Spænskir áramótasiðir sem færa lukku á nýju ári

Spánn

Spænsk jól og áramót eru eins ólík þeim íslensku og hugsast getur. Það sem mér þykir fyndið að hugsa til er að Spánverjar sem er kaþólsk þjóð, og hefur verið stjórnað af kaþólsku kirkjunni um árabil, eru ekki svo heilagir þegar kemur að jólum. Þann 24. desember þegar við sitjum prúð heima, hér á fyrrum heiðna Íslandi, og borðum jólamatinn okkar eða fjölmennum í messu, þá eru hinir rammkaþólsku Spánverjar að skemmta sér haugafullir á diskótekum landsins. Á jóladag koma fjölskyldur saman, (í þynnkunni), og halda áfram að borða og drekka. Tapas, risarækjur, önd, marsípan brauð og Turron eru réttir sem þekktir eru á jólaborðum Spánverja. þessu er skolað niður með Cava, spænsku freyðivíni.

Turron spænskt jólasælgæti 

Hin eiginlega jólahátíð Spánverja er ekki haldin fyrr en þann 6. janúar og þá eru gefnar gjafirnar. Hljómar mjög skrítið í eyrum Íslendinga en 6. janúar kallast dagur konunganna eða dia de los reyes.  Með konungunum er átt við vitringana þrjá sem gáfu Jesúbarninu gjafir þann 6. janúar og þaðan er siður gjafanna á Spáni kominn. Á degi konunganna fara þrír fagurklæddir vitringar á vögnum um borgir og bæji Spánar og strá sælgæti til fjöldans. Á þessum degi er einnig borðað sérstakt brauð sem kallast kóngakrans eða Roscon de Reyes. Það er einhverskonar hringlaga vínarbrauð sem er skreytt með möndlum og rauðum og grænum kirsuberjum. Í brauðið er sett baun sem kallast Haba og svo hringur líka. Sá sem hreppir hringinn hlýtur þann titil að verða konungur dagsins. Sá sem hreppir baunina á að greiða fyrir brauðið.  Í miðju kransins er gullkóróna sem konungur dagsins, eða sá sem hreppti hringinn, fær svo að bera á höfðinu.

Roscon de Reyes eða kóngakrans eins og það kallast á íslensku

Ég man að þegar ég var barn á Spáni þá héldum við alltaf nokkurskonar spænsk/íslensk jól. Þá lét föðursystir mín, hún Mercedes, sérstaklega reykja svínahrygg fyrir mömmu svo hún hefði eitthvað á jólunum sem minnti hana á Ísland. Þá var tíminn allt annar og fjarlægðin við að búa í öðru landi svo miklu meiri en gerist í dag.  Tæknin í dag gerir okkur kleift að tala við ættingja í öðrum löndum daglega án nokkurs tilkostnaðar. Þegar ég var krakki kostaði hinsvegar handlegg að hringja á milli landa með lélegu símasambandi sem slitnaði oftast í miðju samtali. Það var heldur ekki hlaupið að því að kaupa farseðil á dýru verði til að kíkja heim á ættingjana yfir jólin. Því var þetta mjög kærkomið fyrir mömmu og mig sem söknuðum oft Íslands á jólunum. Ég man líka að allir frá Íslandi sendu mér svo flottar og vandaðar gjafir sem ég fór afar vel með og tóku óratíma að komast yfir hafið. Ég man að við opnuðum gjafirnar á aðfangadag og héldum jólin eins og á Íslandi á okkar heimili. Svo voru spænsk jól hjá spænsku stórfjölskyldunni, svo ég fékk smjörþefinn af því besta frá báðum löndum.

 

En nú ætla ég að víkja mér að nokkrum áramótahefðum Spánverja sem eiga að færa manni mikla lukku á nýju ári

 

