Innihurðirnar málaðar

höf: maria

Þvílík breyting sem það var þegar við máluðum hjá okkur innihurðirnar. Við höfðum einhvernvegin alltaf verið að fresta því að mála þær því við héldum að það væri svo rosalega mikið mál, og vorum eitthvað hálfkvíðin fyrir því.

Þegar við keyptum húsið voru hurðinar mjög dökkar, upplitaðar og með ljótum húnum. Samt fannst mér alltaf hurðirnar sjálfar mjög fallegar og vissi að þær yrðu æðislega flottar hvítar.

Svona litu hurðirnar út upprunalega og húnarnir 

Í mars s.l. létum við loksins slag standa og vá vá vá hvað ég sé ekki eftir einni einustu mínútu sem þetta tók né krónu. Húsið bara algjörlega breyttist við að hurðirnar yrðu hvítar, allt birti upp og varð svo mikið mikið fallegra.

Vissulega var þetta mikil vinna en ekkert þannig að maður væri bara að bugast. Engan veginn…þetta var kannski ekki alveg það skemmtilegasta í heimi en undirbúningurinn er það sem mér fannst vera leiðilegast.

Málningarvinnan sjálf var ekkert leiðinleg en hún er mikið nákvæmnis og þolinmæðisverk. Ég ætla að fara yfir það skref fyrir skref hvað þarf að gera til að lakka hurðir. Hjá mér eru svokallaðar fulningahurðir, en það eru hurðir með svona ramma inni í og listum. Mér finnst þær stórglæsilegar og setja þær mikinn svip hérna inni.

Á hurðunum voru svoldið sérstakir hurðarhúnar sem minntu mig helst á gamla útidyrahúna. Mér fannst þeir alveg hræðilega ljótir fyrst og ætlaði að henda þeim. Þegar ég sá hvað kostaði að kaupa nýja húna, auk þess sem það var mikið vesen að festa þá á, ákváðum við að prufa að spreyja húnana sem voru á svarta. Þvílík breyting og ég er ekkert smá ánægð með þá. Þeir fá svo sannarlega að vera áfram og ekki kostaði þessi breyting nú mikið.

En nú skulum við snúa okkur að hurðunum.

Það sem þarf að hafa við hendina er:

  • Fituleysandi sápa
  • Tuskur
  • Sandpappír
  • Akrýlgrunnur
  • Akrýllakk
  • Góð fata eða bakki undir málninguna (fæst í málningarverslun)
  • Lakkpensill
  • Lakkrúlla
  • Málningateip
  • Blauta tusku til að þurrka ef slettist eða klínist
  • Dagblöð eða plast á gólfin

Það sem er mjög mikilvægt að gera er að byrja á að pússa hurðir og karma ef þess þarf. Ef það er mikið lakk eða glans á hurðum þá verðið þið að pússa létt yfir til að rispa yfirborðið svo það náist grip fyrir grunninn. Ég er ekki að tala um að þið eigið að ná öllu lakki af og pússa niður í viðinn. Alls ekki gera það ! Það þarf í raun bara  að rispa yfirborðið og ekkert meira en það. Við slepptum því reyndar að pússa hjá okkur hurðirnar því viðurinn var orðin mjög matttur og opinn og því fannst okkur það vera óþarfi.

Eftir að það er búið að pússa þarf að taka allt ryk vel af og passa að það sé ekkert eftir. Best er að gera það með litlum kústi. Næst er svo að fituhreinsa hurðir og karma. Ég gerði það með sjóðheitu vatni og uppþvottalög. Fór svo yfir allt með heitu sápulausu vatni.

Svo þarf að að teipa allt sem á ekki að lakka eins og lás og veggi en við t.d. máluðum lamirnar líka hvítar og kom það afar vel út. Svo þarf að taka hurðarhúna af hurðunum.

Hér er búið að teipa allt sem ekki á að mála en við t.d. máluðum lamir og festingar á okkar hurðum. Svo er að byrja að mála karmana á undan öllu öðru

Eftir undirbúningsvinnuna er fyrsta skrefið að grunna allt mjög vel. Fyrst á að grunna karmana og svo hurðirnar eða mér finnst það alla vega betra 🙂 Ég grunnaði tvær umferðir yfir allt saman. Mjög mikilvægt er að grunnurinn fái að þorna allan þann tíma sem stendur á fötunni sem þið notið, til að herðing eigi sér stað og allur raki sé gufaður upp úr grunninum. Ekki reyna að stytta ykkur leið og hunsa tímann því það kemur bara í bakið á ykkur og miklu meiri líkur eru á flögnun eða að allt hlaupi í kekki ef þið málið og snemma aftur yfir.

