-Samstarf-
Ég elska kökur eins og Subway kökurnar, þessar sem eru stökkar en mjúkar í miðjunni. Mættu kannski kallast Amerískar smákökur eða cookies.
Þessar eru akkurat þannig og ó svo góðar. Dásamlegar smákökur með hvítu súkkulaði og Karamellu Marianne brjóstsykur sem kemur með gleðileg jól bragð í kökurnar.
Hér hafið þið um tvennt að velja að setja Marianne brjóstsykurinn ofan á eingöngu í bakstrinum og svo að setja enn meira á kökurnar sjóðandi heitar úr ofninum.
Fyrir þá sem vilja hafa kökurnar meira mjúkar myndi ég gera bara fyrsta skrefið en fyrir hina sem elska að fá smá hart undir tönn mæli ég með að setja líka á heitar kökurnar sem þýðir enn meiri karamella.
Fyrir ykkur sem áttið ykkur ekki á hvað Marianne brjóstsykur er þá er það myndtubrjóstsykurinn sem er venjulega með súkkulaði inní.
Nema nú er hann til með dásamlegri mjúkri karamellufyllingu líka og þvílíkt sem hann er góður. Í þessum kökum er einnig að finna hvítt súkkulaði svo samsetningin er dásamleg.
Hvítt súkkulaði, milt myntubragð og karamella, hér getur ekkert klikkað og ég lofa að þessar eru alveg guðdómlega góðar.
Hráefni
- 210 gr hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk matarsódi
- 1/4 tsk salt
- 100 gr smjör
- 110 gr strásykur
- 80 gr púðursykur
- 1 stórt egg
- 2 tsk vanilludropar
- 150 gr hvítir súkkulaðidropar
- Gróft salt
- 1-2 pokar Marianne brjóstsykur með karamellufyllingu (í bláröndóttum pokum, ef þið ætlið að setja á eftir á þarf tvo poka)
Aðferð
- Hitið ofn á 180 C° blástur
- Setjið í frekar smáa skál hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt
- Setjið svo í hrærivélarskál smjör, og öllum sykrinum og þeytið þar til ljóst og létt
- Bætið þá egginu og vanilludropum út í og hrærið áfram þar til er loftkennt ljóst og létt
- Passið að stoppa aðeins á milli og skafa af köntunum í skálinni svo að það hrærist allt vel saman
- Hafið svo hrærivélina í gangi og bætið hveitiblöndunni rólega út í þar til allt er rétt blandað saman ekki ofhræra
- Setjið svo hvíta súkkulaðið út í og hrærið létt saman
- Mótið svo kúlur frekar stórar úr vænni msk af deigi og setjið á bökunarplötu með smjörpappa, deigið dugar í c.a 14 kúlur. Dreifið grófu salti létt yfir hverja kúlu
- Takið svo 1-2 stk Marianne brjóstyskur og lemjið á hann svo hann opnist og setjið ofan á hverja köku en passið að kremja hana ekki, hún þarf að haldast í kúlu. Passið að setja mylsnuna af brjóstykrinum með ofan á.
- Bakið svo í 12-14 mínútur og takið út, ekki verða stressuð og halda að þær séu hráar því fyrst eru þær mjög linar en þær halda áfram að bakast aðeins eftir að vera teknar úr ofninum og jafna sig og stífna
- Ef þið ætlið að nota aukabrjóstsykur ofan á takið þá eins og rúmlega hálfan poka af Marianne brjóstsykrinum og myljið hann í morteli eða með því að lemja á hann og togið til karamelluna inn í milli fingrana á ykkur. Setjið svo mylsnuna og karamelluna ofan á kökurnar sjóðandi heitar úr ofninum
- Fyrir þá sem vilja ekki mikinn brjóstsykur undir tönn er nóg að setja bara þennan eina sem fer með inni ofninn á kökurnar
Verði ykkur að góðu
María