Spænsk kjúklingakássa Fritada de pollo

Aðalréttir Kjúklingur Matur Spænskur matur

Þennan rétt lærði ég að elda í eldhúsinu í Lugros, litla fjallaþorpinu mínu á Spáni. Í dag býr föðursystir mín þar en hún heitir Paz, eins og föðuramma mín heitin, eða tita Paz eins og við segjum á Spáni (tita þýðir frænka).

Ég hef mest lært af titu Paz og þar næst ömmu að elda  spænskan mat og held ég að það sé alveg óhætt að segja að þær tvær séu bestu kokkar sem ég hef hitt, og því ekki amalegt að hafa lært af þeim.

Þessi kjúklingaréttur heitir á spænsku Fritada de pollo, sem í raun þýðir kjúklingapottréttur. Hann má einnig hafa kjúklingalausan, fyrir þá sem kjósa að borða ekki kjöt, en þá kallast hann Pisto.

Þessi réttur er mjög hollur og virkilega bragðmikill og góður. Uppistaðan í réttinum er grænmeti og kjúklingur. Hráefnin fá að njóta sín án þess að vera kæfð í kryddum og gefur það réttinum afar gott bragð.

Þessi uppskrift er fyrir 4-6 og í hann þarf

 • Bakka af kjúklingabringum eða úrbeinuðum lærum (mér finnst best að hafa 50/50) þá hálfan bakka af hvoru.
 • Græna Papriku.
 • 1-2 lauka.
 • 4-6 hvítlauskrif.
 • 1 kúrbít.
 • 1 dós niðursoðna maukaða tómata.
 • smá sykur eða Agave síróp.
 • tómatpúrru.
 • Ólivuolíu.
 • Salt og pipar

Athugið að þetta sem er á myndinni er Eggaldin en ekki Kúrbítur, passið að rugla því ekki saman 

Aðferð

 • Skerið allt grænmetið í smáa bita og kjúklinginn í gúllasbita. Ekki taka húðina af kúrbítnum. Ólivuolía sett á pönnuna, 1-2 cm lag á botninn eða c.s 1/2 d(munið að hún er mjög holl).

 • Byrjað er á að steikja laukinn og merja hvítlaukinn útí. Passa að hvítlaukurinn brenni ekki því þá gefur hann beiskt bragð. Best er að hafa lágan hita og láta laukanan meira soðna en steikna.
 • Þetta er steikt þar til það er orðið mjúkt og gyllt. Saltið létt yfir því það kemur í veg fyrir að laukurinn brenni.

 • Því næst er paprikan sett út á pönnuna og steikt þar til orðin mjúk og glansandi. Svo er kúrbítnum bætt við og allt saltað létt yfir aftur og piprað.

 • Þegar þetta er allt orðið mjúkt og fínt má kjúklingurinn fara hrár út í. Trúið mér hann verður miklu safameiri og bragðbetri heldur en ef hann er steiktur áður.
 • Hrærið öllu saman á pönnuna og leyfið kjúklingnum aðeins að taka á sig hvítan lit. Saltið aftur yfir eina umferð og piprið létt. Þegar þetta er komið þá setjum við að lokum niðursoðnu tómatana, 2-3 msk af tómatpúrru og 1-3 tsk af sykri, eða annari sætu, til að gefa tómatbragðinu meiri dýpt.

 • Þessu er svo öllu hrært varlega saman og látið byrja að sjóða. Mikilvægt er að passa að rétturinn brenni ekki við botninn á pönnunni og því er best að leyfa honum að malla á hægum hita en passa að missa ekki niður suðuna.
 • Rétturinn er tilbúinn þegar tómatsósan hefur fengið á sig djúprauðan lit og allt vatn er að mestu leyti gufað upp. Þegar réturinn er sem næst því að vera tilbúinn þá er gott að smakka á honum og salta eftir þörfum ef vantar. Því lengur sem rétturinn fær að sjóða því betra. Mæli þó með að láta hann aldrei sjóða styttra en 45 mínútur.

Það er algjört möst að bera þennan rétt fram með snittubrauði til að dýfa út í sósuna. Sjá hér uppskrift að heimabökuðu snittubrauði. Ekki skemmir svo fyrir að hafa með grillaðar papríkur á spænskan máta og heimagerðan hvítlauksrjómaost. Tek það fram að það er mjög auðvelt að gera allt þetta.

Ég mæli hiklaust með að þið prófið þennan rétt því hann er mjög einfaldur að gera og bragðast alveg sjúklega vel.

Verði ykkur að góðu.

María 

6 Comments Write a comment

Please add an author description.

6 Comments

 • Rakel Eyja April 17, 2017

  Mmm girnilegt ,ætla að prófa að gera þennan!

  • maria April 18, 2017

   já þér finnst hann örugglega góður 🙂

 • Þórunn April 18, 2018

  Var með þennan rétt í kvöld rosalega góður mæli hiklaust með honum.

  • maria April 22, 2018

   Æ en æðislegt að heyra 🙂 Hann er einmitt einn af mínum uppáhalds

 • Laufey Þórarinsdóttir September 14, 2018

  María hefur þú prufað að gera þetta án kúrbíts ☺️ Hvað myndir þú nota í staðinn við erum ekki hrifin af kúrbít á heimilinu ?

  • maria September 15, 2018

   Hæ elsku Laufey

   nei hef ekki prófað án kúrbíts en ég held að það sé alveg óhætt að sleppa honum alveg og setja bara allt hitt sem á að vera 🙂

   Myndi bara prófa að sleppa honum

Leave a Reply

Pin It on Pinterest