Inn í ramma notaði ég góðan lakkpensil en á alla slétta fleti nota ég sérstaka lakkrúllu sem fæst hjá Flugger og Bauhaus

Þegar búið er að grunna karmana byrjar maður á hurðunum. Fyrst málaði ég með pensli inn í alls staðar þar sem rúlla kemst ekki fyrir. Svo notaði ég rúllu á alla slétta fleti. Þegar maður er að grunna þarf ekkert að hafa miklar áhyggjur af útkomunni sem slíkri, bara passa að þekja vel allt saman og að það séu ekki svona dropar að leka.

Þegar búið er að grunna er mjög mikilvægt ef þið eruð með svona lista eða fulningahurðir að skoða hvort það séu svona skuggalínur meðfram römmum og listum eins og sést hér að neðan

Í þessar línur þarf að sparsla eða kítta því annars kemur þessi lína alltaf fram líka eftir lökkun og það er ekki fallegt

Ég akrýlkíttaði inn í allar þessar raufar og ég vara ykkur við að það var rosalega mikil vinna að gera það. Það er bæði mjög tímafrekt og eins mikil nákvæmnisvinna. Svo þarf kíttið að fá sinn tíma til að þorna.

Þegar bæði grunnur og akrýlkítti er orðið þurrt þá má byrja að lakka. Lökkunin er í raun bara sama vinna og að grunna nema maður vandar meira til við að reyna að fá áferðina slétta og eins fallega og hægt er. Mikilvægt er að byrja á öllu sem þarf að pensla, og rúlla svo sléttu fletina. Hér þarf sérstaklega vel að passa upp á að það sé hvergi svona leki eða dropar sem þorna síðan. Ef þið sjáið þannig, penslið þá létt yfir það. Þegar ég pensla passa ég mig að pensla alltaf mjög létt yfir síðasta skiptið.  Þannig næst miklu jafnari og fallegri áferð án þess að fá penslaför.

Þegar ég rúlla þá byrja ég á að rúlla bara eina línu í einu og svo koll af kolli. Þegar flötur er alveg orðin þakinn í lakki þá fer ég einu sinni enn létt yfir allt með rúlluni til að koma í veg fyrir rúlluför og skil á milli lína. Maður fær tilfinninguna fyrir þessu þegar maður byrjar að lakka.

Hér sjást engar skuggalínur lengur á listum eða römmum og áferðin á hurðunum er mjög jöfn og slétt. Mér finnst þær alveg eins geta verið sprautaðar

Hér er svo lokaútkoman 

Þegar ég horfi á hurðinar hjá mér þá finnst mér þær alveg eins geta verið sprautaðar enda vönduðum við okkur alveg rosalega við að lakka þær. Einnig fylltum við í allar línur með akrýlkítti sem voru á milli veggs og hurðakarma,en karmar eiga það oft til að gapa smá frá veggjum.

Hér sést hve breytingin er mikil eftir að hurðirnar voru málaðar 

Eins og ég tók fram áðan er mikilvægt að notast við rétta pensla og rúllur. Góður lakkpensill er mjög mikilvægur og svo þarf sérstaka lakkrúllu sem er með mjög stuttum hárum til að lakka. Ég notaði hana bæði til að lakka og grunna og eins lakkpensilinn. Mikilvægast er að undirbúningurinn sé sem bestur og að leyfa öllum efnunum sem notast er við að hafa sinn tíma til að þorna. Þá verður lokaútkoman langfallegust.

Lakkrúllur fást í Bauhaus og Flugger. Passið ykkur að kaupa ekki rúllurnar sem Slippfélagið eða Húsasmiðjan er að mæla með en það eru ekki réttu rúllurnar í þetta verk. Ég hef ekki séð lakkrúllurnar sem ég er að tala um hjá þeim.

Hurðarhúnar eru ekki síður mikilvægir eins og hurðirnar sjálfar upp á heildarútkomuna, og langar mig að sýna ykkur hvað við gerðum við hurðarhúnana sem voru til staðar.

Við tókum þá alla af meðan verið var að mála hurðirnar. Svo lagði ég þá í bleyti, ofan í baðkarið hjá mér í sjóðandi heitt vatn með uppþvottalög. Ég lét þá liggja þar ofan í í einhvern tíma. Svo skolaði ég burt allt sápuvatn og lét þá þorna á gólfinu ofan á handklæði.

Þegar þessu ferli var lokið þá fórum við með þá út og grunnuðum með sprey grunni.

