Eins og áður hefur komið fram er ég hálfur Spánverji. Ég er ættuð frá litlu þorpi sem heitir Lugros og er í Sierra Nevada fjallgarðinum í Granadahéraði. Granada borg er oft kölluð borg Tapasréttana á Spáni.
Granada er eflaust eina svæði Spánar sem bera enn fram tapas rétti frítt með drykkjum óumbeðið. Flest annars staðar á Spáni þarf að panta tapas réttina sér og þá þarf að greiða fyrir þá sérstaklega.
Granadaborg
Ég held fast í spænskar hefðir Á það sérstaklega við um þegar kemur að mat. Ég reyni stundum að breyta hefðbundnum spænskum uppskriftum, sem ég veit að eru kannski of framandi fyrir Íslendinga, og setja smá íslenskt blóð í þær.
Það er því óhætt að segja að spænski maturinn, sem ég býð uppá, sé hálf íslenskur og hálf spænskur líkt og ég sjálf. Þó ekki alltaf, oft reyni ég líka að hafa uppskriftirnar sem mest upprunalegar.
Tapas er í raun föst fæða, í litlum einingum sem gott er að narta í með drykkjum. Það er oft ekkert flóknara en bara ólífur, ostbitar, ýmiskonar pylsur, niðurskornir ávextir eða hráskinka.
Tapas er algjörlega upprunið frá Spáni og segir þjóðsagan að Alfonso konungur sem var uppi á 19. öld hafi farið á veitingastað í Andalusíu og beðið um hvítvínsglas. Hann hafi setið við opinn glugga og þá hafi komið inn sandstormur.
Þjónninn brá á það ráð að setja hráskinkusneið yfir glas konungsins meðan verið væri að loka glugganum. Hafi þá Alfonso spurt hvers vegna hann hafi gert þetta. Varð þjónninn vandræðalegur og afsakaði sig og sagðist hafa verið að tapar glasið eða hylja glasið svo það myndi ekki fara sandur ofan í vínið.
Kónginum fannst þetta snilldarráð, át hráskinkuna, drakk vínið og bað um annað vínglas með hráskinku ofan á fyrir sig og alla hirðina
Sannleikurinn er hins vegar sá að tapas er tilkomið vegna bændastéttarinnar á suður Spáni, sem vann langa og strembna daga í hitanum á ökrunum eða í kuldanum á veturnar.
Til þess að hafa orku út daginn og þola kuldan á veturnar höfðu þeir með sér vín til að ilja sér með og litla matarbita til að borða með víninu. Á sumrin neyttu þeir oftast Gazpacho, sem er fersk og góð tómatsúpa, í hitanum.
Með höfðu þeir t.d. hráskinku, ólífur eða annað smámeti sem þeir settu ofan á glasið eða flöskuna til að verjast skordýrum og til að narta í til að halda út til hádegis. Að tapar á spænsku þýðir að hylja og er nafnið á tapas dregið af því..
En nú skulum við demba okkur í nokkrar góðar uppskriftir af Tapasréttum sem eru í uppáhaldi hjá mér. Sumar af þessum uppskriftum eru komnar frá sjálfri mér, aðrar eru hefðbundnar spænskar.
Sangria
Ég ætla að byrja á að kenna ykkur að gera Sangria. Sangria er áfengur og svalandi spænskur drykkur sem margir þekkja.
Þetta er eiginlega hálfgerð bolla og eru til mörg afbrigði af henni þó hin týpíska spænska Sangria er oftast gerð úr ferskjum, eplum, rauðvíni og sætu sódavatni sem á Spáni kallast Casiosa.
Þessi uppskrift er sem næst því að vera eins hefðbundin og hægt er, fyrir utan að ég set annarskonar gos í hana en þekkist á Spáni. Við það verður hún sætari og enn ferskari en áður. Ef þið viljið hafa hana óáfenga þá er hægt að nota óáfengt rauðvín úr matvöruverlsun, eða jafnvel berjasaft.
Í Sangríu þarf
- 1 rauðvínsflösku af þurru víni (þarf ekki að vera dýrt eða fancy)
- 2 ferskjur með hýði (má líka nota úr dós ef ekki til ferskar)
- 1 epli með hýði
- 1 appelsínu með berki
- 2-3 msk sykur eða agave síróp eða aðra sætu
- 250 ml-500 ml af Sprite eða appelsíni eða Scweppes með engiferbragði.
- Ef vill er hægt að setja smá appelsínulíkjör ofan í, Bacardí eða annan ávaxtalíkjör að eigin vali.
Aðferð
- Þvoið ávextina vel. Takið kjarna og steina úr ávöxtunum og skerið í ferninga.
- Setjið í stóra könnu eða skál. Stráið næst sykri eða þeirri sætu sem þið notið yfir og hrærið létt í.
- Næst er rauðvíninu hellt ofan í og síðast því gosi sem þið kjósið að nota af því sem er ofantalið. Smakkið til og bætið í eða dragið úr sætu eftir smekk.
