3 ára afmæli Mikaels með uppskriftum af bestu veitingunum úr veislunni

höf: maria

Eitt það skemmtilegasta sem ég veit um er að halda upp á afmæli barnanna minna. Löngu áður en þau eiga afmæli erum við farin að ræða um hvernig köku eigi að baka. Yfirleitt þróast það þannig að þau segja mér hvernig köku þau vilja og svo googlum við hugmyndir af kökum sem samræmast þeirra hugmyndum. Oft benda þau mér á kökuna sem þeim langar í og þá reyni ég eftir bestu getu að baka hana. Lokaútkoman verður samt yfirleitt allt önnur en fyrirmyndin og hafa börnin alltaf orðið alsæl með sína köku.

Í þetta skiptið átti Mikael minn 3 ára afmæli og þar sem við vorum í miklum framkvæmdum og flutningum fyrir ári síðan, þegar hann átti 2 ára afmæli, var nánast ekkert úr deginum hans þá. Ég huggaði mig við það að á næsta ári myndi hann fá stóra og fína veislu sem hann svo fékk.

Sæskrímslakakan sem gerði Mikael alsælan

Við vorum farin að ræða köku fyrir mörgum vikum síðan og fór hann fram og til baka með hvernig kakan hans ætti að vera. Einn daginn vildi hann Batman köku og annan daginn einhvernveginn öðruvísi og svona fór hann fram og til baka, oft mörgum sinnum á dag. Einn daginn kom svo upp hugmynd hjá honum að hafa sæskrímslaköku og stóð hann við þá hugmynd allt fram að afmælinu. Þá var ekkert annað en að skella í eina slíka.

Afmælisbomba númer 2

Þegar ég held veislu geri ég alltaf aftur og aftur þau mistök að hafa allt of mikið af veitingum, því ég óttast það alltaf að það verði ekki nóg fyrir alla. Ég hef verið í veislum þar sem allt hefur klárast og finnst mér það alltaf eitthvað svo vandræðalegt. Svo er það líka Spánverjinn í mér sem þarf alltaf að hafa nóg að borða handa öllum, en það skemmtilegasta sem ég veit um er að gefa fólki að borða 🙂

Veisluborðið úr afmælinu, mér finnst alltaf svo gaman að hafa afmælin sem heimilislegust og gera allt sjálf. Finnst það bæði persónulegt og fallegt 🙂

Diska blöðrur og annað skraut verslaði ég í Söstrene Grene en þar er alltaf fallegt úrval á mjög góðu verði af afmælis og veisluföngum. Mæli með því að kíkja þangað þegar halda á veislu. Það var svoldið skemmtileg tilviljun að í þetta skiptið fékkst svona sjávarþema hjá þeim, sem passaði skemmtilega við sæskrímslahugmyndina.  Oftast þróast veislurnar hjá mér á þennan hátt. Eitt leiðir af öðru og svo verður skemmtileg útkoma í lokin þegar allt smellur saman. Ég reyni síðan að hafa litina í kökunum svipaða og þeim sem eru í diskum og servíettum, þá verður heildarmyndin svo falleg.

Glös, diskar, servíettur og rör úr Söstrene Grene 

Það sem ég hef lært á að halda veislur er að heitir réttir og brauð er alltaf langvinsælast og alltaf tekið fram yfir kökur…næst ætla ég mér að muna þetta og bjóða eingöngu upp á þannig rétti. Svo ætla ég að hafa eina köku í eftirrétt, þar sem ég sit alltaf uppi með svo mikinn afgang af kökum, þrátt fyrir að hafa sent suma gestina heim með nesti. Verð samt að viðurkenna að mér finnst það mun skárra en að verða uppiskroppa með veitingar í miðri veislu.

Dagurinn hans Mikaels var frábær í alla staði og var honum fagnað með fjölskyldu og vinum sem færðu honum fallegar og rausnarlegar gjafir sem hann er alsæll með.

