Það er alveg magnað hvað ein mubla getur miklu breytt. Ég var búin að vera á leiðinni að fá mér nýtt sófaborð í ég veit ekki hvað langan tíma. Gömlu sófaborðin áttu alltaf að vera bara til bráðabirgða en ég bara fann aldrei rétta borðið.
Þegar ég sá svo Metro borðið fyrst hjá Reykjavík Design varð ég alveg veik fyrir því. Ég hugsaði um það í marga mánuði áður en ég keypti mér það, því ég vildi skoða mig vel um, og fjárfesta í rétta borðinu. Ég held að mér hafi sko tekist það en ég er afskaplega ánægð með útkomuna.
Borðið keypti ég eins og áður sagði í Reykjavik Design en þar er að finna svo dásamlega fallegar og vandaðar vörur. Ég er komin með lista yfir hvað ég ætla að fá mér meira frá þeim. Efst á þeim lista er gangaborð í stíl við sófaborðið. Það ætla ég að hafa í forstofunni eða ganginum hjá mér, en næsta mál á dagskrá er að breyta forstofunni.
Sófaborðið er einnig hægt að fá í svörtu og gangaborðin í svörtu, hvítu og viðarlituðu. Ég er jafnvel að hugsa um að hafa gangaborðið í viðarlit, til að brjóta aðeins upp allt þetta hvíta hér inni, og hlýja aðeins upp.
Borðið heitir Metro og er frá XL Boom, hönnunarfyrirtæki sem hefur unnið sér inn gott orðspor fyrir vandaða hönnun, gæði og framúrskarandi handverk. Hver hlutur er handunninn frá grunni og því einstakur. Framleiðsla XLBoom fer fram á handverkstæðum í Evrópu.
Markmið fyrirtækisins er að vörur þess vekji ánægju og vellíðan í nærumhverfinu. Í hönnunar- og framleiðsluferlinu er mikil áhersla á að velja bestu mögulegu hráefni, gott vinnuumhverfi ásamt vönduðum frágangi vörunnar.
Mér finnst þessi markmið XL Boom svo sannarlega koma sér til skila, því borðið er ekki bara vandað og fallegt heldur skilar það mér svo sannarlega ánægju og vellíðan. Stofan hefur alveg tekið á sig nýtt yfirbragð og er miklu smartari eftir að borðið kom.
Þó borðið virki lítið og smátt er alveg augljóst að það hefur verið notaður gegnheill vandaður viður í það en það er mjög stapílt og massíft. Ég er svo glöð að rétta borðið sé fundið.
Finnst ykkur það ekki flott ?? Ég er alla vega í skýjunum með það 🙂 Leyfi ykkur svo að fylgjast með þegar ég fæ mér gangaborðið
knús
María