Syndsamleg súkkulaðikaka í blúndu

Bakstur Tertur & Kökur

Já það er hverju orði sannara að þessi er sko syndsamlega góð og má enginn sem les þessa uppskrift sleppa því að prófa hana. Uppskriftin kemur frá vinkonu sem keypti sér uppskriftabók í suðurríkjum Bandaríkjanna, nánar tilgetið í fylkinu Alabama í trúarbeltinu. Ég hins vegar ákvað að breyta henni aðeins og gera hana aðeins syndsamlegri, (kökunni ekki vinkonunni 😉

Kakan er eins og dökka Betty Crocker kakan nema bara miklu betri, þó hin sé mjög góð líka. Hún er dökk, mjúk og djúsí og stenst hana enginn sem kemst í tæri við hana. Þið eiginlega verðið bara að prófa hana sjálf til að skilja hvað ég er að meina.

 

Í uppskriftina þarf

 • 2 bolla af sykri
 • 1 3/4 bolla af hveiti
 • 3/4 bolla af  kakó
 • 1 og 1/2 tsk lyftiduft
 • 1 og 1/2 tsk matarsódi
 • 1 tsk af salti
 • 2 egg
 • 1 bolla af AB mjólk eða sýrðum rjóma
 • 1/2 bolla af grænmetis eða sólblómaolíu
 • 2 tsk vanilludropa
 • 1 bolla kaffi (Ég sýð bara vatn og set 1 tsk instant kaffi út í)

Aðferð

Hitið ofninn á 180 C°.

Setjið öll þurrefnin í skál og hrærið létt saman.

 

Bætið því næst eggjunum út í og svo restinni af uppskriftinni, nema kaffinu, geymið það þar til síðast.

Svo er öllu þeytt saman í mjög stutta stund, ef þið hrærið of lengi þá verða botnarnir seigir.

Deigið á að vera þykkt og þétt í sér 

Stoppið hrærivélina, eða þeytarann, og hellið svo kaffinu út í og kveikið aftur í mjög stutta stund á miðlungs hraða. Það er nóg að hráefnin blandist bara rétt saman og blandan verði mjúk, glansandi og frekar þunn.

Ef þið notið 21 cm form þá verða þetta 3 botnar. Í 26 cm formi fáið þið tvo botna. Ég notaði núna 21 cm form. Einnig er hægt að gera í ofnskúffu en þá þarf að tvöfalda uppskriftina.

Spreyið formið að innan með bökunarspreyi. Fyrir þessa uppskrift er spreyið betra en að smyrja formin að innan með smjöri.

sníðið smjörpappa í botninn og spreyið svo aftur yfir hann.

 

 

 

 

Hellið svo blöndunni varlega ofan í formin og látið ná 3/4 upp, eða aðeins meira en upp að helming. Varið ykkur því kakan lyftir sér vel og ef sett er of mikið í formið getur hún byrjað að leka upp úr inni í ofninum.

Setjið nú kökuna í ofninn á 180 C° í 35 mínútur. Þegar hún á að vera orðin tilbúin, opnið þá ofninn og stingið í miðjuna á henni með hníf eða prjón og ef það kemur alveg hreint upp úr er kakan til. Ef það er deig, á hnífnum eða prjóninum, þá þarf að baka hana í 5 mín í viðbót. Takið hana svo úr ofninum og látið kólna vel áður en kremið er sett á hana.

Því næst er að setja í kremið á en það er gott að búa það til meðan kakan er að bakast í ofninum. Til þess þurfið þið að vera búin að mýkja upp smjörið.

 

Í kremið þarf

 • 1 pakka af flórsykri
 • 3 kúfaðar matskeiðar af dökku bökunarkakó
 • 300 gr mjúkt smjör eða Ljóma
 • 1 tsk vanilludropar
 • 2 msk af kaffi
 • 1/2 tsk af salti

Aðferð

Setjið öll þurrefni í skál og brjótið svo mjúkt smjörið ofan í, og hellið síðast kaffinu yfir.

Hrærið allt saman á miklum hraða þar til kremið er orðið silkimjúkt

Kremið á að líta svona út þegar það er tilbúið

Geymið kremið upp á borði þar til því er smurt á kökuna.

Þegar botnarnir eru orðnir kaldir er tími til að setja kremið á.

Setjið vel af kremi á milli og hafið það kúptara í miðjunni. Setjið svo hinn botninn ofan á, og smyrjið þann botn líka með kremi

Látið kremið út á hliðarnar og þekjið alla kökuna með kremi.

Nú er kakan sett í blúndukjólinn en í hann þarf hnetur og hvítt súkkulaði að eigin vali. Ég notaði hér valhnetur og hvítt Toblerone.

Set þetta allt saman í blandara á full speed þar til það er orðið að grófum mulningi

Passið að hræra ekki of mikið svo það verði ekki að smjöri.

Skerið að lokum niður fersk jarðaber og skreytið kökuna.

 

Raðið jarðaberjunum ofan á og setjið súkkulaðihnetumulningin á með matskeið. Það þarf að þjappa honum upp á hliðarnar með bakhlið skeiðarinnar.

Þessa köku hef ég gert í margskonar útfærslum en það má t.d. sleppa kakóinu í kreminu og kaffinu og setja matarlit út í ef þið viljið gera barnatertu t.d.

Ég hef notast við þessa uppskrift á botnunum við ýmis tilefni, í skírnum, brúðkaupinu mínu og barnaafmælum og í hvert skipti dásamar fólk hana og biður um uppskriftina. Það er bara eitthvað extra gott við þessa köku sem lætur bragðlaukana í munninum dansa af gleði.

 

 

 

Berið fram með þeyttum rjóma og þá er þetta orðið fullkomlega fullkomið 🙂

Þið lofið mér að baka þessa köku og gaman væri að fá að heyra hvað ykkur finnst.

Knús

María 

 

No Comments Write a comment

Please add an author description.

No Comments

Leave a Reply

Pin It on Pinterest