Þessi aspassúpa klikkar seint, en hún er alveg ofboðslega góð. Súpan er silkimjúk og rjómakennd og passar því vel sem forréttarsúpa í hvaða matarboði sem er. Á jólum, páskum eða bara í fínu matarboði.
Þetta er ekta sparisúpa og ekki skemmir fyrir að hún er afar einföld, og oft er jafnvel betra að gera hana daginn áður og geyma yfir nótt í ísskáp. Þá fá innihaldsefnin að blanda sér vel saman og mynda djúpt og gott bragð.
Að setja síðan litla doppu af þeyttum rjóma ofan í súpuna þegar hún er borin fram setur punktinn yfir i-ið. Gott er að bera fram með henni dásamlegt heimabakað Baguette brauð en uppskrift af því má finna hér.
Hráefni
- 90 gr smjör
- 1 ½ dl hveiti
- 430 gr hvítur aspas í dós (1 dós) + safinn
- 330 gr grænn aspas í glerkrukku + safinn
- 1 tsk borðsalt
- Ögn svartur pipar
- Hvítur pipar á hnífsoddi
- 1 grænmetistengingur
- 1 ½ sveppasoðsteningur
- 6 dl nýmjólk
- 5 dl soðið vatn
- 1 ½ msk sykur
- 2 ½ dl rjómi
- 1/3 tsk þurrkað timian
Aðferð
- Bræðið smjörið í potti og bætið svo hveitinu út í þegar það er alveg bráðið
- Hrærið stöðugt í og leyfið að malla í alla vega 1 mínútu til að losna við hveitibragðið
- Opnið aspasdósirnar og hellið safanum úr þeim út í pottin (ekki aspasnum sjálfum) og hrærið mjög vel meðan þykknar
- Hellið næst soðnu vatni út í smjörbolluna í pottinum og hrærið vel í
- Lækkið undir pottinum og setjið soðteningana út í og hrærið
- Saltið og piprið og bætið út í timian og sykri
- Bætið næst nýmjólk og rjóma út í súpuna og látið koma að suðu og hrærið vel
- Leyfið nú að malla í eins og 10 mínútur við vægan hita og hrærið í af og til svo brenni ekki við botninn
- Skerið aspasinn í smærri bita og bætið honum í að lokum. Leyfið að malla í eins og alla vega 30 mínútur, eða meira, við vægan hita og hrærið í af og til. Því lengur því betra og oft er best að gera súpuna daginn áður. Þannig er hún best.
- Fallegt er að setja smá rjómadoppu ofan á þegar hún er borin fram.
Ég get alveg lofað að þið verðið ekki svikin af þessari dásamlegu súpu.
Verði ykkur að góðu
María