- Geymið í kæli í 2 klst og berið svo fram ískalt með klaka.
Spænskar Tapas snittur með hráskinku og chorizo
(Pan con tomate, jamón y chorizo)
Næsti réttur er spænskar Tapassnittur sem mér eiginlega datt í hug að gera út frá spænsku Bocadillo og pan con tomate. Þetta er svo svakalega einfalt en svoooo bragðgott að það eru ekki til orð yfir það.
Mér finnst alltaf best að nota heimabakaða snittubrauðið með þessu því það er smá sætt á bragðið sem vegur fullkomlega upp á móti seltunni í álegginu og sýrunni í tómötunum. Hér má finna uppskrift af brauðinu.
Í snitturnar þarf:
- Snittubrauð að eigin vali eða baka sjálfur, uppskrift af brauði hér
- Vel þroskaða tómata þurfa ekki að vera dýrasta tegund bara vel þroskaðir.
- Vel græna extra virgin Ólifuólía
- Salt
- Spænska Hráskinku
- Chorizo
- Klettasalat og Basilika til skreytingar ef vill (má sleppa)
Aðferð
- Skerið snittubrauðið niður í þunnar sneiðar c.a 1 ½ cm þykkar
- Skerið næst tómata í tvennt og smyrjið sneiðarnar með því að kreista innihaldi tómatanna yfir brauðið og nudda tómatinum á brauðið til að fá sem mest af tómatinnihaldinu. (tómatinum sjálfum er svo hent)
- Hellið ögn af extra virgin ólífuolíu yfir og saltið svo mjög létt ofan á.
- Svo er hráskinka eða chorizo sett ofan á og skreytt með klettasalati á hráskinku Tapasið og basiliku á chorizo Tapasið.
Döðlur klæddar hráskinku fylltar með heimagerðum hvítlauksosti
(Datiles en jamon rellenos de queso casero de ajo)
Þessi réttur er einhverskonar samsuð sem ég fann sjálf upp á og slær eiginlega alltaf í gegn hjá hvítlauksunnendum. Þar sem ég er vön að gera heimagerðan hvítlauksost þá datt mér þetta einu sinni í hug um jólin og notuðum við sem forrétt. Svo þróaðist þetta út í að vera meira svona fingramatur og tapas hjá mér.
Í þennan rétt þarf
- Heimagerðan hvítlauksrjómaost sem er alveg möstið og aðalgrunnurinn í þessum rétti. Uppskriftina af honum má finna hér
- Döðlur, mér finnst Medjool eða Heima döðlurnar úr kælinum sem eru í kassa langbestar.
- Góða spænska hráskinku
Aðferð
- Skerið döðluna í tvennt án þess að taka hana alveg í sundur og takið steininn úr.
- Setjið svo 1/2 -1 tsk af hvítlauksrjómaosti á milli og lokið eins og samloku.
- Vefjið svo 1/3- ½ sneið af hráskinku utan um.
- Ef þið viljið hafa minni bita klippið þá tilbúna döðlu í tvennt.
Melónuboltar með hráskinku
(Melon con jamon)
Á Spáni er þetta kallað La comida de los principes eða prinsafæða. Ég verð að viðurkenna að hvers vegna er ég ekki viss eða eiginlega hef ekki hugmynd um. Veit þó að þetta er frábær samsetning á söltu og sætu auk þess að melónan gefur mjög svalandi bragð.
Varist að gera þetta ekki löngu áður en þess er neytt því melónan er mjög fljót að bleyta vel upp í hráskinkunni sem verður slabbí ef hún er of lengi utan um melónuna. Gerið þetta því helst bara um leið og þið eruð að borða þetta með því að skera melónur í sneiðar og hafa hráskinku með á borðinu.
Ef þið viljið hafa þetta meira fansí er sniðugt að útfæra þetta eins og ég gerði en aðeins rétt áður en það er borið fram.
Í þetta tapas þarf
- 1 Hunangsmelónu eða kantlópumelónu
- 1-2 bréf hráskinku
Aðferð
- Skerið melónuna með melónuskeið sem mótar litlar kúlur.
- Ef þið eigið ekki þannig skerið þá melónuna í 5 cm þykka sneiðar og hverja sneið í 2-3 parta.
- Skerið svo eina sneið af hráskinku í 3 parta og vefjið utan um og neytið strax eða fljótlega !!
Fylltar smápaprikur með spænskri ommelettu
(Pimiento frito relleno de tortilla Española)
Þessa uppskift fékk ég frá titu Paz föðusystir minni þegar ég hringdi í hana um daginn til að fá hugmyndir af fleiri Tapas réttum. Hún sagði mér að þetta sé farið að njóta mikilla vinsælla á heimabarnum hennar og ákvað ég að prófa, og bragðaðist þetta rosa vel.
