U-beygja tekin í innanhússtíl

Heimili

Þegar maður eignast húsnæðið sem maður ætlar sér að búa í til frambúðar, eða allavega eins lengi og maður fær tækifæri til, þá er eins og eitthvað breytist. Þannig var það allavega hjá mér.

Ég eignaðist fyrst mitt eigið húsnæði árið 2011. Fram að því hafði ég alltaf verið á leigumarkaðinum. Ég hef alltaf verið þannig að ég vil hafa fallegt í kringum mig. Að vera í leiguhúsnæði takmarkar mann auðvitað heilmikið og gerir það að verkum að maður getur ekki gert allt sem manni langar til. Því sem maður ræður sjálfur eru húsgögnin og innanstokksmunir og svo nær það ekkert lengra en það.

Að eignast sitt eigið húsnæði gefur manni hins vegar algjört frelsi til að gera nákvæmlega og nánast allt sem hugurinn langar til. Að sjálfsögðu þarf að fara eftir reglugerðum við niðurrif á burðarveggjum og fleira en frelsið er engu að síður mikið.

Mynd af heimilinu mínu sem ég átti áður. Þar var rómantíkin ráðandi. 

Þegar ég keypti mér mína fyrstu íbúð var ég býbúin að kaupa mér ný húsgögn, eða árið 2010. Þá var rómantíkin ráðandi í innanhústísku og féll ég fyrir þeirri tísku…..þá. Húsgögn í frönskum sveitastíl, glerskápar með frönskum hurðum, loftlistar og mildir beislitaðir veggir er góð lýsing á því hvernig heimilið mitt var á þessum árum.

Við Raggi keyptum okkur hæð í Garðabæ í byrjun árs 2014.  Þó að Skandinavíski stíllinn hafi verið byrjaður að ryðja sér til rúms þá, lét ég mér fátt um finnast og ákvað ég að halda mig bara við þau húsgögn sem við áttum fyrir. Eflaust því ég vissi alltaf að við myndum staldra þar stutt við. Markmiðið var alltaf að enda í einbýlishúsi.

Hæðin í Garðabænum var á annari hæð, en við þurftum að fara upp 15 tröppur úti og 14 þrep inni með alla krakkana til að komast upp í íbúðina. 

Draumurinn varð svo að veruleika snemma árs 2016.  Þá hófst ferlið við að kaupa okkur draumahúsið. Sölu og kaupferlið var ekki átakalaust og tók það oft á tíðum mikið á taugarnar. Loks fengum við svo húsið okkar afhent í júlí 2016 og fluttum inn í það þann 1 ágúst sama ár.

Þið sem lesið bloggið mitt hafið eflaust séð flest allt úr húsinu mínu og hverju við breyttum. Það sem hins vegar fáir vita er að þegar við fluttum hingað inn, passaði akkurat ekkert af húsgögnunum sem við áttum fyrir inn. Auk þess var ég orðin hundleið á þeim.

Út með það gamla og inn með það nýja 

Margir segja að maður eigi ekki að fylgja tískubólum þegar maður gerir sér heimili. Ég er samt svo sannarlega ein af þeim sem eltist við tískubólur, ég játa það fúslega. Ég er bara þannig að ég  fæ oft leið á hlutum og langar að breyta og gera eitthvað nýtt, og fylgja því sem er inn hverju sinni. Að sjálfsögðu reyni ég svo að persónugera þann stíl og gera hann að mínum.

Því varð úr, þegar við fluttum í húsið okkar, að við seldum nánast allt sem við áttum. Allt frá barnahúsgögnum að stofuhúsgögnum.  Pilleríi, lampar, púðar. sófi, sófaborð, borðstofuhúsgögn, gardínur og baðkarið….allt var selt. Svo keyptum við okkur allt nýtt í staðinn og sumt notað. Húsgögn í barnaherbergjum eru t.d. sum hver keypt á bland.is sem og motturnar hjá strákunum.

Epal, Penninn, Rúmfatalagerinn, Söstrene Grene, Ilva, bland.is, Tiger, Ikea og hinar ýmsu vefverlsanir eru þær búðir sem ég verslaði í, til að gera heimili mitt að heimili. Allt í bland og bara það sem mér finnst fallegt. Heimili þarf ekki alltaf að kosta handlegg til að geta verið fallegt. Málning og sprey geta til að mynda gefið hlutum alveg nýtt líf og nýttum við okkur það líka óspart til að breyta gömlu í nýtt.

