5 ára afmæli Reynis Leo með hugmyndum af skemmtilegum veitingum fyrir stóra krakka

höf: maria

Afmælið hans Reynis Leo var í einfaldari kantinum þetta árið. Við ákváðum að bjóða krökkunum af leikskólanum og komu 12 stykki af 4-6 ára krökkum. Já það er held ég alveg óhætt að segja að það hafi verið ævintýri út af fyrir sig haha.

Dagurinn var frábær í alla staði og skemmti afmælsikóngurinn sér konunglega, enda mikil félagsvera sem elskar veislur og ýmsa viðburði. Reynir Leo byrjar yfirleitt að plana næsta afmæli sitt daginn eftir að hann á afmæli. Hann talar um það reglulega hvernig köku á að hafa og hverjum eigi að bjóða. Þannig hefur hann verið frá því hann var pínulítill enda er hann eldgömul sál, sem mér hefur aldrei fundist vera barn.

Þó hann sé ný orðinn 5 ára get ég svarið það að hann er meira eins og kall á sjötugsaldri. Hann er einstaklega heillandi og skemmtilegur strákur sem nær að heilla alla upp úr skónum með visku sinni og sögusögnum. Þegar við förum á bókasafnið þá verða oftast stangveiði eða skotveiðibækur fyrir valinu hjá honum, sem ég mamman þarf svo að lesa fyrir hann á kvöldin hahaha.

Þó hann sé gömul sál þá er hann auðvitað bara lítill strákur, og eins og allir litlir strákar þá elskar hann Batman. Því varð afmælistertan auðvitað að vera Batman terta. Ég ákvað að baka einfalda köku fyrir afmælið. Ég lét prenta út fyrir mig ljósmynd á sykurpappa, af afmælisbarninu íklæddum Batman búning. Þetta er mjög sniðug og einföld lausn. Svo sprautaði ég kökuna með lituðu smjörkremi og setti súkkulaðikrem á milli.

Uppskrifin af botnunum er hér en ég notaði stærri uppskriftina og setti í tvær minni skúffur sem ég á. Ég bætti einum poka af súkkulaðihúðuðu lakkrískurli út í uppskriftina. Uppskriftina af hvíta smjörkreminu má finna hér og súkkulaðismjörkreminu hér. Ef þið eruð að gera stóra köku þarf að tvöfalda kremuppskriftina.

Hauskúpur og snákar er eitthvað sem allir strákar elska, skuggalega krúttilegt 🙂

Sniðug lausn sem bragðast líka rosalega vel

Það sem sló hins vegar rækilega í gegn í afmælinu og mig er búið að hlakka til að sýna ykkur voru pizza/Calzone snákarnir. Það er í raun bara pizza í formi snáks. Krökkunum fannst ekki leiðinlegt að fá þannig í afmælinu.

Þetta er hugmynd sem ég sá í Jay Leno í eldgamla daga þegar Paula Deen var hjá honum og gerði svona snáka. Mér fannst þetta svo mikil snilld að ég hef oft gert þetta í afmælum Gabríelu síðan. Þeir eru svakalega bragðgóðir og djúsí og afar einfaldir að gera. Ég mun setja aðferðina hér neðst í færsluna.

Einfaldar skreytingar. Blöðruskreytt ljósakróna og servíettur frá árinu á undan í bland við nýjar. 

Ég var ekkert að tapa mér í að skreyta vilt og galið og notaðist í raun við það sem ég átti frá fyrrum afmælum. Ég bætti við hauskúpuservíettum til að brjóta þetta aðeins upp og keypti hauskúpukerti í Tiger til að setja á mitt borðið. Það fannst Reyni Leo rosalega flott.

Þar sem þetta voru aðallega leikskólavinir sem var boðið, ákvað ég að leggja á borðstofuborðið fyrir þau og gera svo annað veisluborð fyrir fullorðna inn í eldhúsi. Þar var ég með eina marenstertu og ostabakka og kaffið.

Farið var í Fram fram fylking og svo veitingarnar borðaðar og að lokum farið út að leika til að kæla aðeins mannskapinn niður, en það var orðið ansi fjörugt síðasta hálftímann af tveggja tíma afmælinu.

Baby Ruth terta og ostabakki var svona aukalega fyrir fullorðna fólkið. En ég útbjó sérborð fyrir þau í eldhúsinu. 

