Herbergið hans Mikaels

Heimili

Að gera stelpuherbergi hefur mér aldrei fundist vera neitt mál enda um nóg úrval að velja þegar kemur að öllu varðandi stelpur. Þegar ég eignaðist barn númer 2, Reyni Leo eftir að vera búin að vera stelpumamma í 13 ár, þá fékk ég heldur betur að kynnast því hversu strákagreyin eru skildir útundan þegar kemur að fatnaði og hönnun. Það var alla vega mín upplifun. Ég man eftir því þegar ég var að kaupa föt á hann þá voru strákadeildirnar alltaf mun minni en stelpudeildirnar og var oft lítið annað í boði fyrir stráka en grátt, brúnt og dökkblátt, eða Legolitirnir sem ég persónulega er ekki alveg að fíla. Þetta var reyndar 2013, en mér finnst reyndar úrvalið í dag vera að aukast mun meira fyrir stráka og er skandínavíski stíllinn oft mjög kynlaus, hentar hann því oft jafnt strákum sem stelpum.

 Það er auðvitað misjafn smekkur manna og ég er ekki að gera lítið úr annara manna smekk með þessari færslu, heldur eingöngu að skrifa um hvað mér þykir persónulega vera fallegt. Ég t.d get ekki hugsað mér brjálaða liti og ofurhetjur upp um alla veggi eða teiknimyndafígúrur. Auðvitað finnst strákum gaman að svoleiðis. Ég reyni því að fara milliveginn og koma til móts við strákana mína, og það sem þeir eru hrifnir af. Ég reyni svo að flétta því inn í minn stíl og fá þannig góða heildarútkomu sem allir eru sáttir við.

Þegar kom að því að gera strákaherbergin í húsinu þá var ég smá lost. Manni detttur alltaf fyrst í hug blár fyrir stráka og var sá litur á herbergi bræðranna á gamla staðnum okkar í Garðabænum. Mér fannst það vera fallegt í þeirri íbúð en það hentaði alls ekki hér í þessu húsi. Í gamla herberginu þeirra var Laura Ashley stíllinn svoldið ráðandi en hér fyrir neðan er mynd af gamla herbergi Reynis Leo og Mikaels.

Meðan við bjuggum hér voru strákarnir 1 og 2 ára og því alveg krúttilegt herbergi fyrir svona lítil kríli. 

Það er svo skrítið að þegar við keyptum húsið þá er bara eins og það gubbaði út húsgögnunum sem við áttum fyrir. Við vorum t.d. með rosa flottan franskan glerskáp sem var alltaf í uppáhaldi hjá mér. Hann passaði svo ekkert hingað inn svo ég seldi hann og keypti ný húsgögn í allt öðrum stíl en áður, eða Skandínavískum.Hér er mynd úr íbúðinni í Garðabæ og hvíta skápnum. Þessi rómantíski stíll passaði engan veginn inn í nýja húsið. 

Þar sem við búum núna eru fulningahurðar og panell og þess háttar og varð allt þetta rómantíska sem við áttum bara allt of væmið hérna inn. Útkoman varð eins og einhver rjómaterta. Skandínavíski stíllin varð því fyrir valinu í nýja húsinu og ákvað ég að gera barnaherbergin og allt í húsinu í þeim stíl.

Í fyrstu þegar við fengum húsið afhent ætluðum við okkur að klára allt á 2 vikum og flytja svo inn. Rosa bjartsýn eins og alltaf, en auðvitað gerðist það ekki. Í þessu óðagoti fór ég og keypti sama bláa litinn á herbergin hjá strákunum og hafði verið í gamla sameiginlega herberginu þeirra. Síðan ætlaði ég bara að copy peista það herbergi hingað yfir.

Um leið og blái liturinn var kominn upp sá ég að hann var algjört NO NO. Hann bæði minnkaði herbergið svakalega og dró það niður. Það virkaði bara lítið og dimmt. Eftir að vera búin að liggja yfir pinterest og screenshota óteljandi strákaherbergi fann ég loks hvernig ég vildi hafa herbergið, og er ég alsæl með útkomuna. En hér fáið þið að sjá fyrir og eftir myndir af Herberginu hans Mikaels 2 ára sjarmörsins míns og eina brúneygða barninu mínu 😉

Fyrir

Svona leit herbergið út þegar við komum að skoða húsið. Fallegt og notalegt herbergi sem var notað sem gestaherbergi. Eins og þið sjáið þá var allt mjög dökkt á herberginu. Gólfefni og hurðir voru úr dökkum við og svo voru allir gluggakarmar parketlagðir.

Eftir/fyrir

Hér er svo búið að setja upp bláa litinn, eins og sést er hann alls ekki nógu góður þarna inni og gerði allt mjög dökkt. Því ákváðum við að leggja áherslu á hvíta litinn til að birta rýmið upp og setja falleg fjöll á vegginn sem við máluðum á með grárri málningu. Við blönduðum gráu tónana sjálf með því að blanda saman hvítri og svartri málningu. Panellinn í loftinu var líka sprautaður mjallahvítur á öllu húsinu.

Hér sést hvernig við gerðum fjöllin. Við mótuðum þau með málningarlímbandi fríhendis. Skýin gera svakalega mikið fyrir heildarútkomuna.

Hér er svo lokaútkoman á herbergi Mikaels.

Ofninn orðinn skjannahvítur og eins gluggarnir.

Hér sést svo hvað fjöllinn brjóta upp hvíta litinn og gera mikið fyrir herbergið.

Við máluðum hurðina hvíta og líka miðstöðvarofninn og inn í gluggana. Þvílkt sem það breytti miklu og gerði allt mikið stærra og bjartara.

Hurðin orðin hvít, komið nýtt parket og gólflistar sem ég algjörlega elska og eru á öllu húsinu. 

Mottan sem ég keypti notaða á bland.is fyrir 3000 kr 

Þegar ég tók herbergin í gegn þá reyndi ég að kaupa eins mikið notað og ég gat. Rúmið, mottuna og taupokann keypti ég t.d. notað á Bland.is og leit það út sem nýtt. Heildarkostnaðurinn á því þrennu var 19.000 kr sem er andvirði bara mottunar og pokans saman ef ég hefði keypt það nýtt úr búð.

Smáatriðin gera líka mikið fyrir barnaherbergin og legg ég mikið upp úr fallegum smáhlutum og myndum á veggina. 

 

 Lampinn er úr Rúmfatalagernum, svo nota ég oft skóna af börnunum sem pillerí. 

Litli herramaðurinn Mikael eigandi þessa fallega herbergis.

Reynir Leo stóri bróðir fær að kíkja í herbergið hjá Mikael að leika. 

Í næstu færslu mun ég taka fyrir gólfefnin á húsinu og gólflistana.

Takk fyrir mig

María 

4 Comments Write a comment

Please add an author description.

4 Comments

 • Guðrún Kristin May 15, 2017

  Heimilið þitt er mjög fallegt í nýja blaðinu Hús og híbýli. Hvar fékkstu sófaborðið sem er á bls. 69? Þú ert með það við hvíta sófann.

  • maria May 17, 2017

   Hæ Guðrún Kristín

   Ég fékk það í Ikea 🙂

   kv María

   • Guðrún Kristin May 18, 2017

    Takk fyrir
    Allt svo sætt hjá þér.
    kv
    G

    • maria June 27, 2017

     Takk kærlega fyrir það 🙂 Knús

Leave a Reply

Pin It on Pinterest