Hugmynd að einfaldri og fljótgerðri afmælisköku

höf: maria

Mér finnst mjög gaman að halda upp á barnaafmæli.  Ég man þegar Gabríela elsta dóttir mín var lítil, þá var ég oft byrjuð að plana afmælið hennar í samráði við hana 2 mánuðum fyrir afmælið.

Nú hafa bæst við 3 lítil kríli, og því eru afmælin hér á bæ oft á ári. Það má segja að Mikael litli sé hvað óheppnastur með afmælisdag, hvað varðar tímasetningu. Hann á afmæli í Ágúst, sem er frábær mánuður, en því miður eru frí í skólum og margir úr landi á þessum tíma.

Í fyrra héldum við upp á stóra og flotta afmælisveislu fyrir hann og slógu veitingarnar vægast sagt í gegn. Sérstaklega konfektið og allt brauðmetið. Hér getið þið séð færslu úr því afmæli með öllum uppskriftunum úr þeirri veislu.

Svo dásamlegir vinir 

Í ár hins vegar vildi Mikael bara bjóða tveimur bestu vinum sínum, og var alveg harður á því. Ég hugsaði með mér því ekki ???

Af hverju alltaf að halda einhver risa afmæli sem stundum eru þannig að það er svo mikil læti að krakkarnir varla njóta sín, hvað þá afmælisbarnið. Mér fannst þetta bara sniðug hugmynd og lét hana eftir honum. Auk vinana tveggja komu örfáir fullorðnir gestir.

Hann fékk að ráða öllu sjálfur og valdi að hafa grillaðar pylsur og svo Batman köku í eftirrétt og íspinna.

Þvílíkt sem þetta var einfalt. Ég viðurkenni það alveg, að eftir að vera búin að vera með alla krakkana heima í sumarfríi í fjórar vikur, var ekki mikil orka eftir til að standa og baka og þrifa allt hátt og lágt, eins og venjan hefur verið.

Ég ákvað að fara alla leið í einfaldleikanum og bakaði ekki einu sinni kökuna heldur keypti tilbúnar Bónus skúffukökur sem ég setti saman og leyfði öllum krökkunum mínum 4 að skreyta með mér.

Vá hvað það var gaman, ekkert stress og allir með. Afmælisbarninu var nákvæmlega sama hvort ég hafi bakað botnana eða ekki. Það eina sem skipti máli var að við skreyttum kökuna og útkoman var að hans mati frábær.

Kakan var mjög góð með þeyttum rjóma til hliðar 

Og afmælið var eitt það besta sem ég hef haldið því allir voru stresslausir, engin læti bara gleði. Afmælisbarnið naut sín með bestu vinunum að opna pakka og leika með allt fína dótið sem hann fékk.

Eftir kökuna var farið að hoppa á trampolíninu með ís í hendi og svo enduðu allir á að vilja horfa á eina mynd með popp í skál, og það fannst þeim sport.

Mér fannst þetta æði og mæli svo með því að halda svona afmæli annað hvert ár fyrir hvert barn, og svo stærri veislu eins og annað hvert ár.

Svo glaður með daginn sinn og eins og sést á svipnum á honum fannst honum kakan afar girnileg. 

Í kökuna þarf

  • Þrjár Bónus skúffukökur í álformi
  • 12-14 Kit Kat stykki
  • Betty Crocker súkkulaðikrem
  • M&M

Aðferð

  • Byrjið á að taka kökurnar úr álforminu og koma fyrsta botninum fyrir á þeim disk sem á að bera hana fram á.
  • Smyrjið aðeins yfir kremið á botninum áður en þið setjið næsta botn ofan á, til að mýkja það aðeins upp og fá meiri festu.
  • Endurtakið og setjið þriðja botninn á.
  • Hrærið næst vel upp í Betty kreminu og smyrjið á endana í kringum alla kökuna vel. Sléttið vel úr kreminu á allri kökunni.
  • Takið næst Kit Kat stykkinn í heilu lagi (ekki brjóta fingurnar í sundur) og raðið í kringum kökuna með því að þrýsta létt á svo það límist við kremið. Taka þarf samt stykkinn í sundur á hornunum til að ná beygjunni.
  • Síðasta skrefið er svo að skreyta ofan á. Við notuðumst við Batman mynd en auðvitað má gera það sem hugurinn girnist.

Hér set ég nokkrar myndir með af hugmyndum sem þið gætuð notað til skreytingar sem ég fann á google.

Eins og sjá má eru möguleikarnir endalausir og allir mjög einfaldir. Einnig er hægt að kaupa tilbúnar sykurmassamyndir til að setja ofan á og er það virkilega sniðugt líka.

Vona þetta hafi komið ykkur að gagni

María 

 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

Skrifaðu athugasemd