Þessi uppskrift af ostaköku er ein af þeim sem hefur fylgt mér ansi lengi eða í heil 20 ár. Ég man svo vel hvar ég fékk hana en það var í vinnustaðarboði þar sem kræsingarnar voru hver annari betri.
Auðvitað bað ég um að fá uppskriftina, en hana handskrifaði ég á servíettu upp úr uppskriftarbók Lions kvenna. Ostakökuna gerði ég svo í hverju einasta afmæli í nokkur ár á eftir.
Það var samt liðinn þónokkuð langur tími síðan ég hafði gert hana, þegar handskrifaða servíettan dúkkaði upp með uppskriftinni á. Því var ekki spurning um annað en að henda í eina og gefa ykkur uppskriftina.
Ég viðurkenni það að ég elska svona uppskriftir eins og þessa, því hana er rosalega auðvelt að gera og ekkert vesen í kringum hana. Hér þarf ekki mörg hráefni, bara nokkur af þeim bestu eins og rjóma, rjómaost og fersk ber.
Umm namm eruð þið ekki að fá vatn í munninn ? Ég alla vega elska þessa ostaköku og vona að þið munið gera það líka.
Hráefni
Botn:
- 240 gr Homeblest (pakkinn er 300 gr takið 4 kökur úr)
- 60 gr smjörlíki eða smjör
Fylling:
- 400 gr rjómaostur
- 1/2 líter rjómi
- 3 dl flórsykur
Ofan á:
- Fersk bláber
- Fersk jarðaber
- Súkkulaðispænir (val)
Aðferð
- Myljið kexið í blandara eða setjið í poka og berjið með kefli þar til orðið alveg að mylsnu
- Bræðið smjör/líki og blandið við kexið
- Þjappið ofan í eldfast mót en best er að nota form eða mót fyrir kökuna, þ.e ekki sem á að taka hana úr
- Þeytið næst rjómaost og flórsykur saman og þeytið svo rjómann sér
- Blandið svo ofurvarlega saman, með sleikju, þeytta rjómanum og rjómaostinum þar til orðið vel blandað saman
- Setjið svo ostablönduna yfir kexmylsnuna jafnt yfir allt varlega
- Skerið svo niður ber og dreifið jafnt yfir kökuna
- Mér finnst rosa gott að setja smá súkkulaðispænir yfir allt en þess þarf ekki
- Hægt er að bera strax fram en best er að kæla hana í eins og eina klst í ísskáp áður en hún er borin fram jafnvel lengur
Verði ykkur að góðu
María
Endilega fylgið mér á Instagram með því að ýta hér