Mikael var svo glaður og ánægður með daginn sinn og kökuna sem ég bakaði, hér er hann með nýjasta ljósmyndasvipinn sem einkennir allar myndir af honum þessa dagana 😀

Frá okkur og langömmu sinni fékk Mikael þennan fallega sparkbíl og fána í herbergið

Ég var mjög sátt við veitingarnar í veislunni og slóu þær alveg í gegn. Því langar mig til að gefa ykkur uppskriftir af því sem var í boði. Við vorum með 3 heita rétti, 2 kökur og heimagert konfekt sem algjörlega sló í gegn og var reglulega spurt hvort væri til meira af því.

Heitur brauðréttur með ferskjum, beikon, skinku, sveppum og camembert…borið fram með sinnepssósu

Þennan rétt sér maðurinn minn Raggi alltaf um að gera, en þetta er uppskrift sem kemur frá Rósu mömmu hans. Hann er svo ómótstæðilega góður og klárast alltaf upp í hvert skipti sem við höfum hann.

Í réttinn þarf :

 • 3/4 fransbrauð
 • 1 dós sýrður rjómi
 • karrý eftir smekk
 • 3-4 msk mayones
 • 1 dós ferskjur í dós
 • 1 dós sveppir
 • 1 bréf af beikon
 • 1 bréf skinka
 • 1 camembert, brie eða kastala (hvaða hvítmygluostur sem er)
 • 1 poki af rifnum osti
 • papríkuduft til að strá yfir

Aðferð :

 1. Rífið brauð í eldfast mót og hellið safanum af sveppunum og ferskjunum yfir.
 2. Gerið sósu úr 1 dós af sýrðum, 3-4 msk mayonesi og karrý eftir smekk.
 3. Hellið svo sósunni yfir brauðið í mótinu
 4. Skerið sveppina aðeins niður, skinkuna og beikonið og steikjið á pönnu. Setjið það svo yfir brauðið með sósunni í eldfasta mótið.
 5. Skerið næst niður ferskjur í sneiðar og raðið fallega yfir allt saman. Skerið svo ostinn í þunnar sneiðar líka.
 6. Raðið ostinum svo jafnt yfir allt saman í mótinu og stráið að lokum rifna ostinum yfir og kryddið með smá papríkudufti.
 7. Bakið svo í ofni á 200°C í 30-35 mínútur

Nammi namm þessi réttur er alveg geggjaður og mæli ég með honum við hvaða tilefni sem er 

Sinnepssósa með réttinum

Rétturinn er algjörlega fullkomnaður þegar hann er borinn fram með sætri sinnepssósu en í hana þarf :

 • 1 dós af sýrðum með graslauk (þessi í grænu dósunum)
 • 2 msk hunang
 • 3 msk sætt sinnep

Þessu er öllu hrært saman og ef ykkur finnst vanta meiri sætu eða sinnep þá bara bætið þið við og smakkið til eftir smekk. Sósan er borin fram sér með réttinum.

Beikonrúllur með fransbrauði, osti og aspas 

Þessi uppskrift er eins og uppskriftin af heita réttinum einnig komin frá mömmu Ragga, og er þetta eitthvað sem hann gerir alltaf. Þetta er svo guðdómlega gott og er hver rúlla einn munnbiti. Þessar rúllur eru flottar í hvaða partý sem er og mæli ég einnig með að nota þær sem tapas ef þið viljið halda tapas veislu. Fleiri uppskriftir af tapasréttum má finna hér 

Í rúllurnar þarf:

 • 1 poka fransbrauð
 • Brauðost
 • 1 dós aspas
 • 1-2 bréf beikon

Aðferð:

 • Byrjið á að skera skorpuna af brauðinu og fletjið það svo út með kökukefli

 • Skerið brauðsneiðarnar í tvennt og einnig beikonsneiðarnar. Setjið svo næst beikonsneið á bretti og brauðið ofan á

 • Skerið næst eina ostsneið á hverja sneið af brauði og setjið aspas á endana eins og sýnt er hér á myndinni fyrir ofan.
 • Brauðinu er svo rúllað upp og tannstöngli stungið í gegn

 • Raðið svo á ofnskúffu með smjörpappa og hitið á 200°C þar til osturinn er bráðnaður og beikonið orðið dökkt og stökkt.

