Mikilvægi þess að gera fjárhagsáætlun þegar farið er í framkvæmdir

höf: maria

Mig langar að miðla til ykkar mikilvægi þess að gera sér fjárhagsáætlun áður en ráðist er í framkvæmdir, sérstaklega ef þið þurfið að passa upp á hverja krónu, og viljið ekki að hlutirnir fari í vitleysu.

Þegar við Raggi keyptum húsið okkar þá settum við það niður strax hversu dýrt hús við hefðum efni á að kaupa. Við fundum svo þetta hús sem við búum í núna og fengum það í raun á nánast sama verði og við fengum fyrir íbúðina okkar, sem var efri hæð í tvíbýli inn í Garðabæ. Við ákváðum að láta það ekki stoppa okkur að hér þyrfti að gera sitt lítið af hverju (eða mjög mikið af öllu) og þegar við höfðum hugmynd um nákvæmlega hversu mikið við gætum tekið í lán, þá sáum við hvað við ættum eftir fyrir framkvæmdum á húsinu.

Við áttum eftir rúmar 3 miljónir og þær notuðum við til að taka allt húsið okkar í gegn. Við settum nýtt gólfefni, alveg nýtt baðherbergi, máluðum alla veggi, hurðir og glugga, tókum niður veggi, lokuðum veggjum og færðum til innganga í herbergi og gjörbreyttum eldhúsinu á mjög hagkvæman hátt. Eldhúsið er hugsað til 2-3 ára en hér getið þið séð allt um framkvæmdirnar á eldhúsinu.

Til að vera viss um að geta gert allt sem við ætluðum okkur að gera var það fyrsta að gera fjárhagsáætlun. Raggi er algjör Excel snillingur og setti hann áætlun upp í Excel skjal. Ég hins vegar er algjör snillingur í að áætla verð og prútta í búðum svo við erum gott teymi.

Það sem við gerðum var að skjóta bara á tölur hvað við teldum að það gæti mögulega kostað sem við ætluðum að gera og settum hvert atriði upp í kosntaðarlið í Excel. Það sem er svo afar mikilvægt að gera, til að kúka ekki upp á bak og klára peningin í miðjum framkvæmdum, er að klína 40-45 % meira ofan á það sem við höfðum áætlað. Bara til að vera viss um að peningurinn myndi duga. Svo þegar byrjað var að kaupa inn og greiða fyrir hlutina var fyllt strax inn í reitinn við hliðina sem við skírðum rauntölur. Það var alveg merkilegt hvað við skutum oft nálægt, en oft kom það fyrir að við höfðum áætlað eitthvað allt of dýrt og urðum voða glöð. Við héldum samt að okkur höndum og pössuðum okkur að fara alveg eftir áætlun. Sem betur fer því það kom líka fyrir að við skutum allt of langt undir og eitthvað kostaði mun meira en við gerðum ráð fyrir. Á endanum þá stóðst áætlunin okkar nánast upp á krónu.

Hér er lokaniðurstaðan á áæltun okkar á húsinu. Munaði aðeins en ekkert fram úr hófi 

 Með því að gera fjárhagsáætlun gátum við alveg stýrt ferlinu. Ef við sáum að eitthvað var að fara fram úr kostnaði settumst við niður og endurmátum stöðuna. Stundum slepptum við einhverju sem okkur fannst alveg mega missa sig. Á hverju kvöldi fórum við yfir fjárhagsstöðuna og fylltum rauntölur inn í bókhaldið, til að vita nákvæmlega hvar við stæðum. Hver skrúfa, límrúlla og málningarpensill var skráð niður og engu sleppt.

Þetta er mjög mikilvægt til að geta alveg stýrt ferðinni og séð nákvæmlega hvert fjármagnið er að fara. Ef við hefðum ekki gert svona fjárhagsáætlun er ég viss um að okkur hefði aldrei orðið eins mikið úr verki eins og okkur varð. Málið er að maður heldur að 3 miljónir sé rosa mikill peningur sem það auðvitað er, en til að gera upp heilt hús er það ekki svo stór upphæð. Það hefði því getað verið auðvelt að hugsa ,,hva við erum með 3 miljónir það er örugglega nóg eftir” …..en málið er að upphæðirnar eru svo svakalega fljótar að hrannast upp, og verða stórar, að það er með ólíkindum. Það hefði því auðveldlega getað farið þannig að við hefðum löngu klárað fjármagmið áður en við náðum að klára verkið. Það sem kannski margir átta sig einmitt ekki á áður en farið er í framkvæmdir er að þessir litlu hlutir eins og skrúfur, naglar, kíttí og hlutir sem verða ósýnilegir eru rosalega kostnaðarsamir og fljótir að telja. Því þarf að passa sig að reikna með öllu og taka allt með inn í dæmið.

