Hvernig á að lakka eldhúsinnréttingu

Heimili

Eins og ég sagði frá í færslunni um Eldhúsið tekið í gegn, þá kom ég inn á það að við ætluðum að reyna að gera það besta úr því sem var til staðar í gamla eldhúsinu til að gera það sem fallegast. Eldhúsið er hugsað til 2-3 ára meðan við erum að safna fyrir nýju eldhúsi.

Við spöruðum eins og við gátum þegar kom að eldhúsinu og þess vegna kom aldrei til greina að fara með innréttinguna á sprautuverkstæði til að láta sprautulakka hana. Sérstaklega ekki þegar um bráðabirgðaeldhús væri að ræða.

Hér er nokkrar myndir af eldhúsinu áður

Svona leit þetta allt saman út áður en byrjað var að lakka 

Það kom mér síðan algjörlega á óvart hversu einfalt það er að gera þetta sjálfur og ekki lét útkoman á sér standa. Það er bókstaflega eins og innréttingin hafi verið sprautuð.

Hér sést hversu slétt og fín áferð er á hurðunum eftir að hafa verið lakkaðar 

Ég hins vegar var búin að lesa mér til og skoða youtube myndbönd eins og ég veit ekki hvað áður en ég byrjaði til að klúðra þessu nú örugglega ekki.

Til að spara ykkur sem eruð að pæla í að lakka hjá ykkur innréttingu tímann sem fer í að lesa og skoða myndbönd, ætla ég að gefa ykkur upplýsingar um hvernig ég lakkaði innréttinguna. Nota bene ,,Ég” því já ég lakkaði alla inrréttinguna sjálf og ætti hver sem er að geta það.

Ætla samt að vara ykkur við því að þetta er vinna, ekki erfiðisvinna bara þolinmæðisvinna. Þetta er ekki eitthvað sem þið rumpið af á einni helgi heldur verðið þið að hafa eins og viku-10 daga til að gera þetta, ef vel á að vera gert. Mæli samt svo með því að gera þetta sjálf ef þið viljið spara ykkur tugi þúsunda í peningum.

Í verkið þarf

 • Góðan lakkpensil
 • Lakkrúllu (Ég keypti mína í Bauhaus, en í málningarverslun var mér sagt að svona rúlla væri bara notuð til að lakka gólf sem er ekki alveg satt)
 • Búkka (Ég keypti mína í Bauhas á slikk)
 • Málningarteip
 • Sandpappír og helst juðara, þeir kosta ekki mikið
 • Handkúst
 • Vatnslakksgrunn
 • Vatnslakk
 • Fullt af málningarfötum, dósum, skálum eða öðru til að láta frontana þorna á

Grunnin og lakkið keypti ég í Flugger. Mér finnst lakkið þeirra vera langbesta lakkið, en ég hafði áður prufað lakk frá Slippfélaginu og fannst það engan veginn nógu sterkt. Það var mjög fljótt að flagna svo ég mæli frekar með lakkinu frá Flugger, (tek fram að ég er ekki sponseruð af Flugger).

Það er miklu betra að nota vatnslakk til verksins þar sem það er mun auðveldara í meðhöndlun og sama sem lyktarlaust.

Gæjarnir í Flugger Hafnarfirði eru þeir langbestu þegar kemur að góðri þjónustu og til að fá sem nákvæmastar og réttustu leiðbeiningar. Trúið mér, ég hef allt of oft fengið rangar leiðbeiningar í málningarverslunum annars staðar. Því er ekki sama hver er og get ég ekki annað en ráðlagt ykkur að fara í Flugger Hafnarfirði út frá eigin reynslu.

Það fyrsta sem þið þurfið að gera þegar byrjað er að lakka er að taka alla fronta af skápunum. Alls ekki lakka hurðir skrúfaðar á, það er bara ávísun á klúður.

Já takk svona var þetta hér í denn 

Takið svo af lamir og höldur

Næst er svo að pússa alla frontana létt yfir. Ekki pússa þá alveg niður heldur bara rétt rispa yfirborðið til að fá grip fyrir lakkið.

Burstið svo allt ryk af með litla kústinum og passið að gera það mjög vel.

Næst er svo að þrífa alla frontana vel með fituleysir eða sjóðandi heitu vatni og uppþvottalög, og svo með hreinu vatni yfir.

Látið frontana þorna vel áður en byrjað er að mála.

Ef þið ætlið að skipta um höldur eins og ég gerði þá þarf að sparsla í götin frá gömlu höldunum með trésparsli og pússa svo yfir það. Munið bara að dusta allt ryk af, því það getur sest í málninguna.

Leggið frontana sem á að mála á búkka, og byrjið á að grunna. Ég grunnaði allt saman 2 umferðir. Passið að það sé hvergi svona lekaslóð og taumar. Ég rúllaði allt saman og penslaði í raufir.

Hér er byrjað að grunna en búkkarnir eru mjög mikilvægir til að auðvelda handtökin

Það er alltaf máluð ein hlið í einu, ekki mála báðum megin. Svo þarf sú hlið að fá að þorna eftir leiðbeiningum áður en málað er yfir. Til að geta byrjað að mála hinum megin frá er nóg að grunnurinn/lakkið á fyrstu umferðunum sé snertiþurrt en farið bara varlega til að rispa það ekki.

