Nýja húsið mitt

höf: maria

Í júlí 2016 fengum við afhent nýja húsið okkar sem staðsett er á Álftanesi, í Vesturbæ Garðabæjar ;). Við tókum það alveg í gegn að innan og ætla ég að deila með ykkur öllu því sem við gerðum fyrir húsið í smáatriðum. Það mætti segja að við höfum gert húsið nánast fokhelt og breyttum við því frá A-Ö. Við höfðum 3 milljónir til að eyða í verkið.

Við ákváðum að vera skynsöm og það fyrsta sem við gerðum var að gera fjárhagsáætlun. Við bættum svo 40% ofan á hana til að vera alveg viss um að standast hana. Ég mun sýna ykkur í annarri færslu hvernig við gerðum fjárhagsáætlunina, en það er alveg númer 1, 2 og 3 að gera eina slíka þegar farið er í framkvæmdir. Næsta verkefni er svo að taka húsið allt í gegn að utan næsta sumar, en núna lítur það svona út.

Húsið er byggt 1990 og var allt upprunalegt inni í því, enda kannski ekki það gamalt.

Hér sést úr forstofunni inn í húsið, en hurðarveggurinn og forstofuskápurinn voru fjarlægðir.

Stóra innréttingin vinstra megin var tekin niður og ofninn færður undir gaseldavélina. Hurðargatinu inn í þvottahús var lokað og ísskápshólfi bætt við enda innréttingarinnar.

Við lengdum eyjuna að gluggaveggnum svo að hún næði alveg undir gluggann, en þannig fengum við meira borðpláss og auka skápapláss.

Innréttingar og gólfefni voru mjög dökk og panellinn í loftinu var í bleikgulum tón. Einnig var húsið hólfað niður og mikið um hurðir og veggi sem gerði það mjög dimmt og yfirþyrmandi. Mesta áskorunin var því að gera húsið sem bjartast og finna út hvaða veggi og hurðir mætti taka eða færa, til að hleypa sem mestri birtu inn í húsið.

Við tókum niður þessar tvær hurðir og lokuðum alveg vinstri hurðinni og þar er nú heill veggur. Hurðargatið inn í forstofuna var stækkað og tókum við niður vegginn upp í loft fyrir ofan hurðina.

Tvöfalda hurðin inn í eldhús var tekin og hurðaropið stækkað. Við létum svo sérsmíða fyrir okkur tvöfalda franska glerhurð.

Í sólstofunni tók þessi langi stóri ofn alltof mikið gólfpláss svo hann var tekinn í burtu, og með því stækkaði sólstofan töluvert og nýttist því mun betur.

Í húsinu eru tvö svona barnaherbergi eins og sést á efri mynd og eitt stærra sem sést hér fyrir neðan.

Í þessu herbergi færðum við hurðaropið úr stofunni yfir í forstofuna þar sem forstofuskápurinn hafði verið áður.

Í hjónaherberginu voru skápar þvert yfir herbergið frá hurð að glugga, og voru þeir allir fjarlægðir. Við settum upp hentugri og fallegri skáp bakvið hurðina.

Stóra baðherbergið var alveg rifið og öllu hent út. Gólfhiti lagður, nýtt baðkar, innréttingar, vegg og gólfefni lagt og nýr sturtuklefi byggður.

Eyddum engu í gestabaðið, tókum niður speglainnréttingar, máluðum borð og gólf og skiptum um klósettsetu.

Hér er rétta parketið loksins fundið.

Í húsinu bjó yndislegur eldri maður. Hann var  svo góður að leyfa okkur að koma í húsið reglulega meðan hann bjó í því til að mæla og skoða hvað við gætum gert. Það hjálpaði okkur alveg gríðarlega upp á að geta verið búin að plana og kaupa allt sem þurfti fyrir framkvæmdirnar. Við höfðum í raun bara tvær vikur til að gera það helsta áður en við þyrftum sjálf að flytja úr gömlu íbúðinni okkar.

Það reyndist mjög erfitt að finna iðnaðarmenn um mitt sumar sem vildu taka að sér svona verkefni. Því miður verð ég að segja að við fundum iðnaðarmenn sem voru ekki alveg heiðarlegir og báru mjög litla virðingu fyrir verkefninu. Þar af leiðandi ákváðum við að taka þetta bara í okkar hendur og gera allt sjálf. Það eina sem við gerðum ekki var að flísaleggja baðið og tengja blöndunartækin.

Í komandi færslum ætla ég taka fyrir eitt rými í einu og sýna ykkur fyrir og eftir myndir. Ég vona að þið séuð orðin forvitin að sjá útkomuna eftir að hafa lesið þessa færslu.

Myndir af húsinu eins og það lítur út í dag má finna á Instagraminu mínu @paz.is

María

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

2 Athugasemdir

Sonja April 7, 2017 - 12:58 pm

Gaman að sjá þessar myndir, þvílíkt flottar breytingar sem þið gerðuð !! og til hamingju með Paz.is, – hlakka til að fylgjast með þér 🙂 kv. Sonja (mamma Markúsar)

Svara
maria April 7, 2017 - 5:24 pm

Takk fyrir það Sonja 🙂

Svara

Skrifaðu athugasemd

The maximum upload file size: 4 MB. You can upload: image, spreadsheet, interactive, text, archive, code, other. Links to YouTube, Facebook, Twitter and other services inserted in the comment text will be automatically embedded. Drop file here