Svefnherbergið mitt og ráðleggingar um litaval og fleira á lítil rými

höf: maria

Þegar við fluttum hingað inn var asinn svo mikill að allt ætti að verða tilbúið daginn sem við myndum flytja, að við eiginlega bara gáfum okkur ekki almennilegan tíma í að átta okkur á hvaða breytingar við myndum vilja í litavali og annað.

Þar sem við vorum frekar sátt með hvernig leit út hjá okkur á gamla staðnum og vorum nýlega búin að velja lit á svefnherbergið okkar þar, ákváðum við bara að copy peista það og máluðum því hér í sama lit og í gömlu íbúðinni okkar. Útkoman var forljót og allt önnur en þar sem við vorum áður.

Málið er að þegar við höfum verið að velja liti þá hefur það yfirleitt kostað okkur eins og 10 prufudósir áður en ákvörðun er tekin. Gamli liturinn var virkilega flottur í gömlu íbúðinni enda var hann valinn þar með því birtustigi sem það herbergi hafði.

Litir geta nefninlega orðið allt aðrir við aðrar kringumstæður, eins og staðsetning á gluggum, stærð herbergis og birtustig. Allt þetta getur haft áhrif á það hvernig litur kemur út. Litur á einum stað getur verið allt annar litur á öðrum stað.

Hér eru myndir af herberginu mínu úr íbúðinni sem við áttum áður. Ég kunni mjög vel við þennan lit þar, en það var ekki hægt að segja það sama þegar hann var komin á svefnherbergið í nýja húsinu

Þess vegna mæli ég alltaf með því að velja ekki liti fyrr en herbergi eru komin með þau húsgögn sem eiga að vera inni í því, og þið eruð aðeins búin að búa í rýminu og átta ykkur á birtustigi og annað.

Kaupið þá nóg af prufum og setjið á veggina og veljið svo. Það er mjög algengt að fólk fari í málningarverslanir og bendi bara á einhvern lit á litaspjaldi og byrji svo að mála heilu rýmin með þeim lit, sem getur svo komið allt öðruvísi út en þið höfðuð ímyndað ykkur.

Til að átta sig þarf litur að fá að þorna og vera málaður á heilan fermeter helst. Einnig er gott ráð að mála hann á tveimur stöðum, t.d. við glugga og svo á vegg sem er í skugga. Þannig getið þið áttað ykkur á öllum litbrigðunum í litnum og fengið nákvæmlega þá útkomu sem þið óskið eftir.

Svefnherbergið mitt er ekki mjög stórt, mér finnst það samt alveg nóg fyrir okkur, enda eru öll börnin með sín eigin herbergi. Liturinn sem við máluðum það upphaflega í áður en við fluttum hingað inn, gerði það að verkum að herbergið varð bara einhvernveginn minna og gerði akkurat ekkert fyrir augað.

Það minnti helst á eitthvað frá sjöunda áratugnum og ákváðum við því rétt fyrir síðustu jól að endurgera herbergið. Því sé ég sko ekki eftir.

Upprunalega þegar við kaupum húsið voru risaskápar þvert yfir herbergið sem náðu frá hurð að glugga. Þeim hentum við út í skiptum fyrir minni skáp sem náði ekki nema helming af því sem hinir höfðu.

Nýju skáparnir taka í rauninni meira af dóti en þeir gömlu gerðu. Skápar geta leynt á sér og þarf oft ekkert að vera með óteljandi skápa til að taka við sama magni af dóti en annars. Gömlu skáparnir voru t.d. með allt of mikið af litlum skúffum sem ekkert rúmaðist í og eiginlega hefði ég ekkert vitað hvernig ætti að raða inn í þá af viti.

Hér sést hvernig skápar náðu yfir allt herbergið í nýja húsinu, frá hurð að glugga. Mér fannst skáparnir algjörlega éta upp herbergið og henti þeim því út og seldi

Hér er horft inn í herbergið eins og það var áður

Hér er mynd af nýja skápnum sem er 150 cm á breidd og settum við hann í einn endann á herberginu á bak við hurð. Ég valdi að hafa eina speglahurð bæði af hagkvæmni til að geta speglað mig og eins til að gera herbergið fallegra og stærra. 

