Sumarleg og fersk sítrónuhrákaka

höf: maria

Þessi hér er upprunalega úr smiðju Sollu Eiríks en ég hef breytt henni þannig að fyllingin er mun meiri og úr verður veglegri terta.

Allt sem ég hef gert úr smiðju Sollu bregst ekki, enda snillingur með meiru. Ég hins vegar ætla ekki að vera með þau loforð að þetta sé kaka sem allir eiga eftir að elska því sú er ekki raunin.

Mér finnst hún svakalega góð þegar ég er að tileinka mér hollt matarræði. Þá finnst mér rosa gott að eiga þessa til að grípa í. Kakan er fersk, mátulega sæt og bráðnar í munni.

Ég held að fyrir þá sem kjósa hnallþórur og djúsí súkkulaðikökur þá sé þessi ekkert sérstaklega að fara að slá í gegn, en það er aldrei að vita samt.

Fyrir ykkur sem elskið hollt og gott eða ykkur sem langar að færa ykkur yfir í hollari valkosti þá eigið þið eftir að elska þessa.

Best er að geyma hana í frysti og taka hana út 1-2 klst áður en á að borða hana. Ef það kemur eins og dropar upp á súkkulaðið þegar hún stendur á borðinu, þurrkið það þá varlega af með eldhúspappír.

Úr þessari uppskrift fæst ein dásamleg kaka með þykkri miðju ef notað er 18 cm smelluform með lausum botni. En í þessa fersku og sumarlegu köku þarf:

Sumarleg og fersk sítrónuhrákaka

Þessi hér er upprunalega úr smiðju Sollu Eiríks en ég hef breytt henni þannig að fyllingin er mun meiri og úr verður… Bakstur Sumarleg og fersk sítrónuhrákaka European Prenta
Nutrition facts: 200 calories 20 grams fat

Hráefni

Botn

 • 100 g kókosmjöl
 • 100 g hnetur, t.d. pekan eða möndlur
 • 30 g hreint kakóduft
 • 250 g döðlur

Millilag

 • 6 dl  kasjúhnetur lagðar í bleyti í 1-2 klst (eða 2 pokar frá Himneskt)
 • 1 dl kókospálmasykur
 • 1 dl hlynsíróp
 • 1 1/2 dl kókósolía
 • 2 dl sítrónusafi
 • 2 msk sítrónuhýði
 • 4 tsk vanilla (duft er best)
 • 1/2-1 tsk sjávarsalt

Súkkalaði ofan á

 • 1 dl Kókósolía brædd undir krana í krukkuni. (Ég blanda stundum líka kakósmjöri og kókósolíu saman 50/50 eða bara í þeim hlutföllum sem þið viljið.
 • 1 dl kakó
 • 1/2 dl agavesíróp eða hlynsíróp

Aðferð

Botn 

 1. Byrjið á að setja hnetur, kókosmjöl, kakóduft og salt í matvinnsluvél og látið blandast saman og hneturnar malast.
 2. Bætið döðlunum útí og blandið þar til þetta klístrast vel saman.
 3. Þrýstið botninum niður í formið og geymið í kæli/frysti meðan þið útbúið fyllinguna.

Millilag

 1. Bræðið kókósolíuna með því að hafa hana í lokaðri krukku og hafa krukkuna ofan í skál með heitu vatni.
 2. Setjið næst allt hráefnið í blandara og blandið þar til það er orðið silkimjúkt og kornlaust
 3. Hellið næst fyllingunni yfir botnin og sléttið jafnt úr henni
 4. Setjið svo í frystir meðan þið útbúið súkkulaðið ofan á

Súkkulaði ofan á

 1. Þegar olían er orðin alveg brædd setjið hana þá í skál og setjið kakó og agavesíróp út í.
 2. Hrærið saman með gaffli en passið að hræra ekki of mikið þá hættir súkkulaðinu til að verða kekkjótt. Gott er að hræra með stórum hringjum og hægt þar til súkkulaðið er orðið glansandi og silkimjúkt.
 3. Takið nú kökuna úr frystinum og hellið súkkulaðinu yfir
 4. Setjið aftur í frysti og látið standa þar í a.m.k. 3 klst
 5. Takið svo út 1-2 klst áður en á að neyta hennar. Mér finnst best að hún sé aðeins frosin en þá dugar 1 klst jafnvel 30 mínútur til þess að hún mýkist.

Verði ykkur að góðu elskurnar

María 

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

Skrifaðu athugasemd