Þessi uppskrift er hér annars staðar á blogginu líka. Málið er bara að þegar uppskrift er höfð inn í með öðrum uppskriftum eiga þær það til að týnast.
Þar sem þetta túnfisksalat var bara svo geggjað gott mátti ég til með að leyfa því að skína og gefa því alveg sviðsljósið einu og sér hér í eigin færslu.
En áður hafði það birst hér. Ef ykkur vantar tillögur að áleggi mæli ég með að þið farið inn á þá færslu líka því það er hvert öðru betra sem er þar að finna.
Ef þið elskið venjulegt túnfisksalat á ykkur eftir að líka við þetta. Börnin elskuðu það og meira að segja maðurinn minn sem vill aldrei túnfisk hakkaði það í sig.
Hráefni
- 1 dós túnfiskur
- 1 lítil dós kotasæla
- 1 lítil dós sýrður með graslauksbragði
- 1-2 avókado
- 2 smátt skornir skalottlaukar
- 1/2 rauð papríka smátt skorin
- 1/2-1 dl grænar ólífur skornar í tvennt
- 6 döðlur smátt skornar
- Krydda með Aromat og svörtum pipar
Aðferð
- Blandið saman túnfisk, kotasælu og sýrðum
- Skerið avókado í bita og svo papriku, lauk, og döðlur í smátt
- Ólífur skornar í tvennt og öllu bætt út í salatið og kryddað
- Hrærið vel saman og berið fram
Punktar
Ég mæli með að borða salatið ofan á góða súrdeigsbrauðsnei, hrökkkexi eða góðu kexi eins og er notað með ostum eins og ýmiskonar saltkexi. Alls ekki vera hrædd við að nota döðlurnar því þær gera salatið rosa gott og eru gott mótvægi við saltar ólvurnar. Passið bara að skera þær mjög smátt.
Verði ykkur að góðu
María