Ofureinföld epla og bláberjakrumbla

Bakstur Bökur

Stundum þegar manni langar allt í einu í eitthvað gott, eða þegar óvænta gesti ber að garði, er gott að geta hent í eitthvað ofureinfalt sem smakkast samt ofurvel. Þessi bláberja eplakrumbla með þeyttum rjóma er einmitt ein af þeim uppskriftum sem tekur enga stund að gera, bragðast vel og sem maður á nánast allt til í inní skápunum.

Þetta er í raun epli  og bláber bakað í ofni með dásamlegri stökkri mylsnu ofan á, eða svokallað apple crumble eins og það kallast á ensku. Þessi baka er dásamleg til að bjóða upp á með kaffinu eða jafnvel sem eftirrétt.

Hana verður að bera fram heita úr ofninum og algjör skylda er að hafa þeyttan rjóma með. Eða jafnvel gríska jógúrt fyrir þá sem vilja ekki rjóma. Heit epli, bláber, stökk skorpa og bráðið dökkt súkkulaði borið fram með rjóma…..namm dásamleg blanda.

Í uppskriftina þarf

 • 3 gul epli (ekki grænu með glansandi húð, þau eru allt of súr)
 • Bláber eftir smekk (frosin úr poka)
 • 70 % súkkulaði eftir smekk
 • 150 gr smjör
 • 1 dl haframjöl
 • 4 dl kókósmjöl
 • 2 dl rapadura hrásykur

Ástæðan fyrir því að ég nota þennan sykur er að hann gefur rosa gott bragð með smá karamellukeim (fæst í Heilsuhúsinu, Hagkaup og Fræinu í Fjarðarkaup)

Aðferð

 • Afhýðið og fræhreinsið eplin og skerið í þunnar skífur. Raðið þeim á eldfast mót.

 • Setjið næst bláber yfir í því magni sem þið kjósið
 • Blandið svo saman mjúku smjöri, haframjöli, kókósmjöli og sykri og hnoðið því vel saman í höndunum.

 • Dreifið svo skorpudeiginu jafnt yfir allt.
 • Skerið niður 70 % dökkt súkkulaði (magn eftir smekk) í bita og setjið ofan á skorpuna
 • Bakið svo í ofni á 180 C° í 15-20 mínútur eða þar til orðið gyllinbrúnt

Þessi er ekki lengi að klárast en hún er svooo góð með þeyttum rjóma ofan á….Namm

Verði ykkur að góðu

María 

 

 

2 Comments Write a comment

Please add an author description.

2 Comments

 • Olof masdottir September 9, 2018

  Mikið var ég glöð þegar ég uppgötvaði þetta blogg. Elska matarblogg með góðum uppskriftum sem ekki þarf að hafa brjálæðisleg mikið fyrir. Gerði lasangna héðan í gær, mjög gott og fjótlegt og nú ætla ég að gera epla -bláberjapæið. En hvað fæ eg þennan Rapadura sykur?
  Já og takk fyrir mig spennandi blogg!

  • maria September 10, 2018

   En gaman að heyra að þér líki við bloggið 🙂 Markmið mitt er einmitt að reyna að einfalda lífið með góðum en einföldum uppskriftum….oftast 😉

   Ég fæ þennan Rapadura sykur í bæði Hagkaup og Fræinu í Fjarðarkaup, held hann fáist einnig í Heilsuhúsinu

   Bestu kv María

Leave a Reply

Pin It on Pinterest