Þessar eru meira en góðar !!

Fyllt Baguette brauð

Þessi uppskrift á örugglega eftir að koma ykkur skringilega fyrir sjónir en samsetningin á fyllingunni er frekar furðuleg svona á blaði. Það sem er svo frábært við þetta er að bragðið er svo gott og kemur alltaf á óvart. Ég eiginlega kann ekki einu sinni að lýsa því hvernig þetta smakkast á annan hátt en frábærlega, og er þetta ekki líkt neinu sem ég hef smakkað áður. Þetta smakkaði ég fyrst fyrir 17 árum síðan þegar ég var í vinnustaðaboði og fékk ég að skrifa niður uppskriftina sem var upprunalega úr uppskriftabók Lions kvenna. Ég hef reyndar breytt henni að mínum sið og að mínu mati gert hana enn betri 😉

Í uppskriftina þarf:

 • Frosin Baguette brauð frá la Baguette (fást í frystinum í Bónus og Hagkaup)
 • 1 lítil dós mayones
 • 1 dós sýrður rjómi með graslauk (þessi í grænu dósunum)
 • 2 epli
 • 1/3 gúrka
 • 1 bréf spægipylsa
 • 1/2 rauð paprika
 • 1/2 græn paprika
 • 1/2 rauðlauk
 • papríkuduft

Aðferð:

 1. Afþýðið brauðið í umbúðunum og skrælið eplin
 2. Hrærið saman mayones og sýrðum rjóma í stóra skál
 3. Skerið öll hráefnin nema brauðið niður í bita
 4. hrærið svo öllu saman við mayones rjóman
 5. Kljúfið brauðið í tvennt eins og hamborgarabrauð og setjið fyllinguna á milli.
 6. Spreyið á brauðið vatn úr úðabrúsa og stráið smá papríkukryddi yfir brauðin
 7. Bakið á 200°C í 15-20 mín eða þar til brauðin eru orðin gyllinbrún og fyllingin orðin heit.

Bilað gott konfekt með Dumle karamellum, lakkríslengjum, kornflakes og rjómasúkkulaði

Þetta konfekt er eiginlega bara bilun. Það er ekki bara gott heldur líka mjög auðvelt að gera. Ég bara gat ekki hætt þegar ég var búin að fá mér einn mola og myndi ráðleggja ykkur að gera þetta ekki nema þið hafið marga til að deila því með. Þetta er frekar stór uppskrift. Uppskriftin er frá Gulur Rauður Grænn og salt..og gef ég henni fullt hús stiga !!

Í uppskriftina þarf:

 • 300 gr Dumle karamellur
 • 130 gr smjör/ljóma
 • 200 gr fylltar lakkrísreimar
 • 90 gr kornflakes mulið gróflega

Krem

 • 400 gr Rjómasúkkulaði (ég blandaði saman tveimur 150 gr plötum að Nóa súkkulaði og einni 100 gr plötu af Euro Shopper mjólkursúkkulaði, og það var geggjað gott)
 • 60 gr smjör/ljóma

Aðferð:

 1. Bræðið saman smjöri og karamellum í potti við vægan hita, passið að hræra reglulega í. Í lokin þegar búið er að slökkva undir pottinum, er gott að píska þessu saman hratt svo smjörið nái að blandast vel við karamellurnar.
 2. Klippið lakkrísreimarnar út í og myljið kornfleksið gróft saman við og hrærið saman.
 3. Setjið á smjörpappa og breiðið úr þessu í ferning, setjið svo í frysti á meðan kremið er útbúið
 4. Bræðið smjör og rjómasúkkulaði saman yfir vatnsbaði og takið konfektið úr frysti og dreyfið yfir.
 5. Stingið svo aftur í frystinn og látið vera þar alla vega hálftíma.
 6. Gott er svo að taka konfektið út 10 mínútum áður en á að skera það því það verður mjög hart í frysti. Berið svo fram og þið megið bóka að það klárast á núll einni.