Uppskrift af marenskökunni má finna hér. Ég er svoldið skotin í ostabakkanum en hann var gerður á síðustu stundu og öllu hent á hann með hraði rétt fyrir afmælið. Mér fannst útkoman svo skemmtileg svona allt í belg og biðu.

Á bakkanum var ég með tvo hvítmygluosta og piparost. Snittubrauð og Lu kex með beikonbragði. Svo var ég með kirsuberjatómata og vínber, pepperóni og spænska salami pylsu. Svo hafði ég sultu með.

En nú ætla ég að sýna ykkur hvernig gera á pizza/Calzone snáka

Þessir snákar eru svo skemmtileg og einföld lausn. Það er rosa algengt hér á landi að hafa pizzu í barnaafmæli, en fyrir mér er venjuleg pizza ekkert það spennandi þar sem við erum oftast með pizzu á föstudögum.

Pizza er samt alltaf góð og stendur fyrir sínu en til að gera afmælispizzuna skemmtilegri er þetta frábær hugmynd til að nota, svo ég tali nú ekki um hversu vel snákarnir smakkast.

Í stað þess að gera pizzadeig sjálf kaupi ég alltaf tilbúið í snákana, einfaldlega því það er mun teygjanlegra og auðveldara að vinna með.

Best er að baka þá c.a 20-30 mínútum áður en krakkarnir borða því þá er auðveldara fyrir þau að halda á þeim, þar sem þeir hafa aðeins náð að kólna.

Í hvern snák þarf

  • 1 Pakka tilbúið pizzadeig
  • pizzasósu
  • ferskan Mozzarella
  • rifinn Mozarella
  • pepperóní
  • skinku

Aðferð

Látið pizzadeigið standa á borði helst í nokkra klukkutíma á volgum stað í pakkningunni lokaðri. Þá er mun auðveldara að vinna með það. Ekki minna en 2 klst alla vega. Fletjið það svo út í langan sívalning eins og sést á myndinni fyrir ofan.

Smyrjið næst pizzasósu yfir allt deigið

Og setjið svo ferska mozzarella ostinn á í eina lengju fyrir miðju deigi. Stráið svo rifna ostinum og raðið pepperóní á lengjuna. Athugið að hafa áleggið allt eingögnu svona í miðjunni eins og sést á myndinni.

Leggjið næst deigið yfir áleggið, eða eins og aðeins yfir að miðju svo það þekji alveg ostinn og áleggið. Gerið svo það sama hinum megin frá.

Þá lítur þetta svona út. Það sem þarf að gera svo hér er að móta snákinn. Ég tek alltaf utan um hálsinn eins og ég sé að fara að kirkja hann. Ég læt hann verða grennri þar svo það myndist eins og haus. Svo rúlla ég stundum upp á endann svo það virðist vera hali og læt hann svo bylgjast í miðjunni.

Þetta geri ég þegar hann er kominn upp á bökunarskúffuna. Að lokum set ég svo tvær ólívur á tannstöngul og sting inn í sem augu og sker papríku í lengju og klíf á endanum svo það sé eins og snákatúnga. Svo mála ég mynstur á hann með matarlit sem ég þynni örlítið í vatni.

Bakist við 200-210 C°blæstri í 15-20 mínútur eða þar til þið sjáið að hann er tilbúin.

Ég vona að þessi færsla hafi komið með nýjar og skemmtilegar hugmyndir fyrir ykkur til að hafa í barnaafmæli, en ég get alveg lofað því að þessir snákar vekja alltaf lukku hjá krökkunum, auk þess að vera virkilega bragðgóðir og djúsi.

Þangað til næst

kveðja

María 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

2 Athugasemdir

Ella June 25, 2020 - 1:44 pm

Sniðug hugmynd að prenta mynd á sykurpappa sem kökuskreytingu. Hvar er hægt að láta gera það?

Svara
maria June 25, 2020 - 9:08 pm

Hæ hæ

ég hef oftast gert það í allt í köku en held að bakaríin geri það sum líka 🙂

Svara

Skrifaðu athugasemd

The maximum upload file size: 4 MB. You can upload: image, spreadsheet, interactive, text, archive, code, other. Links to YouTube, Facebook, Twitter and other services inserted in the comment text will be automatically embedded. Drop file here