Þegar ég kom fyrst að skoða húsið mitt þá fannst mér svo skrítið að það væri ekki svona beint stofa í húsinu heldur bara miðsvæði eða hol sem allir angar lægju frá. Þá var forstofan lokuð og kom maður svo beint inn í stofu og borðstofu. Það sem mér fannst líka skrítið og hræddi mig pínu var að það voru allir gluggar niður í sólstofu en ekki á stofunni sjálfri. Svo var hurð frá stofunni inn í skrifstofuherbergi sem eiginlega gerði það að verkum að það var ekkert veggjapláss í stofunni til að hafa sjónvarp á. Því fannst mér þetta aldrei vera beint stofa heldur meira miðrými og gangur.
Eins og áður hefur komið fram þá var húsið frekar dimmt og allt mjög dökkt hér inni. Það að það væru tveir lokaðir gangar, forstofa og svefnherbergisgangur, gerði það að verkum að það þrengdi að stofunni og hún virkaði lítil og dimm. Einnig var hurðin inn í eldhús frekar smá þrátt fyrir að vera tvöföld og var þetta svoldið svona stór geimur með hurðum á.
Á þessari mynd stend ég niður í sólstofu og horfi upp í rýmið þar sem fyrsta hurðin frá vinstri er inn í eitt af svefnherbergjunum, svo kemur hurð í forstofu og næst eldhús, fjórða hurðin er svo inn í eitt barnaherbergið.
Hér stend ég í forstofu og horfi inn í stofu og borðstofu í átt að svefnherbergisgangi sem var skilinn af með vegg og hurð frá stofu. Niðri er svo sólstofan.
Hér er forstofan og horft inn í stofu og gang
Hér sést hvar hurðin var áður inn í herbergi Reynis Leo, hún var lokuð og sett í forstofumegin
Eftir miklar pælingar ákváðum við að taka niður alla veggi sem lokuðu stofunni af og loka hurðaropinu inn í eitt herbergið sem lá frá stofunni og færa það í forstofuna. Með því græddum við veggjapláss og einhvernveginn bara stækkaði stofan og varð heillegri við það. Allt birti líka alveg ótrúlega upp við að opna svona rýmin og mála allt skjannahvítt. Í dag þá truflar það mig ekki vitund að gluggarnir séu niðri í sólstofunni og finnst mér vera nóg af gluggum hér á húsinu. Við stækkuðum einnig hurðaropið inn í eldhús og settum tvöfalda franska glerhurð. Við það finnst mér eins og við höfum grætt glugga, en það eru 4 eldhúsgluggar sem sést mikið í frá sjónvarpsholi.
Veggur og hurð sem skildi að stofu og forstofu er farinn niður og allt orðið opið inn. Hurðin á horninu er svo inn í herbergið sem var gengið í frá stofu. Einnig er búið að sprauta panilinn hvítan
Séð hinum megin frá inn í forstofu
Hér er verið að leggja parket og loka hurðaropinu inn í herbergið, sem nú er frá forstofunni . Einnig sést að ofninn í sólstofunni er farinn
Hér sést svo hvernig er búið að opna inn í forstofuna og stækka hurðaropið inn í eldhúsið um helming. Panillinn er orðin hvítur og fallegur, en við það að setja ljósara gólfefni, gera panilinn skjannahvítan, sem og veggi og hurðir, og taka niður veggi, birti töluvert upp inn í húsinu
Hér er byrjað að mála allt hvítt og heill veggur kominn þar sem hurð var áður
Panilinn sprautuðum við skjannahvítan en seinna ætla ég að skrifa færslu um hvað er mikilvægt að huga að þegar panill er sprautaður. Við lögðum svo nýtt gólfefni sem er á öllu húsinu nema baðherbergjum og þvottahúsi og settum nýja gólflista. Hér getið þið séð allt um gólfefnin og listana á húsinu.
Niður í sólstofu var risastór langur ofn sem tók mjög mikið gólfpláss og gerði það að verkum að sólstofan mjókkaði töluvert. Við tókum sjensinn á að taka ofninn niður og sleppa því að hafa ofn. Það var alveg stundum svalt svona fyrst á morgnana þar niðri en ekkert sem truflaði, og myndi ég segja að það hafi sloppið. Stefnan er að kaupa kamínu niður og kynda upp með henni á köldum vetrarkvöldum. Á sumrin hins vegar, þegar sól er úti, er varla líft þarna niðri vegna hita.
