Búðu til þinn eigin marmara

Heimili

Þið sem hafið lesið færsluna um breytingarnar á eldhúsinu mínu sáuð að ég gerði borðplöturnar sjálf. Við tókum eldhúsið okkar í gegn fyrir 150.000 kr og hefðu nýjar borðplötur léttilega geta farið upp í þá upphæð. Þar sem við ætlum að hafa eldhúsið svona í 2-3 ár meðan við söfnum fyrir nýju ákvað ég að gera borðplöturnar sjálf, en ég er mjög hrifin af marmara. Ég tók mig því til og pinterestaði hvernig á að mála sjálfur plötur eins og marmara. Útkoman var vel ásættanleg og eru borðplöturnar níðsterkar. Og svo ég tali nú um hversu ódýrar þær voru, en þær kostuðu mig um 25.000 kr með öllu.

Nú ætla ég að sýna ykkur hvernig ég fór að.

Í verkefnið þarf

 • MDF plötur
 • Búkka (keypti, þá á spottprís í Bauhaus)
 • Grunn
 • Málningu, hvíta og svarta
 • Pensla af öllum stærðum og gerðum
 • Málningarúllu
 • Fjöður
 • Nátturusvamp
 • Glimmer (hvítt og silfrað fínkorna)
 • Tveggja þátta Epoxy lakk (fæst hjá Epoxy gólfum)

Ég lét strákana í Bauhaus saga fyrir mig MDF plötur eftir máli en ég hafði tekið stíft mál sjálf hér heima. Hægt er að láta saga fyrir sig á staðnum. Svo blandaði ég sjálf 3 gráa tóna með hvítri og svartri málningu. Ljósan, dekkri og dökkan gráan tón. Málninguna átti ég til en penslana og fjaðrirnar fékk ég í Söstrene Grene. Svampinn fékk ég í Bauhaus og glimmerið í föndurbúð.

Það fyrsta sem þarf að gera er að setja MDF plöturnar á búkka og grunna þær svo, og mála yfir með hvítu.

Hér er ég búin að grunna og mála yfir með hvítu 

Næst er svo að dempa yfir alla plötuna og gera svona mynstur með svampinum, í þessari færslu ætla ég að kalla það að svampa. Mynstrið kemur út frá lögun svampsins svo það eina sem þið þurfið að gera er að dempa, dempa dempa :)…….. nei ég meinti svampa, svampa, svampa 😉

Það er gert með því að setja svampinn í ljósasta gráa litinn og dýfa honum svo í smá vatn og gera hann rakan. Alls ekki rennbleyta hann !! Þegar búið er að svampa plötuna hér og þar er mynstrið tekið út með dekkri gráum tón í pensli. Penslinum er beitt þannig að maður dregur hann í átt að sér og heldur mjög laust um skaftið og snýr um leið og þá koma svona eins og æðar í marmara. Þetta er gert alls staðar í kringum svampamynstrið. Hér ætla ég að kalla það að æða 😉

Hér er ég búin að svampa alla plötuna með ljósasta gráa litnum og er byrjuð að taka út mynstrið með dekkri gráum lit og pensli. Ég notaði 4 tegundir og stærðir af penslum til að fá misþykkar æðar

Þegar ég var búin að gera eina umferð af þessu málaði ég yfir allt aftur með hvítu en passið ykkur að þekja ekki alveg plötuna heldur setja bara pínulítið í rúllu af hvítri málningu og rúlla létt yfir þannig að æðarnar komi í gegn og dempist bara örlítið.

Hér sjáið þið muninn vinstra og hægra megin, en hægra megin er ég búin að rúlla yfir með hvítu 

Þegar þessu er lokið tek ég fjöður, svamp og pensil og byrja aftur að svampa, pensla og æða. Ég reyni að svampa í mynstrin sem voru þegar komin og bý jafnvel til örfá ný ef það er mikið tómarúm milli æða. Svo tek ég út mynstrið með penslunum og fjöðrinni og nota alla þrjá tónana af gráu til þess.

Hér er ég byrjuð að svampa aftur og taka mynstur út með penslum og fjöður 

Þegar þessu er lokið mála ég aftur létt yfir með rúlluni og set smá hvítt í hana. Mikilvægt er að láta þessa umferð af svömpuninni og æðamynduninni samt þorna fyrst áður en rúllað er yfir til að platan verði ekki grá á litinn. Það er að segja ef þið viljið hafa plötuna hvíta í grunninn með gráum æðum. Ef þið viljið hafa hana gráa þá er betra að mála strax yfir æðarnar.

