Það er alltaf smá vandamál hér á heimilinu þegar á að vera fiskur í matinn.
Krakkarnir eru ekkert allt of hrifnir af fiski og því er ég stöðugt að reyna að gera annað hvort fiskrétti sem ég veit þau elska (eins og þennan hér), eða steikja hann, en oft finnst þeim hann bestur þannig.
Mér finnst steiktur fiskur mjög oft vera stökkur rétt fyrst eftir steikingu en verða síðan fljótt linur. En þessi hér er sko ekki þannig !!
Hann er svo steikt góður að ég trúði ekki mínum eigin augum þegar krakkarnir byrjuðu að rífast um síðustu bitana svo góður var hann.
Hann helst stökkur í langan tíma eftir steikingu og oft hafa krakkarnir borðað afgangana af honum kalda, haldandi á heilu stykki í hendinni sem þau elska að dýfa í tómatssósu.
Mér hins vegar finnst hann rosa góður með púrrulauksjógúrtsósu og Sriracha sósu (ekki blandað saman, heldur hlið við hlið á disknum).
Galdurinn við þennan fisk er uppáhalds raspið mitt þessa dagana, Panko rasp, sem er japanskt brauðrast og gerir allt svo stökkt og gott. Passið að rugla því ekki saman við Paxo rasp en það eru alveg tveir ólíkir hlutir.
Raspinu blanda ég svo í jöfnu hlutfalli eða 50/50 við ferskan rifinn parmesan ost og er þessi tvenna bara allt of góð. Hér getið þið t.d fundið dásamlega uppskrift af eggaldin frönskum sem er með sama innihaldi og vá svo góðar
Hráefni
- 800 gr -1 kg ýsa
- 1 dl hveiti
- 2 egg
- 1 bolli panko rasp (athugið ekki það sama og Paxo rasp)
- 1 bolli rifinn ferskur parmesan (kaupið heilt stykki og rífið sjálf niður ekki kaupa rifinn í dollu)
- Salt
- Lime pepper frá Santa María (fæst í bónus) má sleppa en gerir rosa gott
Sósa:
- 1 bolli grísk jógúrt
- 1 msk hlynsíróp eða agave
- 1/2 pakki púrrulaukssúpa eða meira.....smakkið og notið súpuna eftir smekk
Aðferð
- Skerið fiskinn í sneiðar og leggið á eldhúspappír til að ná mesta raka úr
- Setjið hveiti á einn disk, egg á annan og panko blandað með parmesan á þriðja
- Saltið egginn með 1/4 til 1/2 tsk salti og piprið með lime pepper og hrærið vel
- Byrjið á að velta fiskinum upp úr hveitinu og hristið allt umframhveiti af
- Veltið næst upp úr eggjunum og hristið umframegg af
- Veltið svo síðast upp úr Panko parmesan blöndunni
- Raðið stykkjunum á disk við hlið hvor annars, en ekki ofan á hvort annað, og hitið góða olíu á pönnu (ég notaði isio 4)
- Steikið svo fiskinn á pönnuni í vel heitri olíunni þar til hann er orðin gylltur og fagur
- Þegar hann er tekinn af pönnunni er gott að leggja hann á disk með eldhúspappa á til að olían leki í pappann
Verði ykkur að góðu
María
2 Athugasemdir
hvar fær maður þetta panko rasp ?
Ég kaupi mitt alltaf í Fjarðarkaup en held það fáist örugglega í Hagkaup og eflaust í Melabúðinni. Þetta er oftast staðsett þar sem kínamaturinn er 🙂