Þegar við keyptum skápinn okkar þá var herbergið í dökkum lit, en eins og með margt Ikea dót þá er oft hvíta dótið ekki alveg hvítt heldur svona gulhvítt. Þegar við svo máluðum veggina í skjannahvítu sá ég mikin mun á veggjunum og skápunum sem truflaði mig mjög mikið.

Þess vegna ákvað ég að kaupa lakk og grunn í nákvæmlega sama hvíta lit og veggirnir og rúlla á hurðirnar á fataskápnum, svo hann yrði alveg skjannahvítur. Svona lítil smáatriði geta oft skipt máli og eru ekki lengi verið að leysa. Þessi vinna með skápinn hefur örugglega ekki tekið meira en hálftíma í allt og svo þess virði.

Þegar herbergi eru ekki mjög stór skiptir miklu máli hvernig raðað er inn í þau ásamt litavali auðvitað. Herbergið mitt er alveg ferkantað og þegar rúm og skápur var komið inn var autt pláss við hliðina á skápunum sem náði alveg að gluggunum.

Til að fylla upp í það pláss og plata svoldið augað fyllti ég upp í þetta tómarúm með Malm hillum úr Ikea sem ég sagaði niður í rétta stærð og boruðum við litla snúllan mín þær upp hérna einn morguninn alveg sjálfar 😉

Malm hillurnar sem ég notaði til að fylla upp í rýmið við hliðina á fataskápnum. 

Mér finnst smart að nota spariskóna mína og bækur til að raða í hillurnar.

Útkoman finnst mér æðisleg og náði herbergið einhvernveginn meiri heild með þessari lausn. Þær gefa fallegt yfirbragð á herbergið án þess þó að taka of mikið pláss. Við val á náttborðum ákváðum við að reyna að finna upphengd borð sem tæku ekki of mikið gólfpláss.

Við erum með allt of stórt rúm eða 200×203 cm sem étur svoldið upp herbergið. Þess vegna fannst mér mikilvægt að troða ekki risaborðum, við hliðina á rúminu, heldur finna einhver falleg borð sem tæku við einhverju magni af dóti án þess þó að éta upp gólfplássið í heberginu.

Náttborðin koma mjög vel út og finnst mér þau rúmgóð án þess að taka of mikið gólfpláss

Við ætluðum okkur alltaf að kaupa hvítar kassahillur og mála þær svartar inní. Því var ég ekkert smá glöð þegar ég rakst á einhverjar einingar í umbúðarlaust í Ikea, sem áttu að vera inn í einhverja hillusamstæðu, en voru akkurat svona kassar með svörtu inn í.

Þar sem þetta var ætlað inn í aðrar einingar voru ekki til neinar veggfestingar með þeim, en ég dó nú ekki ráðalaus. Þar sem ég er með Besta skáp í stofunni hjá mér mundi ég að festingarnar á honum myndu henta fullkomnlega fyrir nýju náttborðin mín og keypti því þannig.

Þar sem þær koma ekki í stærðinni sem náttborðin eru, þá söguðum við þær með járnsög og þær smellpössuðu og dæmið gékk upp. Það er hægt að redda sér mjög mikið með málningu og sög og það þarf ekki alltaf allt að passa 100 % ef þið viljið sleppa vel fjárhagslega, og þurfa ekki að láta sérsmíða fyrir ykkur fyrir fullt af pening.

Smá útsjónasemi og sög getur fleytt ykkur langt og getur sparað fullt af pening.

Hér er mynd af náttborðinu okkar og er ég þvílíkt ánægð með þau. Myndin fyrir ofan náttborðið er frá Linn Wold og hengið er gjöf frá Marrvefverslun.

Mynd Anton Brink

Þegar ég vel hvíta málningu vil ég hafa hana alveg skjannahvíta og ekkert gul eða grátóna í henni, finnst mér það gera allt miklu fallegra, hreinna og bjartara og eru allar hurðir og hvítir veggir hér á heimilinu málað þannnig.

Við skiptum út gólfefni, gólflistum og máluðum panil og hurðarnar hvítar. Einnig máluðum við alla miðstöðvarofnana líka skjannahvíta og gjörbreytti það herberginu og gerði það hreinna og bjartara.