 Tólf vínber meðan klukkan slær tólf sinnum inn áramótin

Á Spáni ríkir sú gamlárskvöldshefð að menn stingi upp í sig einu vínberi rétt fyrir miðnætti í takt við klukknaslögin 12 sem hringja inn nýja árið. Þeir sem ná að stinga síðasta vínberinu upp í sig rétt fyrir klukkan tólf geta átt von á afar gleðilegu og gæfuríku ári. Skömmu fyrir kl. 12 á nýársnótt fær hver og einn litla skál með 12 vínberjum og glas af freyðivíni sem kallast Cava. Rétt áður en klukkan slær á að óska sér einhvers í hljóði. Um leið og hún slær fyrsta höggið á að skála, fá sér eitt vínber og drekka einn sopa og síðan þannig koll af kolli. Óskin rætist hafi menn lokið úr glasinu og borðað öll berin áður en klukkan slær síðasta höggið. Hvert vínber segir til um hvernig mánuðir næsta árs muni líða. Sæt ber tákna auðvelda mánuði en súr ber tákna erfiðari tíð. Þessi siður er mjög skemmtilegur og er fólk oft í hláturskasti við að troða í sig berjum og drekka freyðivínið í keppni við tólf klukknaslög. Þennan sið er auðvelt að taka upp hér á Íslandi og mæli ég með honum sem partýleik á gamlárskvöld. Munið að kaupa inn vínber fyrir áramótin. 

 

Linsubaunasúpa í hádeginu á nýársdag

Víða á Spáni tíðkast það að borða linsubaunasúpu og Chorizo pylsu í hádeginu á nýársdag. Spánverjar líta svo á að hringlaga linsubauninirnar minni á litla smápeninga og með því að borða smápeningasúpuna svokallaða muni hún færa mikla velmegun á nýju ári.

 

Gull og glas af Cava

Rétt áður en skálað er fyrir nýju ári á Spáni er settur gullhringur eða annar hlutur úr gulli ofan í glasið af Cava. Spánverjar trúa því að þetta skapi ekki bara auð á nýju ári heldur einnig mikla lukku. Frá giftingarhringjum úr gulli til gullpeninga, þá er þetta allt sett í glasið. Til að þú getir nýtt þér heppnina sem fylgir þessu þér í vil þá þarftu að ná að klára glasið fyrir miðnætti og ná gullinu upp með síðasta sopanum.

Sumir segja að mismunandi hlutir í glasinu færi mismunandi lukku. Sem dæmi segja sumir að ef þú ert að leita eftir ástinni eigirðu að setja jarðaber í líka. Ef þú ert að leitast eftir traustu hjónabandi eigir þú að setja giftingarhringinn ofan í.

 

Byrjaðu árið á hægri fæti

Já það skal sko tekið fram að það á að stíga inn í nýja árið á hægri fæti. Spánverjar trúa því að fyrsta skefið sem þú tekur eftir að klukkurnar hringja inn nýja árið skuli tekið með hægri fæti. Einnig er sagt að fyrsta skrefið sem þú tekur inn í húsið þitt eftir gleðskap á gamlárskvöld skuli vera tekið með hægri fæti. Svo eru aðrir sem segja að fyrsta skrefið sem þú tekur út úr húsi á nýársdag skuli vera tekið með þeim hægri. Það er eins gott að gleyma sér ekki og kannski bara vissara að nota bara hægri fótinn til að storka ekki örlögunum.

Rauð undirföt ef þú ert í leit að ástinni 

 Ef þið búið ekki svo vel að því að eiga rauð nærföt mæli ég með að þið kaupið ykkur ein slík fyrir áramótin, ef þið eruð í leit að hinni einu sönnu ást á árinu sem er að koma. Á Spáni er því trúað að ef þú ert í rauðum nærfötum þegar nýja árið slær inn, munir þú finna ástina það árið. Sums staðar á Spáni er sagt að galdurinn virki ekki nema þér séu gefin nærfötin og annars staðar er sá siður að þú verðir að fara úr nærbuxunum og gefa þær frá þér fyrir miðnætti til að ástargaldurinn virki. ÚÚÚWW ekki myndi ég vilja þiggja þannig gjöf hahaha.

 

Ef ykkur langar að halda fjörugt og skemmtilegt áramótapartý mæli ég alveg með því að taka upp þessa siði og snúa þeim yfir í partýleiki. Væri það ekki gaman að sjá alla troða í sig vínberjum við 12 klukknaslög og taka sopa af freyðivíni inn á milli með gifitingarhringjunum ofan í, sem þarf svo að ná upp úr með munninum ?

Sjá þá einhleypu rífa sig úr rauðu nærbuxunum fyrir miðnætti og gefa frá sér og allir passa sig svo að stíga skrefið inn í nýja árið á hægri fæti. Held að úr geti orðið mikill hlátur og fjör enda eru Spánverjar þekktir fyrir að hlægja, skemmta sér, borða góðan mat og hafa gaman af öllu sem lífið býður upp á.

 

Að lokum eins og sagt er á Spáni

Feliz año nuevo eða gleðilegt nýtt ár

María 

No Comments Write a comment

Please add an author description.

No Comments

Leave a Reply

Pin It on Pinterest