-Samstarf-
Hér er um heita dýfu að ræða eins og eðlu sem dæmi. Hvað er betra en heit dýfa sem er full af osti og allskyns gúmmelaði ?
Þú þarft ekki að elska spínat til að finnast þessi dýfa góð, ég get nánast lofað að ef þér finnst ostur og heitir brauðréttir góðir þá muntu elska þessa með heitu baguette brauði eða nachos.
Mozzarella, rjómaostur, parmesan, majónes, spínat, hvítlaukur og ætiþistlar !! Hér er sko ekkert að fara að klikka og mæli ég með að hafa þetta í partý eða jafnvel sem brauðrétt í veislu.
Hér notast ég við Philadelfia rjómaost og Heinz majónes en mér finnst dýfan koma best út þannig enda bæði silkimjúkt og virkilega bragðgott og auðvelt að hræra saman.
Ég mæli líka eindregið með því að þið notið frosið spínat en ekki ferskt. Ástæðan fyrir því er að ferkst spínat er enn með stönglana og getur því verið of gróft í svona dýfu,
Þegar spínat er frosið er það mýkra og auðveldara að borða án þess að komi taumar eða strengir sem maður vill alls ekki.
Hráefni
- 1 dós Philadelfia Original rjómaostur eða 200 gr rjómaostur að eigin vali
- 70 gr sýrður rjómi
- 60 gr Majónes (ég notaði Heinz)
- 1 hvítlauksrif marið eða 1/2 geiralaus hvítlaukur marinn
- 60 gr rifinn parmesan ostur
- 60 rifinn Mozzarella ostur
- Pipar
- 250 gr ætiþistlar úr krukku
- 150-170 gr frosið spínat
Aðferð
- Hitið ofninn á 180-185 C°blástur
- Byrjið á að taka spínat úr frysti og setja í örbylgjuofn í eins og 2 mínútur
- Kreistið svo allt vatn úr spínatinu og leggið á eldhúspappa til að ná mestum raka úr því
- Sigtið svo ætiþistlana svo öll olía eða safi fari af og skerið þá svo smátt
- Hrærið næst saman í skál rjómaosti, sýrðum rjóma, majónesi og mörðum hvítlauknum, piprið ögn og hrærið vel saman
- Setjið næst parmesan ostinn, mozzarella, spínatið og ætiþistlana saman við og hrærið vel saman
- Setjið í eldfast mót og hitið í ofninum í 20 mínútur
- Berið fram með nýbökuðu baguette brauði eða nacho flögum sem dæmi
Punktar
Hér mæli ég með að þið notið frosið spínat. Ástæðan fyrir því er að ferskt spínat er enn með stönglana og getur því verið of gróft í svona dýfu, þegar spínat er frosið er það mýkra og auðveldara að borða án þess að komi taumar eða strengir með sem er ekki skemmtilegt í svona silkimjúka dýfu. Hægt er að gera dýfuna daginn áður þess vegna, og geyma í kæli yfir nótt, taka hana svo út eins og 1 klst áður en á að hita hana. Einnig er hægt að hita upp afgangsdýfu en ef þið eigið eitthvað eftir í kæli er hægt að taka það magn út sem þið viljið og hita upp í örbylgjuofni.
Verði ykkur að góðu
María