-Samstarf-
Ég hef lært það af reynslunni að allt sem er matarmegin eða heitir brauðréttir er mun vinsælla en kökur í veislum og fer allra fyrst af borðum.
Kökur eru meira aukaatriði en þeim má auðvitað ekki sleppa því þær eru partur af fallegum veislum.
Mér finnst alltaf gaman að fá eitthvað nýtt og skemmtilegt en ég verð að segja að það er oft svoldið það sama búið að vera undanfarið, kjúklingaspjót, brauðréttir og það allt sem ég er samt alls ekki að gera lítið úr.
Enda hef ég hef lært að það gamla góða hittir alltaf í mark, þó það sé gaman að hafa nýstárlegt með.
Hér er ég með lasagna í munnbitum, og ég lofa það er svoooo gott. Það er kalt en það skiptir engu máli enda bara svo gott.
Ég ber það fram með ofureinfaldri sósu og raspa smá parmesan yfir og sting svo tannstöngul eða pinna í hvern bita og voila allt til.
Það er nú samt smá undirbúningur en ekkert sem þarf að hræðast. Hér þarf að sjóða lasagna plöturnar í potti áður en þær eru fylltar. En mér fannst De cecco plöturnar henta afar vel í þessa munnbita.
Svo smyr maður gúmmelaðinu á hverja plötu rúllar upp og stingur í ofn rétt svo að osturinn bráðni, eftir smá kólnun er svo hver rúlla skorin í smærri bita og ég lofa að bitarnir haldast saman án þess að allt leki úr.
Þetta er ekki mikið mál, og eitthvað sem allir ættu vel að geta gert. Hér þarf bara að passa að setja vel af olíu með í vatnið svo plöturnar límist ekki saman.
Síðan er kjötsósan alveg eins gerð og með uppskriftinni minni auðveldasta lasagna í heimi, sem má finna hér.
Hráefni
- 1 pakki De Cecco lasagna plötur
Hakksósa
- 300 gr nautahakk
- 1/2 laukur
- 1/2 græn paprika
- 2 hvítlauksgeirar
- 1/2 dós Hunts diced tomatoes eða niðursoðnir tómatar
- 30 gr Hunts tómatpúrra
- 1 msk agavesíróp eða önnur sæta
- 1 tsk þurrkað oregano
- 1 tsk þurrkað timian
- 1 tsk hvítlauksduft (ekki salt heldur Garlic powder)
- 1 tsk laukduft
- 1 tsk paprikuduft
- 1 teningur af nautakraft
Hvít sósa
- 200 gr philadelphia Original
- 160 gr rifinn parmesan ostur
- 100 gr rifinn mozzarella
- 20-30 gr spínat
- Pínu múskat
Ofan á
- 1/2 dós Hunts tómatar diced tomatoes
- 1/2 tsk fínt borðsalt
- Rifinn parmesan ostur
Aðferð
- Gott er að byrja á að setja vatn í pott og salta mjög mjög vel og setja eins og 2-3 msk af olíu í vatnið
- Þegar vatnið byrjar að sjóða setjið þá lasagnaplöturnar út í en ekki setja þær klesstar saman, takið þær í sundur
- Látið sjóða í 30 mínútur en setjið hníf reglulega á milli lasagnaplatanna svo þær festist ekki saman (gerið hakksósuna á meðan þær sjóða)
- Þegar þær eru soðnar slökkvið þá undir og látið standa í potttinum áfram
Hakksósa
- Setjið allt nema hakkið saman í blandara og maukið í sósu
- Setjið hakkið á pönnu og saltið og piprið
- Hellið næst sósunni úr blandaranum út á hakkið á pönnunni og látið sjóða við vægan hita saman í eins og 20 mínútur og gerið hvítu sósuna á meðan
Hvít sósa
- Hrærið Philadelphia upp í skál og raspið parmesan ostinn út í
- Hrærið næst mozzarella ostinum saman við og spínatinu
- Kryddið með smá múskati
Samsetning
- Takið eina plötu af lasagna og leggið á bretti
- Smyrjið á hana einu lagi af hvítri sósu og setjið svo eitt lag af hakksósu yfir og passið að láta ná í alla kanta og enda
- Rúllið svo lasagnaplötunni upp og passið að hafa hana þétt rúllaða og endurtakið svona þar til fylling og hvít sósa er búið
- Setjið svo smá vatn í eldfast mót bara örlítið og spreyið með pam spreyi og leggjið rúllurnar á
- Endurtakið svona þar til öll fylling er búin og eldasta mótið er fullt af rúllum
- Spreyið næst smá vatni yfir rúllurnar og breiðið álpappír yfir
- Látið svo í 200 °C heitan ofnin í 10 mínútur eða þar til ostur er bráðnaður inn í rúllunum
- Á meðan rúllurnr eru í ofninum setjið þá restina af Hunts tómötunum í dósinni í blandara og 1/2 tsk fínt salt og maukið bara í eina sekúndu og setjið í skál til að bera fram með rúllunum
- Takið svo rúllurnar úr ofninum og leyfið þeim að kólna undir álpappírnum þar til rúllurnar hafa aðeins stífnað og lekur ekki úr þeim
- Skerið svo hverja rúllu í tvo til þrjá munnbita, raðið á fat og setjið ponsu af sósunni sem þið gerðuð ofan á og raspið parmesan yfir. Stingið tannstöngli eða pinna ofan í hvern munnbita
- Berið svo strax fram svo þorni ekki pastað og hafið sósuna með til hliðar
Verði ykkur að góðu
María