Holl og góð hrákaka

Hollusta Sætindi

Uppskriftina af þessari hráköku fékk ég hjá vinkonu minni fyrir örugglega 8 árum síðan og hef ég alltaf reglulega gert þessa köku síðan. Ég er svo hrikalega mikill sælgætisfíkill og gæti borðað nammi í alla mata og sleppt því algjörlega að borða mat. Viðurkenni það reyndar að ég hef alveg átt þannig tímabil og þá finn ég alveg svakalega mikinn mun á orkunni og heilsunni almennt. Ég verð slöpp og sísvöng allan daginn þegar ég er í þannig ham.

Því reyni ég að borða sem hollast sem oftast, en til þess að halda það út þá verð ég að eiga eitthvað sætt til að maula á svona um miðjan daginn með kaffinu. Því finnst mér þessi hrákaka vera frábær því hún er rosalega bragðgóð, holl og saðsöm og endist mér alveg fram á kvöldmat.

Fyrir ykkur sem eruð að passa línurnar þá eru alveg hellingskaloríur í kökunni rétt eins og öðru nammi eða kökum. Því er betra að passa sig að borða ekki of mikið af henni, en mér finnst oft margir halda að það sé í lagi að borða mikið af einhverju ef það telst hollt.

Munurinn á þessari köku og þessu venjulega sælgæti er sá að úr hrákökunni fæst næring og maður verður virkilega saddur af henni. Möndlurnar eru mjög kalkríkar, döðlurnar innihalda trefjar og eru ríkar af járni og svo er kókósolía sem á að vera mjög góð fyrir meltingarveginn. Það getur því ekki verið annað en hollt að borða eina svona góða sneið á dag 🙂

Það er mjög auðvelt að gera þessa uppskrift og tekur hún smá stund. En í hana þarf:

Botn

 

 • 100 gr Kókosmjöl
 • 100 gr Möndlur (ég nota alltaf með hýðinu á)
 • 250 gr Döðlur (ég nota alltaf Heima döðlur mjúkar)
 • 2-3 msk Kakó
 • Smá vatn til að bleyta í

Aðferð

 • Byrjað er á að mala möndlurnar í matvinnsluvél. Passa að mala ekki of mikið, þá verða þær eins og smjör.
 • Næst er svo restinni af uppskriftini bætt út í matvinnsluvélina,  nema vatninu. Vinnið hráefnin saman í matvinnsluvélinni og smá bætið vatni út í, í lokinn þar til að deigið er orðið svona klístrað saman. Passið að nota ekki of mikið af vatni bara ögn.

 • Svo er botninum þjappað niður í mót eða form og ef þið viljið ná kökunni upp til að skera í bita er betra að setja smjörpappír undir.
 • Gott er að setja þetta svo í kæli eða frysti meðan kremið er búið til en í það þarf

 

Krem

 

 • 1 1/2 dl Kókósolíu
 • 1 1/2 dl hreint Kakó
 • 3/4 dl Agavesíróp
 • Pínu lítið af maldon salti

Aðferð

 • Byrjað er á að bræða kókósolíuna í krukkunni, undir heitu vatni í krananum með lokið á.
 • Svo er hún sett í skál og næst er agave sírópinu og kakóinu bætt saman við.
 • Svo er að hræra vel, en ég nota alltaf gaffal við það, þar til það verður silkimjúkt og glansandi. Passið samt að hræra það ekki of mikið því þá getur það orðið að þykkri klessu.

 • Svo að lokum er að hella súkkulaðinu/kreminu yfir botninn og setja í frysti í svona 15 mín.

 • Þegar kakan er tekin úr frystinum er gott að skera hana strax niður í bita. Best er að borða hana beint úr frysti eða kæli.

 • Geymið svo kökuna alltaf í frysti en það er mjög sniðugt að eiga svona sneiðar til í boxi til að taka út þegar manni langar í eitthvað sætt.
 • Ég get lofað ykkur því að ein sneið af þessari drepur niður alla frekari löngun í eitthvað sætt.

Mér finnst mjög gott að fá mér smá þeyttan rjóma með henni eða mjólkurglas með klökum.

Þangað til næst

Verði ykkur að góðu

María 

No Comments Write a comment

Please add an author description.

No Comments

Leave a Reply

Pin It on Pinterest