Hvernig á að mála fjöll í barnaherbergið

Heimili

Þar sem ég kaus að mála barnaherbergin öll hvít fannst mér gefa mikinn karakter og brjóta upp að mála fjöll á veggina hjá strákunum. Þetta var eiginlega hugmynd frá Reyni Leo en hann sagði strax að hann vildi hafa fjöll í sínu herbergi. Mér fannst það frábær hugmynd og ekki leiðilegt að það var einmitt eitthvað sem er mjög inn akkurat núna og má sjá allskyns fjöll í barnaherbergjum á pinterest og instagram.

Ég lagðist í smá rannsóknarvinnu og skoðaði helling af myndum til að fá hugmyndir, en svo á endanum gerðum við bara það sem við vildum. Inni hjá Mikael blönduðum við saman svartri og hvítri málningu til að fá gráan lit sem okkur fannst flottur og svo höfðum við toppana ljósari til að það væri svona eins og snjór í fjöllunum.

Reynir Leo vildi hafa svört fjöll og var búinn að sjá eitthvað svipað á pinterest sem við notuðum sem fyrirmynd. Útkoman varð samt allt öðruvísi en sú sem við höfðum séð á Pinterest og okkur fannst hún bara enn flottari. Fjöllin hans voru aðeins flóknari að gera en Mikaels en nú ætla ég að sýna ykkur hvernig við fórum að.

Þið verðið að fyrirgefa að myndirnar sem fylgja aðferðinni eru ekki fleiri en þetta, en þær voru teknar í janúar þegar við vorum að mála fjöllin og ég ekki búin að stofna paz.is svo þessar eiginlega verða að duga. Ég reyni samt eins og ég get að útskýra vel í orðum og það skýrist svo enn betur ef þið lesið textann og skoðið myndirnar til skiptis 😉

Það sem þarf í verkið er:

 • Pensill
 • Lítil málningarrúlla
 • Bakka
 • Hvít og svört málning
 • Málningarteip

Mikaels fjöll

 1. Byrjið á að líma útlínurnar og blandið svo ljósgráa málningu úr hvítu og svörtu
 2. Passið að klippa límbandið þar sem það mætist á milli fjallana í odd svo að skilin verði oddhvöss og eins á toppunum.
 3. Málið svo næst toppana í ljósa litnum.
 4. Þegar búið er að mála toppana ljósari, (tvær umferðir) og það allt orðið þurrt, er sett málningarlímband upp að toppunum þar sem mynstrið á að koma og eftir því hvernig þið viljið hafa mynstrið.
 5. Blandið núna dekkri gráan og prófið að setja á vegginn til að finna þann lit sem ykkur finnst fallegur.
 6. Svo er rúllað yfir neðri hlutann með dekkri litnum tvær til þrjár umferðir og passa að það fari ekki yfir límbandið upp á toppana.
 7. Leyfið svo öllu að þorna mjög vel
 8. Límbandið er svo tekið af þegar allt er orðið vel þurrt, en það þarf að taka það mjög hægt af til að það rífi ekki upp úr málningunni, svo farið mjög varlega í það ferli.

 

Útkoman varð svona

Mér finnst þetta gera mjög mikið fyrir herbergið. Það sem setti svo punktinn yfir i-ið var að setja ský yfir og á milli fjallanna en þau keypti ég á poster.is

Augnhárin á milli rammana prentaði ég út af google og klippti út og notaði sem vegglímmiða 🙂 

Fjöllin hans Reynis Leo

 1. Byrjið á að líma fyrir öllum útlínum og mynstri. Mikilvægt að passa að þar sem límabandið mætist á milli fjallana og ofan á toppunum séu hvassar brúnir, og alls staðar í raun þar sem brúnir eiga að vera hvassar.
 2. Dropamynstrið klippti ég fríhendis og notaði málningarlímbandið. Mér fannst flott að hafa þau í allskyns stærðum.
 3. Topparnir eru hafðir hvítir og því þarf að móta þá þar sem það á að koma svört lína meðfram toppunum. Þetta er ekki sama aðferð og notuð var með fjöllinn hans Mikaels en ef þið skoðið vel myndina sjáið þið betur hvað ég meina.
 4. Svo er rúllað allstaðar sem á að vera svart og pensill notaður á minni svæðin eins og á línurnar meðfram toppunum.
 5. Best er að rúlla 2-3 umferðir og leyfa svo öllu að þorna vel.
 6. Svo eins og í lýsingunni hér að ofan þarf að passa vel að þegar límbandið er tekið af að það sé gert mjög vandlega og rólega til að rífa ekki upp málninguna með.

Útkoman varð svona

 

Eins og sést gerir þetta mjög mikið fyrir herbergið og finnst mér útkoman mjög skemmtileg. Þar sem þessi fjöll eru mjög munstruð ákvað ég alveg að sleppa vegglímmiðum fyrir ofan þau, en hafa þá annars staðar í herberginu. 

Hér setti ég vegglímmiða fyrir ofan rúmið hans Reynis Leo og fannst mér það tengja betur við fjöllinn og fá meiri heild í herbergið. Límmiðina keypti ég hjá poster.is

Stóra skýjið er líka vegglímmiði frá poster.is og finnst mér það gera mikið fyrir herbergið en það er mjög stórt og veglegt. 

Það er ekki mikið mál né kostnaður við að gera svona fjöll eða annars konar mynstur í barnaherbergin og gerir það svo mikið til að breyta rýminu og gera það meira smart. Það sem meira er, er að mér fannst herbergin einhvernvegin virka stærri eftir að fjöllin komu.

Þetta er ekki mikið mál og vorum við að gera þetta í fyrsta skiptið og ef við gátum það getið þið það líka. Þar sem það þarf ekki mikla málningu í verkið er hægt að kaupa til verksins prufumálningardósir og spara þannig smá pening 🙂

En ég vona að þetta hafi eitthvað getað hjálpað ykkur og þangað til næst

knús

María 

 

 

 

 

4 Comments Write a comment

Please add an author description.

4 Comments

 • Hekla Guðmundsdóttir September 5, 2017

  Rosalega flott 🙂

  • maria September 5, 2017

   Takk elsku Hekla <3

 • Anna September 17, 2017

  Hvaðan er hvíta rúmið (rimla) ??

  • maria September 19, 2017

   Hæ Anna, ég held að upprunalega komi það úr Baby Sam en ég keypti þetta notað á bland.is 🙂 á heilar 15.000 kr ….hef verið að sjá nokkur svona rúm í gegnum tíðina inn á bland.is svo ég mæli með að hafa augun opin þar 🙂

   Kv María

Leave a Reply

Pin It on Pinterest