Áður en ég eignaðist húsið held ég að það sé óhætt að segja að ég hafi ekki verið mikið að spá í einhverjum hönnunargripum, eða í hvaða verslunum ég verslaði í.  Það er þannig líka í dag, en ég er ekki snobbuð að versla í ódýrari búðunum eins og þið sjáið hér að ofan.  Ef mér finnst eitthvað vera fallegt kaupi ég það, þó það sé ekki dýr miði á því.

Hins vegar finnst mér gaman (sérstaklega eftir að ég eignaðist húsið) að eignast einn og einn hönnunargrip úr hönnunarbúð sem mig virkilega langar í. Grip sem fylgir mér út ævina og sem börnin geta svo rifist um þegar ég verð öll haha. Ég er samt alls ekki að hlaupa út í búð og fjárfesta í þessum gripum, heldur reyni ég bara að safna mér fyrir þeim eða fá í gjafir frá mínum heittelskaða.

Gamla heimilið mitt 

Þessi færsla er svo sem ekkert um neitt sérstakt en mig langaði til að sýna ykkur umsnúningin á heimilinu mínu frá því sem áður var.  Mér hefur alltaf fundist svo gaman af fyrir og eftir myndum og langaði að fá að deila þessum myndum af gamla heimilinu með ykkur.

Hér koma myndir af hæðinni sem við áttum áður en við fluttum hingað með þeim húsgögnum og stíl sem einkenndi  það heimili. Íbúðina keyptum við í hálfgerðri niðurníðslu af bankanum. Hún var samt sem áður afar falleg í grunninn, og náðum við að gera hana enn fallegri með litlum framkvæmdum og tilkostnaði.  Við létum pússa parket, máluðum , settum loftlista og ýmislegt fleira stórt og smávægilegt.

Eldhúsið fyrir

Eftir

Við þurftum lítið sem ekkert að gera í eldhúsinu. Náttúrusteinnin á gólfinu var orðin ógeðslegur og fórum við í að taka upp eldgamalt háglansandi bón af honum, pússa hann og bóna með möttu bóni. Það var heljarinnar vinna en munurinn varð þvílíkur.

Eldhúsinnréttingin er úr Kvikk.

Herbergi strákana fyrir breytingar. Þar inni var stór fataskápur sem át upp herbergið og tókum við hann niður. Við það stækkaði herbergið um heilan helling.

Sama herbergið eftir breytingar, en hér sést hvernig Laura Ashley stílinn var ríkjandi.

Miklar skemmdir voru á parketinu en það sést vel hér á þessari mynd. Sem betur fer var þar ekta eikarplankaparket sem auðvelt var að láta pússa upp.

Meðan parketið var sjúskað var eins og íbúðin væri haugskítug. Við að láta pússa upp parketið, birti allt upp, og allt varð mikið snyrtilegra. Eins og sést til hægri á myndinni var galopið ofan í stigaopið og hefði barn hæglega getað klifrað upp á stól og kastað sér fram af. Við ákváðum því að loka gatinu með gleri. Svo settum við á það filmu með fallegri mynd.

Hér sést glerið með filmunni á. Einnig sést vel munurinn á parketinu frá því áður.

Í stofunni settum við upp loftlista í hverkarnar sem gerðu íbúðina meira gamaldags. Húsið var byggt um 1940 og fannst okkur það passa vel þar inni.

Það sést best í loflistana uppi vinstra megin á myndinni. En þetta voru A-listar keyptir hjá Daninn. Ég skil ekki alveg þessar gardínur sem ég var með en í dag hefði ég algjörlega sleppt því að taka þær svona upp til hliðana og leyft þeim bara að flæða alveg fyrir gluggunum. Hefði jafnvel bara alveg sleppt þeim yfir höfuð.

Hér sjást enn og aftur skemmdirnar á parketinu sem lá alveg undir skemmdum. Það var þurrt, rispað og útmigið eftir hunda sem höfðu búið þarna áður.

Ég var alltaf rosalega óánægð með borðstofuna. Stólarnir voru orðnir eldgamlir, en ég hafði saumað eitthvað klúðurslegt áklæði yfir þá. Mér fannst hún líka alltaf vera heldur of ömmuleg fyrir minn smekk og var alltaf áætlunin að breyta henni.

