Ef þú elskar möndluköku þá er þessi eitthvað fyrir þig. Gabríela elsta dóttir mín kom heim með þessa uppkskrift úr vinnuni, en hana hafði hún fengið hjá henni ömmu Stínu sem hún vinnur með.
Lengi vel hélt ég að amma Stína væri gömul og sæt feit lítil kona sem bakar kökur alla daga en nei það kom síðar í ljós að hún er jafnaldra mín og alls engin amma enda á hún engin barnabörn.
En hvað um það, þegar matvandasta manneskjan sem ég þekki segir að eitthvað sé gott, þá hlýtur það að vera gott svo ég ákvað að prófa að baka kökuna sem hún hafði ekki getað hætt að tala um síðan hún smakkaði hana.
Og já hún er þrusugóð !! Ekki nóg með það heldur er hún bara svo auðveld í bakstri að hér þarf ekkert nema litla skál og handþeytara ef þið nennið ekki að skíta út hrærivélina.
Glassúrinn er síðan skemmtilega öðruvísi en hann inniheldur Ribena safa sem gerir kremið fallega bleikt og því þarf engan matarlit. Auk þess gerir Ribena bragðið sem rétt nær að skína í gegn að gera töfra með möndlubragðinu.
Ég lofa að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum með þessa. Athugið að ég setti hana í stórt mót og tvöfaldaði uppskriftina en venjulega er hún sett í bara venjulegt kringlótt mót og á að vera bara svona þunnur botn með kremi ofan á.
Hráefni
Botn:
- 75 gr smjör eða Ljóma
- 1 dl sykur
- 2 egg
- 2,5 dl hveiti
- 2 tsk lyfitduft
- 1/2 tsk salt
- 1 tsk möndludropar
- 1 dl mjólk
Krem:
- 3 dl flórsykur
- 1 msk heitt vatn
- 1 msk Ribena safi
Aðferð
Kakan:
- Hrærið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst
- Bætið eggjunum saman við einu í einu og þeytið vel
- Bætið nú þurrefnunum við ásamt möndludropum og mjólk
- Ekki þeyta of mikið bara rétt þannig blandist saman svo kakan verði ekki seig
- Setjið í kringlótt kökuform sem er smurt að innan en gott er að nota form á bilinu 21-24 cm stórt
- Bakist við 180-185 C° blástur í 20-25 mín og passið að baka ekki of lengi svo hún verði ekki þurr
Kremið:
- Setjið flórsykur í skál og sjóðið vatn
- Setjið svo sjóðandi heitt vatnið ásamt Ribena safanum út á og hrærið vel saman
- Setjið svo strax þegar kremið er til á kökuna en hún þarf að vera búin að kólna fyrst svo ekki gera kremið fyrr en þá því það stífnar
Punktar
Uppskriftin dugir í eitt lítið form eða 21 cm í þvermál. Kakan hér á myndunum er tvöföld uppskrift en þá er hægt að setja hana í frekar stórt mót. Mér finnst hún samt best í 21 cm forminu. Einnig er hægt að nota 24 cm eða 26 cm en þá er kakan töluvert þynnri.
Verði ykkur að góðu
María