Amerísk súkkulaðiterta með smjörkremi

Þar sem ég er búin að setja inn uppskriftina af þessum botnum áður ætla ég ekki að skrifa hana hér upp aftur. Til að gera svona stóra skúffuköku tvöfaldaði ég uppskriftina og þá passar hún í tvær stórar ofnskúffur. Uppskriftina af botnunum má finna hér. Ef það flækist fyrir ykkur að tvöfalda hana í einum rykk er gott að gera fyrst bara í eina skúffu og svo aðra. Það getur alveg verið smá ruglandi að reikna brotareikning í miðjum bakstri :S

Uppskrift af botnum og súkkulaðikremi er hér 

Þessi uppskrift af súkkulaðiköku er mín uppáhalds, því hún er dökk og mjög djúpt og mikið súkkulaðibragð af henni. Hún er heldur aldrei þurr og geymist lengi í ísskáp

Hvítt Smjörkrem á kökuna

 • 250 gr smjör/ljóma við stofuhita
 • 1 pakki flórsykur
 • 3 tsk vanilludropar
 • 2-4 msk matreiðslurjómi

Aðferð:

 1. Þeytið smjörið vel og bætið svo flórsykri útí í smáskömmtum og þeytið vel saman.
 2. Bætið nú matreiðslurjóma og vanilludropum út í og haldið áfram að þeyta vel saman á miklum hraða þar til kremið er orðið skjannahvítt og flöffý.
 3. Bætið svo við þeim matarlitum sem þið viljið til að lita kremið.

Afmælisborðið var falleg og einfalt en veitingarnar sáu mest um að skreyta borðið

Ég vona að hér hafið þið fengið hugmyndir af nýjungum til að hafa í veislum hjá ykkur en ég get með góðri samvisku sagt að allt smakkaðist þetta dásamlega og fóru allir héðan saddir og sáttir með daginn, ekki síst litli maðurinn sem átti afmæli 🙂

Langar að ljúka færslunni með nokkrum myndum af fallega afmælisbarninu 🙂

Þessi drengur slær öll met í góðmennsku og kærleika 

Alltaf þakklátur og elskulegur við mömmu sína og segir mér reglulega að ég sé góð og hann elski mig. Hvað er hægt að biðja um meira <3

Þangað til næst

Knús
María 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

6 Athugasemdir

Asdis Gudmundsdottir August 15, 2017 - 11:14 pm

Vá María þetta er æðislegt ! Takk fyrir að deila þessum gómsætu uppskriftum og hugmyndum ! Ég mun svo sannarlega nýta mér þetta 🙂

Svara
maria August 17, 2017 - 10:31 am

frábært væri gaman að heyra svo frá þér ef þú notar einhverja uppskrift hvernig þér líkaði 😉

Svara
Asdis Gudmundsdottir August 15, 2017 - 11:16 pm

Og til hamingju með strákinn þinn :*

Svara
maria August 17, 2017 - 10:30 am

En gaman að heyra, takk kærlega fyrir það 🙂

Svara
Birna September 13, 2019 - 10:57 am

Hvað dugir uppskriftin af baguettefyllingunni í mörg brauð?

Svara
maria September 13, 2019 - 11:00 am

Hún dugir í alveg að minnsta kosti 6 svona frosin baguette brauð sem eru í kælinum í Bónus eða Hagkaup frá La Bauette

Svara

Skrifaðu athugasemd