Hér er ein örstutt en svo ofboðslega góð uppskrift að ég gat ekki sleppt því að setja hana inn á síðuna.
Pan con tomate y jamon eða brauð með tómat og hráskinku er eitthvað sem allir sem hafa komið til Spánar hljóta að hafa smakkað.
Hér erum við ekki að tala um brauð með tómat á hefðbundinn hátt eins og við á Íslandi myndum gera eða í sneiðum…
Neeeeeiiiiiii þetta er sko allt önnur aðferð sem Spánverjar gera og er eitt af mínu uppáhalds í spænskri matargerð. Þið munið ekki trúa því hvað þetta er gott.
Pan con tomate á Spáni eða brauð með tómat þýðir að þá er búið að maka innihaldi tómatsins á brauðið og setja svo gæðaólífuolíu og salt yfir.
Eitt og sér er þetta oft borðað í morgunmat með ristuðu baguette eða ciabatta, en að setja síðan gott álegg eins og chorizo eða hráskinku ofan á toppar þetta alla leið.
Hráefni
- Gott súrdeigsbrauð fínt eða Baguette eða Ciabatta
- Vel græna extra Virgin ólífuolíu
- Vel þroskaða eldrauða dísæta tómata
- Hráskinku
Aðferð
- Mér finnst rosa gott að rista brauðið en þess þarf ekki ef þið eruð með nýbakað brauð með stökkri skorpu
- Skerið tómat í tvennt og kreistið innihaldinu úr honum yfir brauðsneiðina og makið því svo á með sárinu á tómatinum þar til tómaturinn er alveg tómur
- Hellið svo ögn af ólífuolíu yfir tómatmaukið og saltið létt yfir
- Setjið svo áleggið á og ég lofa þið munið gera þetta aftur og aftur og aftur..........
Verði ykkur að góðu
María