-Samstarf-
Ég sýndi ykkur hér um daginn frá fallegu nýju hrærivélinni minni og snilldar brauðbökunarskálinni sem ég fékk frá Rafland.
Brauðbökunarskálin er svo mikil snilld að ég á vart orð yfir því hversu gott er að eiga eina slíka. Hún bara einfaldar svo gerbaksturinn.
Hvernig ? Jú því með skálinni þarf ég ekki að nota fjöldann allan af skálum og fötum undir baksturinn eins og svo oft vill verða.
Með skálinni þá blandar maður í deigið, hnoðar í henni og hefar og það sem meira er að maður bakar í henni líka.
Já ótrúlegt en satt en skálin má fara í ofninn og það þykir mér svo mikil snilld. Baksturinn verður líka bara svo ofboðslega góður í henni eins og brauðið sem ég gerði hér um daginn.
Auk þess þá finnst mér bara sparnaðurinn við þrifinn svo dásamlegur en allir fylgihlutirnir á hrærivélinni sjálfri mega fara í uppþvottavél sem og brauðbökunarskálin.
Í þetta sinn þá ákvað ég að gera kanilsnúðaköku með skálinni, kanilsnúðakaka er í raun bara einn risastór kanilsnúður sem maður sker í sneiðar.
Útkoman var dásamlega góður silkimjúkur kanilsnúður sem ég hvet ykkur til að prófa að gera.
Ef ykkur langar að kynna ykkur brauðbökunarskálina nánar má lesa um hana hér. Einnig er hægt að panta hana á netinu og fá senda heim.
Hráefni
Deig
- 140 gr mjólk
- 65 gr sykur
- 6 gr þurrger
- 1 egg
- 40 gr ólífuolía
- 365 gr hveiti
- 1/2 tsk salt
Fylling
- 40 gr smjör
- 1 1/2 msk kanill
- 55 gr sykur
- 55 gr púðursykur
Rjómaostakrem
- 65 gr rjómaostur
- 30 gr mjúkt smjör
- 130 gr flórsykur
- 1/2 tsk vanilludropar
Aðferð
Deig
- Byrjið á að setja volga mjólk, sykur og ger saman í brauðbökunarskálina og hrærið saman léttilega með sleikju. Látið standa í eins og 5 mínútur og takið tímann
- Setjið næst olíu og egg út í og hrærið þar til vel blandað saman
- Bætið nú salti og hveiti út í og látið hnoðast með krókinum á vélinni, deigið er til þegar það er búið að hringa sig utan um krókinn
- Setjið nú lokið á brauðbökunarskálina og látið hefast í 30-40 mínútur á volgum stað (Má líka hefast lengur, alveg í nokkra tíma þess vegna). Ég læt það alltaf hefast yfir volgum miðstöðvarofni
- Athugið að deigið hefast ekkert svakalega mikið og er frekar þungt í sér, svo ekki hafa áhyggjur af því
- Á meðan deigið er að hefast útbý ég kremið og fyllinguna inn í snúðana
Fylling
- Bræðið smjörið og blandið því svo saman við kanilinn, púðursykurinn og sykurinn
- Blandið vel saman
Rjómaostakrem
- Hrærið saman mjúku smjörinu, rjómaostinum og vanilludropunum
- Síðast set ég svo flórsykurinn út í og hræri vel saman þar til silkimjúkt og kekkjalaust
Næsta skref
- Þegar deigið er búið að hefast er það flatt út í þunnan ferning sem er aðeins lengri á breiddina en lengdina
- Smyrjið svo fyllingunnni yfir allt deigið
- Rúllið síðan deiginu upp í pulsu og hafið hana frekar þétt uppvafða og langa
- Rúllið pulsunni/lengjunni svo upp í einn stóran snúð (hægt að ímynda sér að maður sé að gera snigil) og leggjið á lokið á brauðbökunarskálinni með smjörpappa undir
- Látið svo hefast undir skálinni í eins og 20 mínútur til viðbóðar
- Bakið svo á 185 °C-190 C° blæstri í 10-15 mínútur með skálina yfir, takið svo skálina af lokinu og bakið í 10-15 mínútur til viðbótar
- Takið næst úr ofninum en snúðakakan á að vera gullinbrún þegar hún kemur úr ofninum
- Hvolfið svo brauðbökunarskálinni yfir lokið með nýbakaðri kökunni á og látið hana standa þar undir í eins og um 10 mínútur
- Setjið svo síðast rjómaostakremið á kökuna sjóðandi heita og berið fram heita
Verði ykkur að góðu
María