-Samstarf-
Ég veit ekkert betra þegar fer að kólna í veðri á haustin en góða súpu eða geggjaða böku. Hér er t.d ein gömul uppskrift af einni böku sem bregst ekki.
Þessi nýja hér hins vegar er aðeins öðruvísi, hún er gerð alveg frá grunni þ.e skorpan en samt svo ofureinföld. Mér fannst ekkert mál að gera hana og þetta er svona uppskrift sem maður getur bara hent í.
En það eru akkurat þannig uppskriftir sem ég elska að gera, þessar sem hafa þannig flæði að eitt leiðir af öðru og fellur svo vel saman.
Bakan er ekki bara einföld heldur svo góð líka, stútfull af osti, skinku og púrrulauk. Hér notaðist ég við Cheddar, Havartí og parmesan. Er hægt að biðja um betri blöndu en það ?
Skorpan var líka alveg fullkomin, svona hálf lagskipt ef þið fattið hvað ég meina eða eins og sagt er á ensku flaky.
Hægt er að bera bökuna fram í fallegu eldföstu móti en ef þið hyggist taka hana úr forminu og setja hana á fallegan disk er sniðugt að spreyja smá Pam spreyi fyrstt inn í formið svo hún losni vel og örugglega.
Ekki samt spreyja of mikið af því, þar sem það er smjör í skorpunni og þá gæti þetta orðið of feitt. Notið bara ef þið hyggist taka hana úr mótinu, eins og smellukökuformi eða slíku og setja hana á annað fat.
Ég held það sé óhætt að segja að þessi mun engan svíkja enda fullkomið jafnvægi milli ostana, púrrunar og skinkunar.
Hráefni
Botn
- 1 stórt egg
- 2 1/2 msk. klakavatn
- 1 1/2 bolli hveiti
- 1/2 tsk salt
- 140 gr smjör skorið í teninga
Fylling
- 20 gr smjör
- 100 gr púrrulaukur
- 1 1/2 bolli matreiðslurjómi
- 4 stór egg eða 5 lítil
- 2 tsk ferskt timian eða 1 tsk þurrkað
- Múskat á hnífsoddi (má sleppa en gefur gott bragð)
- 60 gr parmesan
- 50 gr rifinn cheddar ostur
- 100 gr Havarti ostur
- 80 gr skinkustrimlar
- pínu salt og pipar
Aðferð
Botn
- Setjið egg og klakavatn í litla skál og pískið saman með gaffli og leggið til hliðar
- Setjið svo hveiti og salt í blandara á pulse
- Skerið smjör í teninga og bætið við í blandarann og pulsið þar til er orðið eins og mylsna
- Setjið að lokum eggjavatnið og pulsið þar til verður að fallegri kúlu
- Fletjið svo deigið út og leggjið yfir mót og skerið kanta af ef þeir ná uppfyrir kantana (notið pam sprey ef þið ætlið að taka úr forminu og bera fram á disk, sleppið ef þið ætlið að bera fram í mótinu)
- Stingið svo í deigið með gaffli út um allt og setjið í frystir meðan fyllingin er útbúin
Fylling
- Skerið púrulaukinn smátt og hitið smjörið á pönnu
- Steikið laukinn í smjörinu en bara við vægan hita þar til verður mjúkur, alls ekki brúna hann
- saltið ögn og piprið
- Setjið svo havarti ost og parmesan í blandara og malið smátt
- Setjið svo egg í skál og alla ostana 3 saman við ásamt rjómanum og hrærið vel saman
- saltið smá og piprið og kryddið með timian og muskat og hrærið aftur saman
- Takið svo botninn úr frystir og forbakið hann við 180 C°hita í 12-15 mínútur
- Þegar hann kemur úr ofninum lækkið þá hitann niður í 165 C°
- Setjið svo laukinn á botninn á bökunni og hellið eggjaostablöndunni yfir allt saman
- Stingið í ofninn í 45 mínútur
- Takið svo út og leyfið henni að kólna en mér fannst hún langbest þegar hún var búin að standa á borði í svoldinn tíma og var við stofuhita. Má líka bera fram heita og kalda úr ískáp.
Punktar
Ef þið notið bökunarform eins og smelluform er betra að leyfa köntunum að ná út fyrir formið svo það leki ekki niður með brúnunum, notið þá líka Pam sprey svo hún losni vel frá þegar þið takið hana úr mótunu. Ef þið notið eldfast bökuform þarf ekki að nota Pam.
Verði ykkur að góðu
María