Þið munið eflaust einhver eftir þegar ég var að reyna að mastera Brauð og Co snúðana góðu að það tók mig þrjár tilraunir, uppskrift af þeim er hér.
Þessir snúðar urðu til við þá tilraunastarfsemi, en voru meira eins og blanda af bakaríssnúð og ömmuvínabrauði, ekki beint eins og snúðarnir sem ég var að reyna að mastera.
Þeir voru mjög góðir engu að síður svo ég leyfi þessari uppskrift að fara í loftið enda má aldrei henda góðum uppskriftum.
Stærðin á þeim er eins og á bakaríssnúð en áferðin meira eins og á ömmuvínabrauði, þið vitið þetta sem er með helmingnum af brúnum glassúr og hinn helmingurinn með bleikum.
Ég ákvað að hafa hér 4 valkosti, snúð með súkkulaðiglassúr, bleikum glassúr, smjörostakremi eða bara tóman jafnvel með smá flórsykri.
Bleiki glassúrinn var mitt uppáhald og krakkana.
Brúni var uppáhald eiginmannsins.
Smjörostakremið var uppáhald tengdasonarins…..
Allsberir fyrir þá sem vilja þetta einfalt og meira í ætt við hefðbundna kanilsnúða.
Hráefni
Snúðadeig
- 5 dl nýmjólk
- 50 gr pressuger eða 1 umslag þurrger c.a 11-12 gr (mæli með pressugerinu en það fæst í Hagkaup og Fjarðarkaup í mjólkur og eggjakæli)
- 150 gr hrásykur
- 750 gr hveiti
- 2 tsk vanilludropar
- 1 tsk borðsalt
- 1 tsk matarsódi
- 1 tsk lyftiduft
- 200 gr mjúkt smjör
Fylling
- 115 gr möndlumjöl
- 100 gr sykur
- 50 gr púðursykur
- ½ tsk salt
- 1 eggjahvíta
- 2 msk kanill
- 1 msk kartöflumjöl
- 100 gr brætt smjör
Sykurvatn til að pennsla snúða með:
- 2 smk sykur
- 2 msk soðið vatn
Bleikur glassúr
- 3 dl flórsykur
- 1 msk heitt vatn
- 1 msk Ribena safi
Brúnn glassúr
- 3 dl flórsykur
- 3 msk kakó
- Klípa af salti
- 2 msk vatn
Rjómaostakrem
- 130 gr rjómaostur
- 50 gr mjúkt smjör
- 200 gr flórsykur
- ½ tsk vanilludropar
Aðferð
Snúðar
- Setjið hveiti, salt, matarsóda og lyftiduft saman í hrærivélarskál og blandið saman með króknum
- Setjið næst sykur, ger og ylvolga nýmjólk saman í aðra skál og hrærið vel saman og leyfið að standa í eins og 5 mínútur
- Setjið svo vanilludropana saman við germjólkurblönduna og hrærið vel saman
- Kveikjið á hrærivélinni og hellið gerblöndunni varlega út í skálina og látið hnoðast saman
- Skerið smjörið í smáa ferninga og bætið saman við deigið þar til allt er vel hnoðað saman og búið að hringa sig um krókinn
- Deigið er blautt og má vera þannig ekki bæta hveiti út í, breiðið stykki yfir skálina og látið hefast á volgum stað í 1 klst
Fylling
- Blandið öllu saman í skál og hærið saman í handþeytara eða hrærivél
Bleikt og brúnt krem:
- Setjið öll hráefni saman og hærið vel saman
Rjómasosta krem:
- Setjið allt saman í skál og þeytið vel þar til er orðið mjúkt og kekkjalaust
Sykurvatn:
- Sjóðið vatn og blandið saman við sykurinn þar til hann er alveg leystur upp í vatninu
Snúðasamsetning:
- Hitið ofninn á 50°c hita með blæstri og takið til tvær bökunarplötur undir snúðana
- Takið nú deigið úr skálinni og sáldrið vel af hveiti á borðið áður en þið fletjið það út og einnig ofan á deigið
- Ekki hnoða það neitt byrjið bara að fletja út jafnan ferning sem er c.a 1 cm þykkur
- Ferningurinn á að vera 50 cm breiður og 60 cm langur (mikilvægt að fara eftir)
- Smyrjið allri kanil fyllingunnni jafnt yfir ferninginn
- Rúllið svo deiginu varlega upp í pulsu
- Skerið svo í snúða en hér er mikilvægt að hver snúður sé 6 cm þykkur og já það er mjög þykkt og þannig á það að vera
- Leggjið svo 4-5 snúða á hverja plötu og ýtið á hvern snúð með flötum lófa létt svo hann þeir fletjist ögn út
- Breiðið svo viskastykki yfir snúðana og setjið í 50°c heitan ofninn til hefingar í 35 mínútur, ekki lengur !! (hafið stykkið yfir í ofninum meðan hefast)
- Takið snúðana svo úr ofninum og hitið ofninn strax upp í 200 c° stillt á blástur og takið stykkið af þeim
- Penslið snúðana með sykurvatninu og stingið svo strax í 200 c heitan ofninn í c.a 13 mínútur
- Leyfið þeim að kólna og setjið þá það krem sem þið viljið ofan á
- Stærðin á snúðunum á að vera eins og á bakaríssnúð og best er að gera kremið rétt áður en á að setja það á snúðana
Verði ykkur að góðu
María