Hér sést vel yfir stofuna og borðstofuna með útsýnið inn í eldhús og að stigaganginum.

Sama sjónarhorn og frá myndinni að ofan. Þegar ég skoða þessar myndir finnst mér smá eins og það búi gamalt fólk á þessum stað en þannig var þessi stíll smávegis.

Hér sést inn í herbergið hennar Gabríelu sem er unglingurinn á heimilinu

Unglingaherbergið með húsgögnum. Það var með ólíkindum að það hafi komist King Size rúm inn í þetta litla herbergi.

Á baðherberginu var risastór Kína baðkarssturta með nuddi, útvarpi og fleiri flottheitum. Mikið rosalega þoldi ég ekki þessa sturtu. Fannst hún líkjast mest stóru geimskipi þarna inni, svo það endaði á að við tókum hana út og seldum á bland.is

Þvottahúsið var í kjallara, sem þýddi að ég þurfti að hlaupa niður um 3 hæðir til að þvo þvott af 6 manna fjölskyldu. Við ákváðum því að taka niður sturtuna og skápana í horninu. Þar sem skáparnir voru áður settum við þvottavél og þurrkara. Við keyptum svo frístandandi baðkar og flísalögðum á bakvið það með parketflísum.  Það voru engar flísar á bak við sturtuna, bara steyptur veggur, og redduðum við þessu á þennan hátt.

Hjónaherbergið fyrir

Hjónaherbergið eftir. Það voru risastórir skápar í herberginu. Það hafði verið tekið af herberginu til að stækka baðherbergið. Það gerði það að verkum að það við þurftum að setja hjónarúmið inn í skot sem myndaðist við þær breytingar. Annað okkar þurfti að klofa yfir hitt til að sofa fyrir innan. Við létum það samt aldrei trufla okkur og ákváðum bara að búa til himnasæng úr skotinu.

Hér sést betur skotið sem  rúmið fór inn í,  en við erum með rúm að stærð 200 cm x 203 cm

Hér sést betur hvernig við römmuðum rúmið inn með gardínum svo úr varð eins konar himnasæng. Mjög konungleg útkoma haha. Mér finnst reynar alltaf fallegt að hafa svona loftlista eins og sést í hverkunum.

Risastórir speglaskápar voru í hjónaherberginu. Þeir plötuðu augað og létu herbergið virka mun stærra. það er sniðug lausn fyrir lítil rými.

Forstofan eða innkoman uppi þegar komið var upp stigann. Allar innréttingarnar voru frá Kvikk en þær eru mjög góðar og tímalausar. Myndi alveg kaupa þannig aftur.

Mér finnst alveg ótrúlegt að skoða hvað við höfum breytt um stíl. Ég reyndar verð að viðurkenna að þessi rómantíski stíll sem ég var með þarna átti ekki alveg við mig og fannst mér hann svoldið tilheyra eldri kynslóð.

Ég er afar sátt við stílinn sem við erum með í húsinu okkar í dag, mér finnst hann stílhreinn og meira tímalaus. Einnig finnst mér hann líka unglegri og meira svona töff.  Ég er samt alveg viss, ef ég þekki mig rétt, að sá stíll mun eingöngu staldra við hjá okkur meðan hann er inn og í tísku . Um leið og hann fer að vera þreyttur, á ég alveg örugglega eftir að eltast við það nýjasta. En við skulum samt alveg halda því leyndu fyrir kallinum mínum svo hann fái ekki vægt áfall haha 😉

En ef þið hafið ekki séð hvernig heimilið mitt lítur út í dag, getið þið kíkt undir dálkinn heimili hér á blogginu og skoðað fjölda færsla um breytingar á húsinu okkar með myndum af heimilinu. Einnig getið þið followað mig á instagram undir @paz.is en þar er ég dugleg að setja inn myndir af heimilinu.

En þangað til næst

knús

María 

 

 

 

 

 

 

 

2 Comments Write a comment

Please add an author description.

2 Comments

  • Eva March 8, 2018

    Svo mikið af sniðugum lausnum hjá þér sem mér myndi aldrei detta í hug. Verð að muna að kíkja hingað þegar/ef ég þarf að gera upp íbúð í framtíðinni.

    • maria March 9, 2018

      æ kærar þakkir fyrir það og gaman að heyra <3

Leave a Reply

Pin It on Pinterest