsinu okkar – fæ endalausan innblástur og góðar hugmyndir hér, næsta mál á dagskrá hjá mér er að lesa bloggið um hvernig þú lakkaðir eldhúsinnréttinguna 😉 Knús til þín og TAKK fyrir þetta frábæra blogg!! <3

Svara
maria September 12, 2018 - 3:55 pm

Takk elsku Dagný það gleður mig ekkert smá að fá svona dásamlegt komment.

Gangi þér vel með breytingarnar og þú leyfir mér að fylgjast með 🙂

knús María

Svara
Margrét Káradóttir January 29, 2019 - 2:40 pm

Hæhæ, allt svo fallegt hjá þér, ég skoða bloggið þitt reglulega. Mig langar til að spyrja þig hvaða málningu þú notar á veggi sem er alveg hvít? Mér finnst svo erfitt að finna málningu sem er alveg hvit. Er lakkið hjá þeim í Flugger svona alveg hvítt líka?

Svara
maria January 29, 2019 - 8:40 pm

Hæ hæ og takk kærlega fyrir.

Ég hef alltaf beðið um sérstaklega að fá skjannahvíta málningu sem er ekki með neinu svörtu né þannig í, hún þekur ekki eins vel og ég tek alltaf með 5 % gljáa. Ég hef keypt hana víða eins og Bauhaus eða flugger.

Lakkið er keyot í Flugger og ég hef það skjannahvítt en læt setja einn dropa af svörtu út í lakkið til að það þekji betur en það verður samt alveg skjanna skjanna hvítt samt sem áður 🙂

Svara

Skrifaðu athugasemd

The maximum upload file size: 4 MB. You can upload: image, spreadsheet, interactive, text, archive, code, other. Links to YouTube, Facebook, Twitter and other services inserted in the comment text will be automatically embedded. Drop file here