Hér er búið að grunna með spreygrunni eina umferð en það var nóg 

Næst er svo að leyfa grunninum að þorna en það stendur á brúsanum hversu lengi hann er að þorna. Það fer bara eftir hvaða sprey þið notið hversu langur tíminn er. Ég keypti grunninn og spreyið bæði í Húsasmiðjunni í Hafnarfirði.

Svo eru húnarnir spreyjaðir með möttu svörtu spreylakki tvær umferðir.

Hér er búið að spreyja 2 umferðir af svörtu möttu lakki yfir allt heila klabbið 

Mér finnst útkoman rosalega flott og öðruvísi og erum við alsæl með þessa húna 🙂

Hurðahúnarnir hafa eitthvað smá Goth yfirbragð á sér sem mér finnst mjög flott og ekki gera hurðirnar eins væmnar og annars

Fyrir ykkur sem eruð að spá í að mála hjá ykkur hurðar eða innréttingar langar mig að segja að ef vel er vandað til verka getur útkoman orðið mjög góð. Ég tala nú ekki um hvað þið sparið ykkur mikinn pening við að gera þetta sjálf frekar en að láta sprautulakka á verkstæði. Ég skef ekkert ofan af því að auðvitað var þetta mikil vinna en þetta var ekkert eitthvað erfitt heldur meira bara tímafrekt og nákvæmnisvinna.

Ég mæli hiklaust með því að gera þetta sjálfur og að hlusta síðan vel á þá sem selja ykkur lakkið. Ég keypti allt mitt hjá Flugger í Hafnarfirði og fannst mér gaurarnir þar gefa mér mjög góðar og nákvæmar leiðbeiningar um hvernig ætti að taka til verka og mæli ég hiklaust með þeim þar.

Nú hef ég þetta ekki lengra í bili, gangi ykkur vel að lakka 😉

María 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

8 Athugasemdir

Ester May 26, 2017 - 12:07 pm

Ævintýralega falleg breyting hjá ykkur- bara til hamingju! 🙂
Hvaða lit eruð þið með á veggjunum (í alrýminu)?

Svara
maria May 27, 2017 - 8:46 pm

Hæ Ester og takk fyrir það 🙂 Við erum bara með skjannahvítt á öllu nema einum vegg erum við með ljós ljósgráan

kv María

Svara
Rakel Rúnars June 4, 2017 - 10:57 pm

Algjör snilld að lesa þessa færslu. Hurðarnar í “nýja” húsinu okkar sem við erum að taka í gegn hafa allar verið málaðar hvítar en það er svo hryllilega illa gert og þvílíku penslaförin, svo ég ætla að ráðast í það að mála þær aftur! 🙂

Svara
maria June 7, 2017 - 7:48 pm

frábært !! Vonandi geta þessi ráð eitthvað hjálpað 🙂

Gangi þér vel með að mála hurðirnar þarf bara að hafa góða tónlist á fóninum og þá verður þetta rosa gaman hehe 😉

kv María

Svara
Jóna July 25, 2017 - 10:04 am

Mikið er þetta fallegt hjá ykkur. Ég fór eftir þínum leiðbeiningum og málaði baðinnréttinguna hjá mér og það heppnaðist mjög vel. Mig langar svo að vita hvaða lakk þú notaðir á hurðarnar og hvað miknn glans? Er að fara að lakka mínar.
kv,
Jóna.

Svara
maria August 10, 2017 - 9:40 pm

Sæl Jóna og gaman að heyra 🙂 Ég notaði lakkið frá flugger og mig minnir að það hafi verið 50 % gljástig og það var alveg skjannahvítt ekkert blandað. Við fengum ráðleggingar varðandi lakkið í Hafnarfirði og þeir eru mjög góðir þar í að ráðleggja hvaða lakk er best fyrir hvað 🙂 Gangi þér vel.

kær kv María

Svara
Erna Guðrún Agnarsdóttir January 29, 2024 - 4:18 pm

Góðan daginn
Takk fyrir að deila þessu – held að ég vindi mér í þetta verkefni.
Með lamirnar – grunnuðu þið og máluðu með sama og hurðirnar?

Með bestu kveðju – Erna Guðrún

Svara
maria March 7, 2024 - 11:35 am

Sæl Erna ogafsakapu mjög seint svar, en já ég grunnaði og málaði bara með hurðinrar hengdar á lamirnar 🙂

Svara

Skrifaðu athugasemd

The maximum upload file size: 4 MB. You can upload: image, spreadsheet, interactive, text, archive, code, other. Links to YouTube, Facebook, Twitter and other services inserted in the comment text will be automatically embedded. Drop file here