Smá samantekt á ráðum þegar taka á herbergi í gegn:

  • Veljið lit eftir að hafa prufað nokkrar prufur á veggina með því að mála heilan fermeter í senn, á tvo til þrjá mismunandi veggi í herberginu.
  • Rýmisnotkun er mikilvæg og það hvernig þið nýtið gólfpláss og raðið húsgögnum getur haft mikið að segja um hvernig lokaútkoman verður.
  • Í litlum rýmum er gott að hafa lág húsgögn og helst upphengd og ekki of djúp. Þannig getur rýmið oft virkað stærra
  • Dökkir litir þurfa ekki alltaf endilega að láta rými virka minna, staðsetning á gluggum og birta spilar mikið inn í og þess vegna skuluð þið velja liti meira eftir birtustigi herbergis fremur en stærð.
  • Myndir á veggi geta oft stækkað upp rými og eru því stórar myndir yfir rúm eða náttborð oft fallegar til að plata augað.
  • Speglar á veggjum sem ná frá lofti niður að gólfi , eða t.d á  hurð á fatakáp geta gert mikið fyrir lítil rými. Er bæði gaman að sjá herbergið speglast í speglinum ásamt því að það getur látið herbergið virkað stærra.

Hér koma nokkrar myndir af lokaútkomunni

Púðar og rúmteppin eru samsuða af ýmsu sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. Púðar eru m.a. keyptir í Ikea, Rúmfó og My concept Store. Bleika teppið fékk ég í Söstrene Grene og hin rúmteppin í Ikea og Rúmfó. 

Hér sést hvernig spegillinn gefur herberginu skemmtilegan svip og stækkar um leið rýmið. Ofninn máluðum við skjannahvítan sem og gluggana að innan og listana utan um gluggana. Það voru fallegar marmaragluggaskistur hérna fyrir, í ferskjulit sem ég ákvað að halda 

Marmaragluggakisturnar 

 

Á herberginu eru 2 stórir gluggar og einn lítill sem hleypir mikilli birtu inn og var ég því alveg óhrædd við að mála einn vegginn svartan. Litinn fékk ég í Bauhaus en hann er 3 dekksti liturinn á svarta spjaldinu með 5% gljáa

Myndin fyrir ofan náttborðið mitt er frá Linn Wold og lampinn er úr Söstrene Grene

Náttborðin eru mjög rúmgóð og eru nógu stór til að leggja bækur eða lampa á þau en taka samt sem áður ekki of mikið pláss þar sem þau eru upphengd 

Mér fannst það svoldið skemmtilegt að setja indjánakarl og konu fyir ofan náttborðin, okkar megin í herberginu. Ef ykkur langar að sjá fleiri myndir af heimilinu mínu er ykkur velkomið að kíkja á instagrammið mitt @paz.is

það er oft líf og fjör í svefnherberginu okkar Ragga 😉  

 

Ég vona að þetta geti eitthvað hjálpað ykkur og við heyrumst fljótt aftur

Kær kveðja

María 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

6 Athugasemdir

Hulda September 30, 2017 - 7:22 pm

Mikið er heimilið þitt fallegt María mín og allur hópurinn þinn er dásamlegur ?Er svo gaman að fylgjast með þer verður allt svo fallegt i höndunum a þér elskan ???

Svara
maria October 5, 2017 - 11:01 am

Awww takk fyrir það 🙂 <3

Svara
Hafdis January 16, 2018 - 8:18 am

Sæl María, ég var að byrja að fylgjast með þér og er heilluð 🙂 Langar bara að spyrja hvort þú sért með eitthvað í herberginu sem þú leggur púða og teppi á yfir nóttina.

Svara
maria January 21, 2018 - 2:38 pm

Hæ Hafdís og takk fyrir að fylgjast með 🙂

Nei nefninlega ekki ég set alltaf bara stærstu púðana neðst á gólfið og hleð svo öllu hinu ofan á :S

Svara
Fanney March 18, 2018 - 7:00 pm

Sæl María.
Skemmtileg færsla – fékk mig til að vera handviss um að fara í dökkt málað svefnherbergi. En mig langar til að spyrja þig hvar þú keyptir ljósakrónuna í svefnherberginu?

Svara
maria March 21, 2018 - 3:24 pm

Hæ hæ takk fyrir það 🙂

Ljóskrónuna keytpi ég fyrir mörgum árum á bland.is notaða 😀 en ég sá svona í þá daga mjög svipaða í Ilva

kv María

Svara

Skrifaðu athugasemd