Hér sést ofan á ofninn sem var niðri, en ofan á honum var viðarhilla sem tók enn meira pláss en ofninn sjálfur. Nú er bílsskúrshurðin úti orðin hvít og munar það líka miklu fyrir útsýnið inni 🙂
Hér er hægt að sjá hversu mikið pláss ofninn tók
Ofninn úr sólstofunni farinn niður og þvílíkt sem gólfplássið nýttist betur auk þess að sólstofan stækkaði við þetta
Upprunalega langaði mig til að taka niður þessa tvo mjóu veggjastólpa sem þið sjáið á myndinni fyrir ofan og hafa stofu, borðstofu og sólstofu sem eitt flæðandi rými. Það var hægt en hefði kostað mikla og dýra vinnu þar sem þetta eru burðarstólpar og hefðum við þurft að láta reikna fyrir okkur burðarvirknina á verkfræðistofu og setja járnstólpa í loftið í staðin. Við ákváðum því bara að halda þeim og í dag sé ég alls ekki eftir því þar sem að þeir skipta rýminu upp og hægt er að hengja upp myndir á þá.
Við gerðum mest alla vinnuna sjálf en húsið er steypt að utan en með timbri að innan og því var það frekar einfalt mál að gera það, auk þess sem burðarsperrur liggja í þakinu og var því mjög auðvelt að taka niður veggi. Það að burðarsperrur séu í þaki þýðir að það séu engir burðarveggir inni í húsinu á milli rýma.
Í veggnum sem við tókum niður úr forstofunni voru rafmagnsleiðslur og þurftum við rafvirkja til að þræða rafmagnið í loftið og draga í gegn. Það var sem betur fer ekki mikill kostnaður og sluppum við því mjög vel. Einnig vorum við afar heppinn að panilllinn lá alveg yfir húsið og hefur greinilega verið settur upp áður en veggir voru reistir því panillinn var líka undir hurðarveggjunum. Það reyndar mynduðust smá sár eftir veggina en það löguðum við með bílasparsli.
Bílasparsl er efni sem verður mjög hart og auðvelt er að vinna með þar sem eru stór sár. Það virkar smá eins og steypa. Það reyndar þarf að vinna hratt með það því það er mjög fljótt að þorna og lyktar mjög sterkt. Því þarf að lofta vel út meðan það er notað og halda börnum frá. Svo þegar panilllin var sprautaður hurfu öll ummerki um að þarna hafi verið veggur. Mæli algjörlega með bílasparsli en það fæst t..d. í málningarvöruverslunum.
En nú er ekkert annað eftir en að leyfa ykkur að sjá myndir af niðurstöðunni og hvernig húsið lítur út í dag 🙂
Þar sem sjónvarpið er var hurðin inn í herbergið
Mynd Anton Brink
Mynd Anton Brink
Hér sést hvernig allt er orðið opið inn
Detailar úr borðstofu
Hér er mynd úr sólstofunni að vetri til
Og önnur að sumri til og þar sést hvað gróðurinn í garðinum lífgar upp á sólstofuna, en það er dásamlegt að sitja hér niðri á sumrin og horfa út í garðinn
Séð úr hinni áttinni í sólstofunni, en skjólveggirnir eru orðnir hvítir fyrir utan og breytir það heilmiklu
3 Myndir að ofan, Anton Brink
Hér sést að litlu burðarveggirnir gera heilmikið og hægt er að hengja fallegar myndir og muni á þá
En nú hef ég þetta ekki lengra í bili og vona að þetta hafi getið gefið ykkur einhverjar hugmyndir
Þangað til næst, sæl að sinni
María
2 Athugasemdir
Þetta er svo ótrúlega fallegt hjá þér. Má ég forvitnast hvar þú keyptir hvíta skenkinn undir kössunum í stofunni?
Takk kærlega fyrir það 🙂 Já þetta er Besta skápur úr Ikea sem sagt 2x tvöfaldur með glanshurðum 🙂