Hér sést hvernig er búið að grunna yfir eina umferð þá sér maður smá dökkt í gegn

Þegar búið er að grunna er byrjað að lakka. Þá er mikilvægt að vanda mjög til verka. Ég rúllaði alla frontana mína nema þar sem er rauf í hurðunum, þar penslaði ég ofan í raufina allan hringinn og rúllaði svo yfir allt saman. Mikilvægt er að hafa vel af lakki í rúlluni, svo rúllaði ég alltaf fyrst upp og niður og svo að lokum mjög létt þvert yfir allt saman til að fá sem jafnasta útkomu.

Hér sést í raufirnar en þær þurfti að pensla í áður en byrjað var að rúlla yfir. Svo þarf að passa að láta allt þorna á fötum, skálum eða ílátum sem ná aðeins frá gólfi

Ég lakkaði frontana 2-3 umferðir.

Einingarnar sem eru svo veggfastar þarf að grunna og lakka líka. Þá er teipað meðfram þar sem má ekki fara málning og pússað upp eins og með frontana, dustað, þvegið og látið þorna.

Svo er það grunnað með rúllu alls staðar sem hægt er en með pensli þar sem rúlla kemst ekki að. Mikilvægt er svo að allt saman fái að þorna í þann tíma sem stendur á fötunni og ég lét það þorna 2 sólarhringum lengur til að taka enga sjensa.

Skáparnir mínir voru mjög ljótir inn í en þeir voru gráir. Þar sem ég hafði keypt 3 glerhurðir til að brjóta upp innréttinguna fannst mér svo ljótt að sjá grátt inn í skápnum að ég málaði hann hvítan að innan. Annars þarf þess ekki ef um lokaða skápa er að ræða.

Við skiptum líka út sökklunum en við mældum fyrir þeim og létum saga út MDF fyrir okkur í sökkla sem ég svo lakkaði á sama hátt og skápana

Við notuðum svo gamlar plötur sem voru í innréttingunni og smíðuðum skáp úr þeim utan um ísskápinn og lökkuðum á sama máta og áður

Nokkrar myndir af eldhúsinu í dag

Myndir Anton Brink

Nokkur smáatriði sem skipta ekki síður máli ef eldhús á að vera fallegt

Núna er eldhúsið okkar búið að vera svona í tæpt ár og það er ekkert byrjað að flagna af skápunum og heldur lakkið sér mjög vel. Mér finnst þetta hafa verið alveg þess virði að fara út í þessa vinnu en það er hægt að gjörbreyta rýmum með málningu einni saman. Þess vegna hvet ég ykkur til að skoða hvort að það að lakka gamla innréttingu sé ekki málið áður en öllu er hent út og allt keypt nýtt 😉

Hrærivélin mín sem ég hef átt í nokkuð mörg ár og fæ aldrei leið á þó hún sé með þennan afgerandi blágræna lit

Litlu hlutirnir skipta líka svo miklu máli 

Mynd Anton Brink

Mynd Anton Brink

Nóg af frontum til að mála en í heildina málaði ég 26 fronta+4 stórar plötur utan um ísskápin svo umferðirnar voru á bilinu 130 á allt fyrir utan það sem var veggfast 🙂

Hér var stór eining og var mikið af götum og sárum eftir hana á veggnum ásamt fullt af rafmagnsdósum. Við settum upp þessar hillur til að fela sárin. Ef ykkur langar að lesa allt sem við gerðum við eldhúsið ásamt kostnaðinum við það er færsla um það hér

Mynd Anton Brink

Fyrir ykkur sem ætlið að láta vaða

Gangi ykkur vel 🙂

María 

 

8 Comments Write a comment

Please add an author description.

8 Comments

 • Aðalheiður July 16, 2017

  Æðislegt eldhúsið ykkar! 🙂

  • maria August 10, 2017

   Takk kærlega fyrir það 🙂

   • Ásta April 27, 2019

    Sæl
    Hvernig er staðan á eldhúsinu hjá þér í dag, sér eitthvað á lakkinu ?
    Kv
    Ásta

    • maria April 27, 2019

     Sæl , það eru komin rúm tvö ár síðan ég málaði innréttinguna og það sér ekki á henni, þetta er algjör snilld ef maður vill spara sér pening og lengja líftíma eldhússins 🙂 Mæli 100 % með 😉

 • Magnea September 10, 2017

  Hvad heitir vatnslakkid seem du notadir? Virkilega flott

  • maria September 17, 2017

   Man ekki nafnið á því en það er selt í flugger og þeir vita nákvæmlega hvaða lakk á að nota og held að þeir séu bara með það lakk. Ég lét setja í það einn svartan dropa til að það myndi þekja betur, smá ábending 😉

 • Sp September 13, 2017

  Mjög fallegt, manstu hvað þetta var að kosta þig, þe bara malningahlutinn (ekki sökkullinn)?

  Og einhver serstök aðferð/malning til að mala flisarnar?

  • maria September 17, 2017

   Takk fyrir það 🙂 Ég man ekki alveg nákvæmlega hvað þetta kostaði en man að það var einhversstaðar um 20.000 kallin 🙂

Leave a Reply

Pin It on Pinterest