Smáborgarar með dásamlegum stökkum parmesan eggaldinfrönskum

höf: maria

Ég ákvað að reyna að búa til einhverja skemmtilega uppskrift sem gaman og gott væri að borða og úr urðu þessir skemmtilegu smáborgarar,  með dásamlegum stökkum parmesan eggaldinfrönskum, sem erfitt er að standast.

Franskarnar einar og sér eru geggjaðar en best er að hafa með þeim dásamlega góðri tómatbasilsósu til að dýfa í. Ekki láta blekkjast þó þær séu gerðar úr eggaldin því þær eru bilað góðar og mega crunchy.

Það heyrist hátt HHHAAATTTSSSS þegar bitið er í þær. Það sem mér finnst líka vera algjör plús við þær er að þær eru ekki djúpsteiktar heldur ofnbakaðar, en galdurinn við stökkleikann kemur í ljós á eftir.

Hér er allt gert frá grunni en ekki láta það hræða ykkur. Ég hef þetta allt ofureinfalt. Uppskriftin af brauðunum er súper auðveld með engu veseni eins og hefingu né annað. Borgarana er súper einfalt að gera og franskarnar og sósan er ekkert nema skemmtilegheit.

Skipulag er það eina sem þessi réttur þarf. Ég mæli því með að gera þetta í eftirfarandi röð:

 1. Tómatbasilsósa
 2. Brauð
 3. Hamborgarakjöt
 4. Eggaldinfranskar
 5. Steikja kjöt

Ástæðan fyrir þessari uppröðun er að allt rúlli og sé tilbúið á sama tímanum. Brauðið og sósuna tekur 30 mínútur að gera. Á meðan það er að sjá um sig sjálft, á hellunni og í ofninum, er kjörið að gera kjötið í borgarana og franskarnar á meðan. Franskarnar þurfa 15 mínútur í ofni og þá er kjörið að elda kjötið á meðan.

Úr verður skemmtileg og öðruvísi máltið sem gaman er að hafa jafnt í HM partý eða heima með fjöllunni. Hvað er hægt að biðja um meira ??

En nú að uppskriftunum !!

Í tómatbasilsósuna þarf

 • 2 hvítlauksrif
 • Ólífuolía
 • Rauðar chiliflögur (örfáar)
 • 1/2 bolli eplaedik
 • 1/2 bolli púðursykur
 • 1 tsk Worchestersósa
 • 1-2 dósir marðir tómatar
 • 2 msk tómatprúrra
 • salt eftir smekk
 • Fersk Basilika 5-8 blöð

Aðferð

 1. Setjið olíu á botninn í potti og hitið.
 2. Takið hvítlaukinn úr hýðinu og berjið á hann með sleif eða hníf til að hann opnist. Setjið rifin í olíuna, en ekki steikja heldur meira sjóða þau í olíunni, sem þarf að vera við vægan hita.
 3. Setjið næst chiliflögur, eplaedik, worchestersósu og púðursykur ofan í.
 4. Að lokum er tómatpúrru, dósatómötum og basil bætt út í og látið sjóða við vægan hita í 30 mínútur. Hrærið reglulega í svo ekki brenni við botninn.

Í hamborgarabrauðin þarf

 • 2 msk þurrger
 • 1 bolli ilvolgt vatn
 • 1/3 bolli olía
 • 1/4 bolli sykur
 • 1 egg
 • 1 tsk salt
 • 3 1/2 bolli hveiti

Aðferð

 1. Byrjið á að setja sykur, ger og vatnið í eina litla skál og látið standa í 5 mínútur, þar til er komin eins og þykk leðja ofan á.
 2. Setjið næst öll þurrefnin í skál og hrærið létt saman.
 3. Þegar gerleðjan er tilbúin, setjið þá olíuna þar ofan í og hellið öllu saman ofan í þurrefnaskálina/hrærivélarskál ásamt egginu.
 4. Hnoðið vel saman þar til deigið er mjúkt og slétt, eða þar til það er alveg búið að hringa sig utan um krókinn á hrærivélinni.
 5. Athugið ekki láta deigið hefast neitt….þess þarf ekki.
 6. Gerið 25-30 stk af kúlum eftir því hversu stór þið viljið hafa brauðin. Ég gerði litlar kúlur og ýtti ögn ofan á þær til að fletja smá út. Leyfið þeim svo að standa undir stykki í 10 mínútur áður en þær fara inn í ofn.
 7. Bakist í blæstri við 200-210 C°í 8-12 mínútur eða þar til orðið gyllt á litinn.

