-Samstarf-
Hver elskar ekki góða osta ? Innbakaðan eða djúpsteiktan namm……Hér er á ferðinni algjör snilld eða djúpsteiktir ostar frá Alpenhein sem koma frosnir og þarf aðeins að hita í ofni.
Það er bæði hægt að fá 4 stk af djúpsteiktum camembert í pakka eða 9 stk af blönduðum bitum úr Gouda, Brie og Camembert ostum en ég var með bæði í þetta sinn.
Þar sem þarf akkurat ekkert að hafa fyrir ostunum þá leyfði ég mér að dúllast aðeins í eldhúsinu til að gera hina fullkomnu ostamáltíð, já máltíð má kalla þetta enda sniðugt sem brunch eða í hittinginn.
Ég gerði balsamik gljáð epli, hunangsristaði hnetur og já bakaði mitt eigið baguette brauð. Hljómar svaka flókið og fansí, en flókið er það ekki en svo sannarlega fansí og ó svo gott !!
Eplin og hneturnar er afar auðvelt að gera og að baka brauðið líka nema það tekur bara sínar 30 mínútur að hefast, en þið getið líka vel keypt bara gott snittubrauð.
Mín tillaga er að hafa snittubrauð smurt með Den gamle Fabrik rifsberjahlaupi , heilan camambert ofan á, gljáðu eplin þar ofan á og hunangristuðu hneturnar á toppnum.
Með mini ostunum mæli ég með þeim á bakka með kexi, ávöxtum, sultu og einhverju smá sætu eins og súkkulaðihúðuðum hnetum og rúsínum og þess vegna góðum kryddpylsum.
Alpenhein ostarnir eru ekta þýskir ostar sem eru framleiddir úr mjólk sem er framleidd af bændum í ölpunum og er mottóið þeirra “Only the best of Nature”
Ég elska þessa osta en hef oft keypt þá og gert ýmislegt sniðugt með þeim, jú og stundum bara haft þetta afar einfalt eða með góðu brauði og sultu, þarf stundum ekkert meira til.
Hér getið þið séð gamla góða færslu um aðra tillögu af framsetningu með þessum dýrðarostum, sem ég mæli með að þið kíkið á.
Alpenhein ostarnir fást í Krónunni, Hagkaup, Nettó, Bónus og Fjarðarkaupum og mæli ég með að eiga alltaf eins og einn pakka í frystir því þetta er snilld þegar óvænta gesti ber að garði.
Hráefni
Balsamik gljáð epli
- 1-2 epli megið ráða litnum
- 1 msk vatn
- 1,5 msk balsamik edik
- 2 msk púðursykur
- 1 msk hunang
Hunangsristaðar hnetur
- 3 msk hunang
- 1 msk sykur eða hrásykur
- 1/2 dl kasjúhnetur
- 1/2 dl valhnetur
- 1/2 dl sesamfræ
- gróft salt
Heimabakað ofurauðvelt baguette brauð
- 4 bollar eða 550 gr fínt spelt
- 2 tsk salt
- 1 msk hunang
- 50 gr pressuger eða eitt umslag þurrger c.a 11-12 gr (mæli með pressugerinu frekar ef þið fáið það en það fæst í mjólkukæli í Hagkaup, Fjarðarkaup og víðar)
- 4 dl ylvolgt vatn
- 2 msk ólífuolía
Aðferð
Balsamik gljáð epli
- Afhýðið eplin og skerið í þunnar sneiðar
- Setjið vatn, edik, sykur og hunang á frekar litla pönnu ef þið eigið og leyfið því að byrja að sjóða við miðlungshita
- Setjið þá eplasneiðarnar út á og lækkið ögn hitann og setjið lok á
- Látið sjóða í 10 mínútur og snúið þá eplunum og leyfið að sjóða aðrar 10 mínútur undir loki
Hunangsristaðar hnetur
- Ristið hneturnar og fræin á pönnu og setjið svo til hliðar
- Setjið hunang og sykur á pönnuna og látið byrja að malla við miðlungshita
- Setjið þá hneturnar út á og hrærið vel saman svo þær verði allar vel hunangshúðaðar
- Setjið svo á brauðbretti og stráið grófu salti yfir
- stingið í frystir
Heimabakað ofurauðvelt baguette brauð
- Setjið spelt og salt í skál og hrærið saman með króknum
- Setjið næst hunang, ger og volgt vatn saman í aðra skál og hrærið vel og látið standa í 5 mínútur
- Bætið næst ólífuolíuni út í gerblönduna og hrærið vel saman
- Kveikið á hrærivélinni með krók á og hellið gerblöndunni út í skálina rólega meðan er að hnoðast
- Hnoðið þar til deigið er búið að hringa sig um krókinn en það er frekar blautt og klístrað og á að vera þannig, ekki bæta við spelti
- Leggjið svo viskastykki yfir skálina og látið hefast á volgum stað í 30 mín
- Sáldrið nú hveiti á borðið og takið deigið úr skálinni og skiptið í tvennt. Ekki hnoða deigið neitt meira
- Kveikið á ofninum á 210 C°blástur
- Fletjið úr deiginu með því bara að nota hendurnar og puttana, teigið og fletjið með því að ýta á það með puttunum þar til myndast eins og lítill ferningur á stærð við eins og Morgunblaðið
- Rúllið svo ferningnum upp í pulsu og brettið endana undir sitthvorum megin og setjið á bökunarplötu með bökunarpappír á
- Leggið stykki yfir og leyfið að hefast aðrar 10 mínútur
- Skerið svo raufar í brauðið eins og er á baguette og spreyið með vatni og sáldrið smá spelti yfir
- Stingið í ofninn í 12-15 mínútur
Camembert snitta
- Skerið væna sneið af baguette brauði
- Smyrjið Den Gamle Fabrik rifsberjahlaupi ofan á brauðsneiðina
- Setjið heitan djúpsteikta camembert ostinn beint úr ofninum ofan á
- Gljáðu eplin svo ofan á ostinn og myljið svo hunangsgljáðu hneturnar yfir (gott að nota mortel eða berja á þær með kökukefli)
Verði ykkur að góðu
María