Það hefur alltaf verið þekkt að borða spænska ommelettu og grillaðar paprikur saman á Spáni, en hér er tveimur réttum fléttað saman í einn.
Í réttin þarf
- ½-1 bökunarkartöflu
- ½ lauk
- Salt
- 5 egg
- Nokkrar smápaprikur, ég fékk heilan poka af þannig í Costco um daginn og voru þær rosa góðar
Aðferð
- Skerið lauk og kartöflur niður í litla þunna bita og saltið. Steikið svo í olíu þar til mýkist.
- Hrærið eggin saman og hellið yfir laukinn og kartöflurnar og steikið aðeins þar til eggin verða þéttari og bindast saman. (Má alveg brotna eða gera hræru þar sem þetta er bara fylling).
- Eggin þurfa ekki að vera alveg tilbúin því þau eiga eftir að eldast meira inn í papríkunum.
- Takið rassinn úr papríkunum og fyllið þær svo með ommelettu, setjið fylltu paprikurnar svo á sjóðheita grillpönnu með olíu, eða á grillið og grillið þar til paprikan verður mjúk, sæt og smá brennd á húðinni.
Churros með súkkulaði
(Churros con chocolate)
Churros er mjög þekkt á Spáni og er það oft borðað sem morgunmatur. Á hverjum laugardagsmorgni er markaður í Guadix sem er stór bær nálægt þorpinu mínu Lugros. Þá hefur það verið hefð hjá okkur að fara fyrst á Churreria stað og fá okkur Churros með súkkulaði.
Mér hefur oft fundist súkkulaðið úti mega vera sætara en ég er líka hrikalega mikill sælgætisgrís svo ef þið viljið hafa það minna sætt ráðlegg ég ykkur að minnka aðeins sykurmagnið í uppskriftinni, en ég hef aðeins aukið við það.
Í uppskriftina af heita súkkulaðinu þarf
Churrosúkkulaði
- 150-200 gr dökkt súkkulaði
- 1 líter mjólk
- 1 kúguð msk hveiti
- ½ – 1 dl köld mjólk
- ½ tsk salt
- 2-3 msk sykur
- Smá vanilludropar eða fersk vanilla
- Hrærið saman í potti 1 líter af mjólk og súkkulaði, setjið salt, sykur og vanillu út í og hrærið reglulega í til að það brenni ekki.
- Þegar suðan kemur upp setjið þá hveitið og köldu mjólkina í hristiglas og hristið saman.
- Hellið svo smátt og smátt útí sjóðandi súkkulaðið þar til þið fáið þá þykkt sem þið viljið en þetta á að líkjast kakósúpu.
- Sjóðið í 10-15 mínútur á vægum hita og hrærið reglulega í pottinum á meðan.
- Borið fram með churrosinu en súkkulaðið er notað eins og sósa til að dýfa churroinu ofan í.
Í uppskriftina af Churros þarf
- 1 -2 vatsnglös
- 1-2 glös af hveiti
- ½ tsk lyftiduft
- ¼ tsk matarsódi
- ½ -1 tsk salt
- 1 líter sólblómaolía
Athugið að það á að nota jafnmikið af vatni og hveiti. 1 glas hveiti=1 vatnsglas.
Aðferð
- Hrærið saman öllum þurrefnum í skál og setjið vatnið í pott.
- Þegar vatnið byrjar að sjóða, slökkvið þá undir og hellið öllum þurrefnunum í einu lagi út í pottinn og byrjið strax að hræra þar til blandan verður kekkjalaust.
- Ef blandan er mjög stíf bætið þá smátt og smátt af vatni ofan í þar til auðveldara er að hræra hana en hún á að vera frekar þétt í sér.
- Hitið svo olíuna í potti.
- Setjið churroblönduna í rjómasprautpoka með frekar breiðan stjörnustút (gott að nota samskonar stút og gert er rósakrem á köku) og sprautið á smjörpappír í þeirri lengd sem þið viljið.
- Klippið svo smjörpappann í kringum hvert churro og setjið ofan í olíuna með pappanum á.
- Setjið sirka 3 churro í einu út í olíuna. Takið pappann burt um leið og hann losnar með töngum.
- Steikið þar til verður gullinbrúnt og berið fram með heitu spænsku Churrosúkkulaði.
Þessar uppskriftir eru allar mjög einfaldar og bragðgóðar, og gott er að gera þær allar saman ef þið viljið hafa nokkrar tegundir af Tapas. Svo má líka auðvitað bara gera eina og eina sér en Churros er t.d. mjög gott í kaffitíma eða má einnig nota með í brunch ef þið viljið tilbreytingu þar.
Fylltu döðlunum mæli ég sérstaklega með en þær slá alltaf í gegn þegar ég geri þær. Ekki hika við að prófa þetta því þessar uppskriftir eru eitthvað sem allir ættu að geta gert.
Verði ykkur að góðu, eða eins og sagt er á Spáni Buen Provecho
knús, un abrazo
María