Potaje spænsk kjötsúpa

höf: maria

Þar sem við erum alveg að detta í haustið er ég byrjuð að hugsa um uppskriftir sem geta iljað manni í veðrabreytingunum.

Potaje (borið fram Potahe), eða spænsk kjötsúpa með kartöflum og baunum, er ein af mínum uppáhalds uppskriftum frá Spáni. Ég veit fátt betra en að borða heita súpu sem vermir manni á köldum haustdögum.

Á Spáni hefur hún gjarnan verið kölluð verkamannasúpa, eða súpa fátæka mannsins, því  hér áður fyrr var sett í hana í raun hvað sem var til í ísskápnum.

Morcilla  (spænsk blóðmör), chorizo, baunir, afgangskjöt og grænmeti var iðulega notað auk kartöflur og linsubaunir.

Í þessari uppskrift geri ég Potaje eins og ég þekki hann best úr eldhúsinu hjá Ömmu og Titu Paz á Spáni.  Potaje er ekki bara borðaður á köldum dögum á Spáni heldur allan ársins hring, líka í hitanum.  

Þessi uppskrift er frekar stór, en hún dugar alveg 6 -12 manns. Ég hins vegar elska að gera svona stóran skammt, því súpan verður enn betri daginn eftir og því geri ég hana fyrir tvær kvöldmáltíðir í einu.

Ef þið viljið þá getið þið bætt við uppskriftina chorizo pylsu, en hún gefur svaka gott bragð. Ég reyndar sleppi henni alveg svona hversdags og held mig bara við góða grunninn sem Tita Paz kenndi mér að gera.

Þessa súpu er ofureinfalt að gera og krefst hún ekki mikils undibúnings né vesens, svo hún er alveg að mínu skapi. Eini gallinn við sumar af þessum spænsku uppskriftum sem ég gef, er að í þær þarf að setja Colorante.

Colorante er gulur litur í duftformi sem gerir matinn gulan eins og paella til dæmis. Ég viðurkenni það alveg að liturinn gerir matinn girnilegri.

Ef þið eruð á leið til Spánar mæli ég með því að þið nælið ykkur í Colorante í næsta super markaði. Honum er samt alveg óhætt að sleppa enda alveg bragðlaus, hægt er að nota saffran í stað hans.

Potaje spænsk kjötsúpa

Þar sem við erum alveg að detta í haustið er ég byrjuð að hugsa um uppskriftir sem geta iljað manni í veðrabreytingunum.… Matur Potaje spænsk kjötsúpa European Prenta
Serves: 6+
Nutrition facts: 200 calories 20 grams fat

Hráefni

  • Ólífuolía
  • 1 kg úrbeinaður grísahnakki eða annað grísakjöt (gúllas t.d). Ef þið viljið ekki nota grís þá má nota kjúkling í staðinn.
  • 3 stórar bökunarkartöflur
  • 2 grænar papríkur
  • 2 gulir laukar
  • 4-6 hvítlauksrif
  • 150-200 gr grænar strengjabaunir (Haricods, til frosnar og ferskar í Bónus, má hvort sem er)
  • Stórt glas af grænum linsubaunum (þurfa ekki að vera útbleyttar)
  • 2 lítrar af vatni
  • 2 svínasoðsteningar
  • salt og pipar
  • Colorante (gulur litur sem er keyptur á Spáni) hægt er að nota saffran eða smá turmerik til að fá gulan lit á súpuna í staðinn.

Aðferð

  1. Afhýðið laukana, takið hýðið af hvítlauksgeirunum og skerið paprikur í 6 ræmur langsum.
  2. Skrælið bökunarkartöflurnar og skerið í ágætisbita, ekki pínulitla heldur frekar stóra.
  3. Skerið næst laukana í fjóra parta langsum og berjið aðeins á hvítlaukskrifin.
  4. Setjið olíu í stóran pott þannig hún hylji botninn á pottinum.
  5. Setjið svo laukinn, hvítlaukinn og paprikuna út á heita olíuna og saltið vel og piprið.
  6. Leyfið grænmetinu að steikjast vel við háan hita og passið að hræra vel í því á meðan. Ilmurinn verður dásamlegur ég lofa.
  7. Þegar grænmetið er byrjað að mýkjast setjið þá kjötið, sem er skorið í gúllasbita, út í pottinn með grænmetinu og leyfið því að taka á sig gráan lit. Þarf ekki að steikjast þannig að það verði brúnað. Saltið aftur vel yfir kjötið og piprið.
  8. Gott er að vera búin að sjóða vatn í hraðsuðukönnu og því svo  hellt (2 lítrum) út á kjötið og tveir svínasoðsteningar með.
  9. Næst eru svo kartöflurnar, linsubaunirnar og strengjabaunirnar settar út á og suðan látin koma upp.
  10. Smakkið súpuna til og saltið eftir smekk. Ég vil hafa hana vel salta en þannig finnst mér hún langbest og bragðmest.
  11. Látið hana sjóða við vægan hita undir pottloki í minnst 30 mínútur.

Punktar

Best er að bera hana fram með stökku Baguette brauði sem gott er að dýfa í heita súpuna. Uppskrift af heimagerðu Baguette má finna hér. 

Ég held ég geti alveg lofað því að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum með þessa dásemdarsúpu.

verði ykkur að góðu

María 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

Skrifaðu athugasemd

The maximum upload file size: 4 MB. You can upload: image, spreadsheet, interactive, text, archive, code, other. Links to YouTube, Facebook, Twitter and other services inserted in the comment text will be automatically embedded. Drop file here