Varúð hættulega góð og ofureinföld snickerskaka

höf: maria

Þar sem ég er afar óþolinmóð manneskja og finnst gaman að leika mér svoldið með uppskriftir þá eiga hrákökur, sem auðveldar er að gera og þarf ekki að baka í ofni mjög vel við mig.

Með venjulegan bakstur er svo mikilvægt að fylgja alveg uppskrift til að klúðra ekki. Þegar kemur að svona hrákökum er hins vegar allt í lagi að leika sér svoldið og jafnvel bara slumpa.

Þessa uppskrift fann ég í bókinni Himneskt að njóta eftir Sólveigu Eiríksdóttur. Ég reyndar, eins og með svo margar aðrar uppskriftir, fer ekki alveg 100 % eftir henni og hef breytt henni ögn.

Ég breytti aðeins súkkulaðinu ofan á, auk nokkura annara smáatriða. Þó uppskriftin sé ekki alveg Sollu þá kann ég nú samt ekki við annað en að kredita hana fyrir hana 😉

Kakan er svakalega næringarrík og holl, en maður verður alveg pakk pakk saddur af 2 bitum í marga klukkutíma. Þess vegna er hún mun betri kostur en annað gúmmelaði.

Hún er líka það bragðmikil að það er ekki hægt að liggja á beit í henni og hakka hana í sig, enda mettandi og tekur burt alla frekari löngun í sætindi.

Það sem er líka svo geggjað við hana er að það er bilað góð sölt karamella á milli sem þarf ekki að sjóða í potti og tekur bókstaflega innan við mínútu að gera!!!! Hvað er hægt að biðja um meira ??

Oftast set ég kökuna í fernhyrnt form með smjörpappa undir og sker hana svo í litla bita eins og konfekt. En stundum finnst mér gaman að setja kökuna í kringlótt kökuform og bera hana fram sem köku.

Best er svo að geyma hana alltaf í frysti en mér finnst hún best beint úr frystinum. Ef þið viljið hafa hana aðeins mýkri leyfið henni þá að standa á borði í smástund en það tekur hana mjög lítinn tíma að þiðna ögn upp.

Þessi kaka hættulega góð og eiginlega hættulega auðveld að gera því maður nennir allt of oft að henda í hana, þegar manni vantar eitthvað gott, sem er aðeins of oft. En það gæti margt verið verra og óhollara en þessi kaka.

Vonandi eigið þið eftir að prufa hana og njóta í botn…..einu sinni smakkað þú getur ekki hætt !!!

Þar sem ég er afar óþolinmóð manneskja og finnst gaman að leika mér svoldið með uppskriftir þá eiga hrákökur, sem auðveldar er… Bakstur Varúð hættulega góð og ofureinföld snickerskaka European Prenta
Nutrition facts: 200 calories 20 grams fat

Hráefni

Botn:

 • 150 gr Döðlur (Ég nota alltaf Medjool sem ég kaupi í Costco eða Heima mjúkar döðlur)
 • 125 gr hnetur og möndlur sem þið kjósið, ég nota oftast valhnetur og möndlur blandað saman
 • 1/4 tsk Maldon eða annað gróft salt

Millilag:

 • 1/2 krukka af grófu hnetusmjöri, ég nota alltaf lífrænt ræktað.
 • Hnetusmjörinu er smurt yfir botninn í jöfnu lagi og frekar þunnt.

Sölt Karamella:

 • 2/3 dl hlynsíróp eða agavesíróp
 • 1/3 dl kókósolía
 • 2 msk möndlusmjör (fæst í Costco, Bónus, Hagkaup). Má vera hvítt eða brúnt karamellan er dekkri með brúnu en mér finnst það betra
 • 3/4 tsk Maldon salt eða annað gróft salt

Ekta súkkulaði ofan á:

 • 1 dl Kókósolía brædd undir krana í krukkuni. (Ég blanda stundum líka kakósmjöri og kókósolíu saman 50/50 eða bara í þeim hlutföllum sem þið viljið.
 • 1 dl kakó
 • 1/2 dl agavesíróp eða hlynsíróp

Aðferð

Botn:

 1. Setjið Möndlur og hnetur í matvinnsluvél og malið frekar fínt en alls ekki of mikið þá breytist það í smjör.
 2. Setjið svo döðlur og salt út í og blandið saman þar til það er orðið klístrað, mér finnst gott að setja ögn af vatni út í til að láta það límast betur. Ein msk er alveg nóg.
 3. Þjappið botninum í eldfast mót eða kringlótt glerílát. Ef það er erfitt að dreifa úr botninum hef eg oft bleitt matskeið með heitu vatni og þjappað niður með henni.

Sölt Karamella:

 1. Það þarf að bræða olíuna í krukkunni með loki á undir heitri vatnsbunu. Svo er öllu saman hellt í blandara og þeytt þar til það er orðið að þykkri dásamlegri saltri karamellu.
 2. Hellið karamellunni svo yfir hnetusmjörslagið og látið í frysti meðan þið gerið súkkulaðið ofan á kökuna.

Ekta súkkulaði ofan á:

 1. Þegar olían er orðin alveg brædd setjið hana þá í skál og setjið kakó og agavesíróp út í.
 2. Hrærið saman með gaffli en passið að hræra ekki of mikið þá hættir súkkulaðinu til að verða kekkjótt. Gott er að hræra með stórum hringjum og hægt þar til súkkulaðið er orðið glansandi og silkimjúkt.
 3. Takið nú kökuna úr frysti og hellið súkkulaðinu jafnt yfir hana alla.
 4. Látið kökuna svo í frysti í 30-60 mínútur og berið fram með ískaldri mjólk með klaka í, lofa að það er geggjað !! Hún er líka mjög góð með kaffinu.

Punktar

Karamellan í kökunni er bilað góð þið eigið ekki eftir að trúa því. Ég hef stundum meira að segja búið hana til, til að setja út á ís eða heita eplaköku, eða stundum fyrir Gabríelu dóttur mína, sem getur hreinlega drukkið hana. Eins og ég sagði er aðferðin við að gera hana svo fáránlega auðveld að það er eiginlega hlægilegt. Oftast set ég kökuna í fernhyrnt form með smjörpappa undir og sker hana svo í litla bita eins og konfekt. En stundum finnst mér gaman að setja kökuna í kringlótt kökuform og bera hana fram sem köku.

Verði ykkur að góðu

María 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

Skrifaðu athugasemd