Breytingar á eldhúsinu

höf: maria

-Færslan er ekki kostuð á neinn hátt-

Þegar við keyptum húsið var eldhúsið rosalega dökkt, yfirþyrmandi og að mínu mati ekki fallegt. Við ákváðum að vinna úr þeim efnivið sem var til staðar og mála og færa til skápa. Hér getið þið lesið um allar þær breytingar sem voru gerðar þá.

Núna hins vegar fórum við í aðeins minni framkvæmdir á eldhúsinu en mikið svakalega breytti það miklu. Við ákváðum að skipta um borðplötur, og oft þegar maður byrjar á einu þá kallar það á fleiri breytingar.

Allt í einu fannst mér svarti veggurinn á milli skápa bara alls ekki passa við nýju borðplöturnar svo hann var því málaður hvítur.

Eldhúsborðið okkar var ónýtt, eða platan á því, en krakkarnir höfðu litað á það, og kallinn reynt að ná því af með Geysla og töfrasvampi, sem skildi eftir sig ljót för. Því keyptum við nýja plötu á borðið í Ikea á tæpar 10.000 kr en héldum gömlu fótunum.

Mig var lengi búið að langa í nýtt ljós en ég var alveg komin með upp í kok af gömlu krónunni, sem var með kristöllunum á milli. Því ákvað ég að prófa að taka kristalana af og spreyja ljósið svart.

Mikið rosalega finnst mér það smart núna og koma vel út. Ég hef því ákveðið að halda því, Nýtt ljós fyrir núll krónur, en ég átti spreyið til.

Mig var lengi búið að dreyma um gallerívegg og ákvað því að gera einn slíkan í eldhúsinu, og mikið er ég svakalega ánægð með hann. Það vantaði líka ögn upp á skápaplássið og settum við því upp tvöfaldan þunnan Besta, skáp fyrir neðan Söstrene hillurnar frægu.

Það er alveg magnað hvað kemst mikið í þennan skáp og munar heldur betur um hann.

Málning, nýjar borðplötur og nýtt á veggina, auk þess að gefa gömlum hlutum nýtt líf, breytti heilum ósköpum fyrir eldhúsið. Borðplöturnar eru allar úr Ikea og sluppum við með borðplötur fyrir 28.000 kr.

Við þurftum að láta skeita tveimur plötum saman á eyjuna og kostaði það aukalega svo við enduðum í rétt rúmlega 40.000 kr fyrir borðplöturnar. Við létum Fanntófell saga tvær plötur í sundur og gera samkseiti í þær.

Við þurftum hins vegar sjálf að skeita þeim saman með boltum og trélími, og gékk það alveg fáranlega vel. Við höfðum aldrei gert neitt slíkt áður, en það er ekki hægt að sjá samskeytin.

Platan er eins og heil plata í stað tveggja sem var skeytt saman. Það er alveg ótrúlegt hvað þetta er vel sagað hjá Fanntófell og vel skeytt saman hjá okkur.

Á flísarnar notuðumst við við lakk út Costco, háglansandi skjannahvítt olíulakk. Það var allt of hvítt og gerði það að verkum að eldhúsinnréttingin virkaði skítug og lúin. Því brá ég á það ráð að skreppa í Húsasmiðjuna og þar gáfu þeir mér nokkra dropa af svörtu og gulu í glas.

Dropana setti ég svo sjálf heima út í lakkið, og fann út lit sem hentaði betur með innréttingunni. Það þarf að passa að það sé málning sem má blanda við olíulakk, því olía og vatn blandast ekki saman.

Munurinn á að mála með olíu eða vatns (akrýllakki) er að það er ekki hægt að þrífa áhöldin af olíunni nema með terpentínu. Með vatnslakkið er lítið mál að breiða poka yfir bakka og áhöld, meðan geymt er fyrir næstu umferð. Ég er mjög ánægð með útkomuna og finnst flott að hafa smá glans á flísunum.

Galleríveggurinn er gerður úr bæði nýjum og gömlum posterum héðan og þaðan. Af netinu, úr Rúmfó, gömlum sem ég átti til og hef fengið í gjafir. Uppáhaldsdmyndirnar mínar á veggnum eru frá Love Warriors sem fást í Reykjavik Butik, en hér getið þið fundið vefverslunina þeirra.

Spegilinn keypti ég í Söstrene Grene og finnst hann æði, en hann kostaði eitthvað rétt rúmlega 2000 kr. Verðið í Söstrene er alltaf svo ótrúllega hagstætt og versla ég mikið þar, enda með eindæmum falleg.

Ég lumaði á nokkrum myndarömmum undir rúmi, sem voru teknir upp, og svo keypti ég til viðbótar ramma í Ikea og Rúmfatalagernum. Ég ákvað að hafa rammana mismunandi og valdi því svarta, eikarlitaða og silfurlitaða ásamt einum dökkbrúnum.

Svo fann ég einnig tvo blómahengipotta undir rúmi, sem ég hafði keypt fyrir ári síðan, í Tiger á 400 kr stykkið en aldrei fundið þeim stað. Plönturnar í þeim eru úr Blómaval.

Það sem mér finnst síðan gera vegginn afar persónulegan eru handaplattarnir sem krakkarnir hafa gert á leikskólanum og gefið okkur í gjafir. Við reyndar bjuggum til sjálf tvo platta. Mér fannst veggurinn  koma afar skemmtilega út ásamt því að tengja hann við borðplöturnar á eldhúsbekkjunum.

Nýja borðplatan á matarborðinu er með smá eikarrönd undir á köntunum sem mér finnst líka tengja allt skemmtilega saman. Smáatriðin geta oft skipt sköpum fyrir lokaútkomuna, og finnst mér alltaf vera mikilvægt að reyna að tengja saman efniviðina sem eru til staðar.

Á matarborðinu eru krómlappir og svo eru krómlitaðar höldur á eldhússkápunum. Einnig passar matarborðið afar vel við borðstofuborðið frammi og þannig finnst mér nást góð heild í eldhúsi og borðstofu.

Ég var svo heppin að í öllu húsinu eru marmaragluggakistur, upprunalegar úr alvöru marmara. Mér finnst þær æðislega flottar. Þær eru svartar í eldhúsinu en ferskjubleikar með svörtum æðum í svefnherbergjunum.

Ég held að það sé óhætt að segja að ég er glimrandi glöð með lokaútkomuna og finnst eldhúsið alveg hafa stækkað um heilan helling. Eins og ég hef nefnt áður þá er þetta bráðarbyrgðareldhús þar til höfum efni á nýju eldhúsi. Ég held að þessi breyting hafi lengt líftímann alveg helling.

Ég ætla að enda færsluna á myndashowi og vona að þessi færsla hafi eitthvað getað hjálpað ykkur að fá góðar hugmyndir. Ef þið viljið spyrja frekar, getið þið alltaf haft samband við mig hér á kommentakerfinu eða á instsagramminu @paz.is.

Takk fyrir að lesa

knús

María 

 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

Skrifaðu athugasemd

The maximum upload file size: 4 MB. You can upload: image, spreadsheet, interactive, text, archive, code, other. Links to YouTube, Facebook, Twitter and other services inserted in the comment text will be automatically embedded. Drop file here