Nú eru jólin óðum að nálgast og mikið af jólaskrautinu komið upp hér á heimilinu, þó enn vanti mikið upp á.
Ég er hins vegar alveg með það á hreinu hvernig ég mun dekka upp á jólaborðið mitt, en ég fékk Vikuna í heimsókn þar sem við héldum matarboð saman.
Mikið ofboðslega var gaman að fá þær frá Vikunni heim, og þvílíkir fagmenn þarna á ferð. Ef þú ert ekki búin að næla þér í eintak nú þegar mæli ég með að þú stökkvir og náir þér í eitt.
Ég viðurkenni það að ég er lítið fyrir að tapa mér í jólaskreytingum og vil hafa sem lágstemmst og náttúrulegast þegar kemur að bæði jólaskrauti og að dekka upp á jólaborðið.
En ég var svo glimrandi ánægð með útkomuna á borðinu sem ég hafði í Vikunni að ég ákvað að halda mig við þessa uppsetningu á jólunum.
Náttúrlegur efniviður eins og kryddjurtir, ber og greni er það sem ég kýs í jólaskreytingar og náttúrulegir litir. Jólamaturinn sjálfur er síðan svo fallegur og litríkur að það þarf ekki meira til.
Ég setti rósmarín og tímian í flöskur og batt svo snæri um hálsinn á þeim og setti kerti í. Mér finnst þetta ótrúlega jólalegt og fallegt og enn fallegra þegar byrjað er að rökkva og kveikt er á kertunum.
Ég notast við fallegar og náttúrulegar tauservíettur og set á þær rifsber og timian greinar sem ég bind svo saman með snæri í stíl við það sem ég setti á flöskurnar.
Mér finnst útkoman ofboðslega falleg og jólaleg en hér vantar enn matinn á borðið sem mun setja punktinn yfir i-ið
Allar uppskriftirnar af matnum má finna í Vikunni
Hér batt ég snæri utan um kerti og setti Anís stjörnur með.
Ég held að myndirnar sjálfar tali sínu máli og ætla því ekkert að hafa þetta lengra en leyfi hér að fylgja með fullt af myndum sem vonandi geta gefið ykkur innblástur.
Mynd Unnur Magna
Ég vona að þið getið nýtt ykkur eitthvað af þessum hugmyndum en þær eru í senn ódýrar og afar einfaldar.
Gleðileg Jól
María