Mig langar til að byrja á að óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vona að þið hafið notið hátíðarinnar. Þar sem nú er örlítið eftir af árinu er ég farin að líta til baka og skoða það sem stendur upp úr á árinu sem er að líða. Hjá mér er það klárlega vefurinn minn paz.is og instagrammið mitt @paz.is.
Aldrei nokkurn tíman hefði mig órað fyrir því að það að opna blogg myndi koma manni jafnlangt áfram og raun ber vitni. Ég var búin að ganga með hugmyndina um að opna blogg í maganum í heilt ár áður en ég lét vaða. Að hafa látið loks vaða á ég svo sannarlega að þakka tveimur frábærum konum sem spörkuðu í rassinn á mér og hvöttu mig áfram þar til ég lét tilleiðast, og lét það verða að veruleika. Þessar konur heita Hulda Rósa og Sandra Karen. Elskurnar mínar takk fyrir stuðninginn og að hafa haft trú á mér. Fallega dóttir mín Gabríela kenndi mér á tæknina og hjálpaði mér að setja upp instagram og snapchat. Já svona tækniheft var ég skal ég segja ykkur. Svo má ekki gleyma elsku og besta manninum mínum honum Ragga sem hefur verið kletturinn minn í gegnum þetta allt saman.
Að opna vef var ekki eins einfalt og ég hélt í fyrstu að það myndi vera. Ég var alveg græn í þessum efnum og hélt hreinlega að ég gæti skráð mig inn á bloggsamfélag og opnað blogg einn tveir og Bingo. Nei það reyndist ekki vera svo einfalt, allavega ekki þess konar blogg sem ég stefndi á að opna. Það var mánaðar undirbúningsferli sem tók við. Það þurfti að finna nafn, gera logo, finna útlit og vefhýsingu, kaupa lén svo fátt eitt sé nefnt.
Ég var svo ótrúlega lánsöm að hitta á Gunnlaug hjá Veföld sem leiddi mig alveg í gegnum þetta ferli og hefur hýst vefinn minn allan tímann. Þjónustan hjá Veföld hefur verið framúrskarandi allan tímann sem ég hef verið með vefinn minn hjá þeim.
Þegar ég lagði af stað í þetta ferðalag var ég ekki enn komin með nafn á vefinn. Ég var í rauninni alveg blank þar til einn daginn skaust nafnið hennar ömmu minnar á Spáni upp í kollinn á mér. Nafnið hennar, og jafnframt föðursystur minnar, hefur mér alltaf þótt svo vænt um. Eftir að það kom upp í hausinn á mér var ekki um neitt annað að ræða en að vefurinn myndi heita Paz, en Paz þýðir friður á spænsku.
Ég var einnig mjög heppin að allt sem tengdist nafninu var á lausu, hvort sem um var að ræða lén, eða notendanafn á instagram. Ég held eiginlega bara að þetta hafi verið smá ment to be og að amma vaki yfir mér með þetta allt saman. Ég allavega leyfi mér að trúa því, því viðtökurnar voru líka hreint og beint magnaðar.
Um leið og vefurinn opnaði fór allt á flug !! Þökk sé ykkur sem hafið sýnt Paz.is áhuga og nennt að lesa vefinn. Ég hef fundið sterkt fyrir því að ég á dyggan og traustan lesendahóp sem mér þykir afskaplega vænt um og er jafnframt auðmjúk og þakklát fyrir að eiga. Þið eruð frábær og án ykkar væri Paz.is ekkert.
Ég vona svo innilega að þið eigið eftir að fylgja mér áfram inn í nýja árið og ég mun gera mitt besta til að halda áfram að koma með hin ýmsu ráð, góðar uppskriftir og allt hvað eina sem mér gæti dottið í hug : )
Að lokum langar mig að rifja upp hversu frábærar viðtökur vefurinn hefur fengið frá ykkur lesendum öðrum vefsíðum, veftímaritum, dagblöðum og tímaritum. Þetta er búið að vera algjörlega absúrd og lyginni líkast. Ég hefði ekki trúað þessu ef mér hefði verið sagt að svona yrði árið 2017 en fyrir manneskju sem var ekki einu sinni með facebook áður en Paz fór í loftið þá var þetta mjög mjög stórt skref út fyrir þægindarrammann. Fyrir það er ég afskaplega stolt og af vefnum mínum einnig.
Elsku bestu fylgjendur, lesendur, blaðamenn, ljósmyndarar, fyrirtæki og aðrir bloggarar takk kærlega fyrir mig á árinu 2017
Að lokum upprifjun ársins
7. apríl fer paz.is í loftið
27. apríl kemur húsið mitt í Hús og Hýbýli
15. maí er instagrammið mitt á glam.is undir uppáhalds hjá Emmu Soffíu. Hægt að sjá greinina hér
10. júní kom heilsíða í Fréttablaðinu og vefútgáfuna má sjá hér
1. júlí voru tapasréttir eftir mig í Fréttablaðinu. Vefútgáfu og uppskriftir má sjá hér
Í júlí kíkti Ernuland hjá krom.is á mig og skrifaði grein sem sjá má hér
Í ágúst fékk ég að vera mamma vikunnar hjá mamman.is en greinina má sjá hér
15. september kom heilsíðuopna um okkur krakkana í Birtu fylgiriti DV. Vefútgáfuna má sjá hér
Í september fékk ég þann heiður að vera matgæðingur Vikunnar og eldaði ég spænska rétti af því tilefni
Í byrjun desember fékk ég þann heiður að vera instagram inspiration hjá Alexöndru á Pigment.is, greinina má sjá hér
Enn og aftur takk fyrir allt og risa knús á ykkur öll !!
Með ósk um farsæld á nýju ári
María
4 Athugasemdir
Hjartanlega til hamingju með þetta allt virkilega vel gert ???
Takk elsku Hekla <3
Ohhh til hamingju með þig aftur!!! Eljusemi, fegurð og hrein og bein framkoma auk einlægni hafa sannarlega komið þér svo vel á framfæri! Áfram þú!
Elsku Þórlaug takk kærlega fyrir falleg orð og frábæra hvatningu <3 Svona falleg orð er það sem gefur manni kraft til að halda áfram og langa að gera enn betur og meira. Langar að hrósa þér sömuleiðis fyrir fallega vefinn þinn Fífur og Fiður en þangað kíki ég reglulega inn og hef gaman af að lesa. Stórt knús á þig og þína og ég óska þér farsældar á nýju ári. Kær kv María