Hér er umferð tvö komin á, þegar hún er þurr rúlla ég aftur yfir æðarnar með hvítu létt yfir 

Hér er búið að mála meirihluta af plötu með hvítu yfir æðarnar

Hér eru tvær umferðir komnar af að svampa, æða og mála

Þetta ferli er svo endurtekið eins oft og ykkur finnst þurfa. Ef þið viljið hafa mikið af æðum er betra að gera þetta nokkrum sinnum. Þ.e. að svampa, taka út mynstur með penslum og fjöður og öllum þremur gráu tónunum, mála yfir með hvítu. Endurtakið þetta aftur og aftur þar til þið erum sátt með útkomuna.

Ég vildi ekki hafa mínar plötur of mynstraðar og lét því þetta duga eins og sést á myndunum hér fyrir ofan, en á þær vantar Epoxylakkið sem er lokaskrefið

Þegar síðasta lagið af hvítri málningu er svo komið á, er glimmeri blásið úr lófanum létt yfir og passað að það dreifist jafnt yfir alla plötuna. Það er gert með því að setja ögn af því í lófann og blása mjög létt yfir í 30-50 cm fjarlægð frá plötunni. Svo eru plöturnar látnar þorna alveg í sólahring.

Næsta skref er svo að þekja þær með tveggja þátta Epoxy lakki, en þar sem að það er mjög vandmeðfarið efni og hefur einungis 20 mínútur í vinnslutíma gafst mér ekki tækifæri á að taka myndir af því ferli. Ég ætla því að reyna að útskýra það ferli eins vel í orðum og ég mögulega get.

Lokaumferð með tveggja þátta Epoxy lakki

Hér er Epoxy lakk komið yfir og einnig málaði ég kantana svarta eins og sést á myndunum fyrir neðan

Hér eru nokkrar myndir af plötunum uppsettum og sést vel hversu mikinn glans Epoxy lakkið gefur 

Af einni umferð af tveggja þátta Epoxy lakki kemur þykkt lag eins og ef um 60 umferðir af venjulegu lakki væri að ræða. Einnig er efnið gífurlega sterkt og þolir það bæði högg og mikinn hita. Því gerir það borðplöturnar mjög sterkar. Epoxy lakkið er einnig alveg glært og þess vegna kaus ég að nota það yfir marmaramynstrið þar sem önnur venjuleg lökk eru alltaf gultóna, og það vildi ég alls ekki á borðplötunar.

Þegar tveggja þátta Epoxy lakk er blandað hefst mjög viðkvæmt ferli, en það þarf að blanda nákvæmlega eftir leiðbeiningum og passa að hræra mjög rólega í þann tíma sem á að hræra það. Maðurinn minn sá um að blanda lakkið meðan ég sá um að hella því á, og slétta því yfir plöturnar. Þegar blandan er tilbúin hefur maður einungis 20 mínútur til að setja það á áður en það fer að stífna. Þess vegna er gott að einn blandi og sé tilbúinn með nýja blöndu meðan hinn hellir og tekur svo við nýju blöndunni og hellir á næsta part meðan fyrri parturinn er enn blautur. Það þarf að setja Epoxy lakkið á í herbergi sem er ekki kaldara en 20 c°til að það nái að flæða vel yfir og stífni ekki of hratt.

Við blönduðum smá blöndu í einu með mæliglösum sem ég keypti í gæludýrabúð og sheikglösum úr Bónus. Svo smáhellti ég yfir á part af plötunni og slétti úr því með svamp pensli sem ég fékk í Söstrene Grene. Þetta gerði ég svo aftur á næsta part við hliðina á og passaði að lakkið færi alveg yfir skilin til að fá jafna og slétta áferð. Þetta er svo endurtekið þar til öll platan er orðin þakin lakki.

Nokkrar myndir af borðplötunum 

Hér er fulltilbúin plata 

Þegar þessu er lokið er hætta á að það myndist loftbólur en ef það gerist þarf að taka drykkjarrör og blása mjög létt á lofbólurnar þar til þær springa, en þetta er gert strax og á meðan lakkið er blautt. Mikilvægt er að breiða vel á gólfin og vera í fötum sem mega skemmast. Einnig er best að gera þetta í herbergi sem má fara lakk á gólfið því þetta er mjög erfitt efni að ná úr og á það til að klínast á fleti sem maður ætlaði sér ekki að klína á.

Ég mæli hiklaust með því að ef ykkur langar að gera fallegar borðplötur að gera þær sjálf. Þetta er ekki bara ódýrt heldur líka mjög skemmtilegt að gera svo ég segi bara ,,go for it” ef þið þorið 😉 Þið megið svo endilega vera dugleg að deila færslunni en það er gert með því að ýta á f takkan hér fyrir neðan 😉

En þangað til næst

takk fyrir mig

María 

 

2 Comments Write a comment

Please add an author description.

2 Comments

 • Hekla Guðmundsdóttir June 1, 2017

  Rosalega fallegt 🙂 Vel gert 🙂

  • maria June 5, 2017

   Takk sæta mín 🙂

Leave a Reply

Pin It on Pinterest