Við höfðum alveg sér áætlun fyrir baðherberginu en þar fórum við í meiri kostnað en við höfðum ætlað okkur í upphafi. Sumt er hægt að skoða hvað kostar á netinu og þá setur maður bara þann kostnað inn í áætlun og málið dautt. Gott er að kynna sér verðin á netinu til að vera nákvæmari.

Hér er kostnaðaráætlunin í heild. Eins og sést hér þá ætluðum við t.d. að setja flísar í eldhúsið en slepptum því og lögðum meira í baðherbergið. Svona gátum við alveg stýrt þessu með því að hafa þetta svona skrifað niður svart á hvítu.

 Myndir af húsinu fyrir og eftir

 

 

 

Hér eru nokkrir góðir punktar sem gott er að hafa í huga þegar gerð er fjárhagsáætlun og farið er í framkvæmdir

  • Ekki hugsa sem svo að eitthvað kosti örugglega ekkert mikið og klína því einhverjum baunum í áætlun. Reiknið frekar með meiri kostnaði en minni og setjið það í áætlaða hlutan.
  • Þegar búið er að áætla hvern kostnaðarlið, bætið þá 40-45 % ofan á þá tölu og látið hana standa.
  • Skráið um leið á hverjum degi inn allt sem þið hafið eytt í og setjið það í rauntölur, dálk sem stendur við hliðina á áætlun.
  • Passið að bregða hvergi út af áætluninni og eyða í neitt annað en það sem peningurinn var ætlaður í
  • Takið alltaf nótur og geymið þær á sama stað til kvölds og skráið þær svo inn í kostnaðarliðina
  • Þegar þið eruð að versla reynið þá að kría út afslætti alls staðar. Byggingarvöruverslanir, flísaverslanir, málningarverlanir o.fl hafa mjög oft svigrúm til að gefa afslætti. Ég var að fá allt frá 10-50 % afslátt á sumum stöðum.
  • Látið vita að þið séuð að taka í gegn heilt hús og hvort verslun vilji veita afslátt ef þið eruð að kaupa í magninnkaupi hjá þeim. Þær gera það yfirleitt og sumar geta sett upp fyrir ykkur tilboð.
  • Vandið valið þegar þið þurfið að ráða iðnaðarmenn. Þeir eru oft mjög misjafnir eins og þeir eru margir og því miður er það að finna góðan iðnaðarmann oft jafn erfitt og að finna gull. Oftast láta þeir ekki sjá sig eða klúðra feitt og það getur kostað mann skildinginn. Þess vegna er mikilvægt að vera búin að kynna sér vel bakgrunn og fá jafnvel einhverja umsögn áður en maður er ráðinn í verkið.
  • Einnig er ansi margt sem hægt er að gera sjálfur og ætti enginn að vera hræddur við að reyna að gera sem mest sjálfur þegar staðið er í framkvæmdum. Gott er að youtuba leiðbeiningar en það gerðum einmitt við Raggi. Ég mæli samt ekki með að þið farið að reyna að vinna í pípulögnum eða rafmagni sjálf og fáið fagaðila til að sjá um það. Allt annað getur verið mun einfaldara en margir halda.
  • Fáið helst alltaf tilboð í verk hjá iðnaðarmönnum og þannig er auðveldara að áætla kostnað í vinnu.

Því miður vorum við mjög óheppin með þá iðnaðarmenn sem við réðum hér í upphafi, en þeir höfðu lofað upp í ermina á sér bæði verðinu og getunni sem þeir töldu sig búa yfir. Ekkert af því sem þeir sögðu stóðst, vinnan var illa unninn og mikil vanvirðing var fyrir verkinu. Þar af leiðandi létum við þá fara og gerðum sem flest sjálf og lærðum helling á því. Pípari og Rafvirki sem komu hér að húsinu stóðu sig samt með sóma.

Ég vona að þetta hafi eitthvað opnað augu ykkar sem eruð á leið í framkvæmdir og að þið eigið eftir að geta nýtt eitthvað af þessum ráðum. Munið líka að það þarf ekki að henda öllu og kaupa allt nýtt heldur má gera mikið með málningu einni saman og svo má selja gamla hluti sem eru rifnir út og þið hyggist ekki nota. Eins manns drasl getur verið annars manns fjársjóður.

Hafið það sem best þar til næst

Kv

María 

 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

2 Athugasemdir

Rakel October 12, 2017 - 10:31 am

Frábært að lesa þetta og fá ráðleggingar nú þegar maður er að standa í þessu sjálfur! 🙂

Svara
maria October 17, 2017 - 2:09 pm

Æðislegt að heyra 🙂 vonandi geturðu nýtt þér eitthvað af þessu <3

Svara

Skrifaðu athugasemd

The maximum upload file size: 4 MB. You can upload: image, spreadsheet, interactive, text, archive, code, other. Links to YouTube, Facebook, Twitter and other services inserted in the comment text will be automatically embedded. Drop file here