Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og þar sem algengast er að gera sveppasósu eða aðra góða rjómalagaða sósu með hryggnum fannst mér það alveg tilvalið að prófa að gera eins og er svo oft gert erlendis.
Þar er oftast gerð einhverskonar sinnepssósa með reyktu svínakjöti. Eftir mikla tilraunastarfsemi fæddist þessi dásamlega sósa sem fer alveg ofboðslega vel með kjötinu.
Hér erum við ekki að tala um sinnepssósu eins og við setjum á samlokur heldur meira í ætt við Bernaise sósu en í henni er t.d egg og smjör hrært yfir vatnsbaði. Þessa sósu er alveg tilvalið að hafa í jólaboði með köldu kjöti.
Hráefni
- ¼ bolli sykur
- ¼ bolli nýmjólk eða rjómi
- ¼ bolli hvítt borðedik
- 2 msk hunangs Dijon sinnep
- 1 egg
- 25-30 gr smjör
- Salt
Aðferð
- Setjið vatn í pott og skál yfir, passið að botninn á skálinni snerti ekki vatnið.
- Hafið yfir miðlungshita.
- Brjótið nú eggið í skálina og setjið sykur saman við og pískið vel saman.
- Bætið svo við rjóma/mjólk og sinnepinu og leyfið sósunni að hitna vel, hrærið reglulega í
- Bætið svo ediki út í og látið sjóða þar til hún er orðin þykk.
- Ef hún nær ekki að þykkna yfir vatnsbaði er gott að setja hana beint í pott og láta hana ná suðu, þá byrjar hún fljótt að þykkna.
- Takið hana þá af hellunni og bætið við smjöri og salti og hrærið vel.
- Hægt er að bera sósuna fram jafnt kalda sem heita.
Verði ykkur að góðu
María