Dásamlegur fiskréttur sem engan svíkur

höf: maria

Ég elska góða fiskrétti. Hins vegar verð ég að segja að ég verð oftast fyrir vonbrigðum með þá fiskrétti sem ég hef verið að kaupa út í fiskbúð.

Eingöngu því sósan sem virkar svo girnileg á réttinum, verður oftast að vatni þegar fiskurinn er til úr ofninum. Það gerist iðulega hjá mér sama hvernig og á hve miklum eða litlum hita ég hef eldað réttinn.

Eitt árið tók ég á það ráð að prófa að taka hráefni úr ísskápnum sem mér fannst passa vel saman og búa til fiskrétt úr því. Sveppir og skinkumyrja….auðvitað passar það vel saman.

Úr varð þessi lagskipti fiskréttur sem hefur fylgt mér alla tíð síðan og árin eru orðin þó nokkuð mörg síðan ég fann upp á honum.

Okkur hérna heima finnst hann alltaf jafngóður. Ekki skemmir svo fyrir að hann er ofurauðveldur í framkvæmd. Það eina sem þarf að hugsa fyrir er að sjóða grjónin nógu snemma áður en á að henda honum í ofninn

Restin er eins og að smyrja brauð nánast. Þennan er best að bera fram með fersku salati og hvítlauksbrauði. Best er að leyfa honum að standa aðeins á borði, í eins og 10 mínútur, meðan mesti rakinn og hitinn er að rjúka úr honum.

Hvað er hægt að biðja um meira en einfaldan og svaka góðan fiskrétt ? Sem er einnig hollur og pakkaður af próteini. Namm ekki láta þennan fara fram hjá ykkur.

Dásamlegur fiskréttur sem engan svíkur

Ég elska góða fiskrétti. Hins vegar verð ég að segja að ég verð oftast fyrir vonbrigðum með þá fiskrétti sem ég hef… Aðalréttir Dásamlegur fiskréttur sem engan svíkur European Prenta
Serves: 4-6
Nutrition facts: 200 calories 20 grams fat

Hráefni

 • 1 miðlungsstórt glas híðishrísgrjón stutt (eða þau hrísgrjón sem þið viljið nota) á móti 2 glösum af vatni til suðu
 • 700 gr Ýsa eða Þorskur
 • 100 gr niðurskornir sveppir
 • 1 box af skinkumyrju
 • 1 stór dós kotasæla (500 gr)
 • Rifinn ostur
 • Papríkuduft
 • salt og pipar

Aðferð

 1. Byrjið á að sjóða grjónin eftir leiðbeiningum (munið að salta þau) og hitið ofninn á 200 C°
 2. Skerið fiskinn niður í sneiðar, þversum eftir flakinu, og leggjið á eldhúspappír til að ná sem mestum raka úr því.
 3. Skerið sveppina í þunnar sneiðar
 4. Þegar grjónin eru til eru þau sett í botninn á eldfasta mótinu
 5. Næst er svo fiskinum raðað í eina röð ofan á og saltað og piprað
 6. Svo er skinkumyrjunni smurt á, jafnt yfir allan fiskinn. Gott að vera búin að hræra hana aðeins upp áður og jafnvel hita örlítið í örbylgju svo auðveldara sé að smyrja henni
 7. Raðið svo sveppunum jafnt ofan á allt
 8. Og smyrjið svo næst kotasælunni jafnt yfir sveppina
 9. Að lokum er svo rifnum osti stráð yfir og papríkudufti sáldrað létt yfir ostinn
 10. Bakist við 200 C°hita í 35 mínútur

Punktar

Meðan rétturinn er sjóðandi heitur myndast eins og vatnskennd sósa á botninn en alls ekki skilja hana eftir. Dreitlið sósunni yfir fiskinn því þar er mesta bragðið í réttinum. Sósan verður svo þykkari eftir því sem rétturinn kólnar.

Ég vona að þið prufið þennan rétt því ég get alveg lofað að hann er svaka góður og krakkarnir elska hann líka !!

Verði ykkur að góðu

María 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

Skrifaðu athugasemd