Í hamborgarana þarf

 • 750 gr nautahakk
 • 1 1/2 dl rifin parmesanost (best að rífa hann sjálfur mjög fínt niður á rifjárni. Ekki kaupa þennan í dúnkunum)
 • 1 egg
 • 1 tsk papríkuduft
 • 1 tsk laukduft
 • 1 tsk hvítlauksduft
 • 1 tsk borðsalt
 • 1/2 tsk svartur pipar
 • 1 tsk þurrkað timian

Aðferð

 1. setjið allt í skál og hnoðið saman þar til allt er blandað saman
 2. Passið að reyna að komast af með sem minnst af hnoði því það gerir kjötið seigt. Best er að rétt blanda öllu létt saman með höndunum.
 3. Mótið næst 25-30 hamborgara eftir því hvað hentar ykkar stærð af brauðinu. Ég geri fyrst litla kúlu sem ég flet svo út á milli lófanna.
 4. Næst sting ég einum putta í miðjuna til að þeir séu með smá dæld í miðjunni, en hamborgarar eiga það til að blása upp í miðju við steikingu. Svona nær maður jafnari steikingu og fallegra lagi.
 5. Steikið svo á grillpönnu eða grillið eftir því hvernig þið viljið hafa hann. Mér finnst rúmlega medium rare bestur.
 6. Ekki samt byrja að steikja fyrr en franskarnar eru farnar í ofninn.

Í franskarnar þarf

Athugið ! Galdurinn við að fá þessar franskar súperstökkar er japanskt brauðrasp sem kallast Panko. Ég keypti mitt í Fjarðarkaup en tel líklegt að það sé líka til í Hagkaup og fleiri verslunum. Það ætti því að öllum líkindum að vera hjá kínamatsvörunum.

Alls ekki nota venjulegt brauðrasp !! Það er ekki það sama og franskarnar verða því ekki eins. En í þær þarf:

 • 1 eggaldin
 • 3 egg
 • 1 bolli fínt rifinn parmesan ostur (rífið sjálf með smáu rifjárni ekki kaupa þennan í dollunni)
 • 3/4 bolli Panko brauðrasp
 • Hveiti
 • salt
 • pipar

Aðferð

 1. Hér fyrir ofan á myndunum sjáið þið hvernig ég byrja á að skera botninn og toppinn af eggaldinu. Næst sker ég það svo í tvennt langsum, og svo hvern helming í 3 skífuparta. Svo læt ég alla þrjá partana leggjast saman og sker í langar ræmur/franskar.
 2. Takið lengjurnar í sundur og setjið á borð eða bretti og saltið þannig fari á allar lengjurnar.
 3. Setjið 3 egg í skál og saltið ögn
 4. Setjið hveiti í aðra skál
 5. Og svo Panko og Parmesan í þriðju skálina(blandið því vel saman)
 6. Nú hefst svo gamanið. Byrjið á að setja hverja lengju í hveiti, svo egg og síðast í parmesan pankoið.
 7. Raðið hverri frönsku fyrir sig á grind (helst ekki setja á ofnplötu með bökunarpappír). Ég set ofngrindina ofan á ofnskúffuna og baka þær þannig (getið séð hvernig á mynd hér að neðan). Það er allt í góðu að raða þeim þétt saman.
 8. Bakist svo á 210-220 C°blæstri í 11-15 mínútur eða þar til gyllinbrúnar
 9. Berist fram með tómatbasilsósunni til að dýfa í…..namm ómótstæðilega gott.

Samsetning hamborgarana

Þar sem er afar misjafnt hvað hver og einn vill á sinn borgara er skemmtilegt að bjóða upp á val. Gott er að skera niður kál, gúrku og tómata en margir kjósa það á sinn borgara. Svo má hafa tómatsósu fyrir krakkarna eða plain hamborgarasósu.

Ég hins vegar set á þessa hamborgara uppáhalds sósu samsetninguna mína, sem er tómatsósa, gult sætt sinnep og sýrður með graslauk (í grænu dósunum). Hér kemur mín uppröðun á borgaranum.

 1. Botn á brauði.
 2. Salat/kálblað
 3. Sneið af tómat
 4. Tómatsósa
 5. sætt gult sinnep
 6. Kjötið
 7. sneið af súrri gúrku
 8. Sýrður með graslauk
 9. Loka með topp af brauði.
 10. það er líka gott að hafa rauðlauk með fyrir þá sem vilja.

Ég lofa ekki bara góðum mat heldur stemningu yfir leiknum með þessari skemmtilegu máltíð sem á örugglega eftir að gefa lukku fyrir Ísland á HM.

Já það er eins gott að geta staðið við það stóra loforð

Verði ykkur að góðu og áfram Ísland

María

Aðrar greinar sem þér gæti líkað

Skrifaðu athugasemd